Lítill kraftur er enn sem komið er í makrílveiðum íslenskra uppsjávarskipa. Fjögur þeirra voru í Síldarsmugunni í gær að leita en Börkur NK var á heimleið með rúm 700 tonn sem veidd voru í samstarfi við Vilhelm Þorsteinsson AK. Skip Vinnslustöðvarinnar héldu á ný til leitar austur af Eyjum í gær.

„Við fórum í síðustu viku smáhring hérna í kringum Eyjar til að skoða svæðið. Það var eitthvað af makríl þar á ferðinni. Hann var í bland við síld og hefði mátt vera meira af honum. Við förum aftur út í kvöld og tökum hring í kringum Eyjar aftur og síðan liggur leiðin sennilega í suðaustur ef ekkert finnst í kringum Eyjar. Ef ekkert verður að frétta þar sýnist mér leiðin liggja að endingu austur í Síldarsmugu,“ segir Sindri Viðarsson, yfirmaður uppsjávarvinnslu Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum.

Sindri segir það liggja í hlutarins eðli að hagkvæmast væri að veiða makríl á heimamiðum með mun minni tilkostnaði. Menn hafi engan veginn gefið upp vonina um makríll gangi í meiri mæli upp að landinu.

Austar á þessu svæði leituðu Hornarfjarðarskipin Jóna Edvalds og Ásgrímur Halldórsson og urðu lítils vör.

Veiðin gæti farið að glæðast

Beitir NK, uppsjávarskip Síldarvinnslunnar á Neskaupstað, kom í Síldarsmuguna austan við norsku landhelgislínuna í gær eftir 360 sjómílna siglingu. Sigurður Jóhannesson er skipstjóri í túrnum. Hann sagði allt með kyrrum kjörum og menn að leita makríls á svæðinu.

Börkur NK hafði verið í ábyrgðarslipp á Skagen í Danmörku og hélt þaðan beint í Smuguna sl. Föstudag. Fyrsta holinu lauk á mánudag og reyndist aflinn vera 120 tonn eftir að dregið hafði verið í  sjö tíma. Ólafur Gunnar Guðnason stýrimaður sagði að þetta hefði verið fallegur 460 gramma fiskur.

„Það er mjög lítið um að vera eins og er og menn bara að leita. Þetta er dreift og lítið af fiski. Börkur lagði að stað heim aðfaranótt miðvikudags með um 700 tonn sem hann og Vilhelm Þorsteinsson fiskuðu saman. Vilhelm er hérna enn og að auki Barði NK og Hoffell SU og þrjú skip á leiðinni. Auk þess er hérna slatti af Rússum og átta eða níu Færeyingar. Það eru allir í sömu málum, að leita að makríl,“ segir Sigurður.

Hann sagði lítið að gerast líka Noregsmegin línunnar. Í fyrra hafi veiðin glæðst einmitt um mánaðamótin júní/júlí. Menn bindi vonir við að það gerist aftur núna.

Sigurður segir að menn hafi alls ekki gefið upp vonina um að makríll gangi inn í íslensku lögsöguna þar sem styttra er að sækja hann. Það hafi ekki mikið verið leitað þar og skynsamlegt að halda leit áfram þar.