Erpur Snær Hansen, forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands, segir olíublauta fugla hafa áfram verið að finnast í Vestmannaeyjum, bæði „suður á eyju og í höfninni líka.“

Síðastliðið sumar fundust einnig fuglar í úteyjum og á Landeyjasandi.

Nú síðast fannst olíublaut langvía í Höfðavíkinni þann 4. janúar, eins og fram kemur í Facebook-færslu Péturs Steingrímssonar sem Náttúrustofa Suðurlands deildi.

Á síðasta ári fundust yfir tvö hundruð olíublautir fuglar, bæði í Eyjum og á nokkuð stóru svæði við suðurstöndina. Efnagreining á sýnum úr olíublautum fjöðrum sýndi að svartolía sömu gerðar hafi valdið þessari mengun, en þó er mengunin í Vestmannaeyjahöfn annars eðlis.

Sigurrós Friðriksdóttir, teymisstjóri hafs og vatns hjá Umhverfisstofnun, segir ekki margt nýtt hafa gerst í þessu frá í sumar, og það sé í sjálfu sér vonbrigði.

„En við erum ekkert að gefast upp. Við munum áfram skoða þetta og gera það sem við getum til að komast til botns í því hvað er að valda þessu.“

Grunur beinist að skipsflaki

Hvað svartolíuna varðar leikur grunur á að hún komi úr skipsflaki einhvers staðar austan við Vestmannaeyjar.

Fenginn var haffræðingur til að greina mögulegan upprunastað mengunarinnar út frá hafstraumum. Endanlegrar niðurstöðu frá honum sé að vænta á næstunni, en bráðabirgðaniðurstöður sýna að uppruninn geti verið einhvers staðar austan við Vestmannaeyjar.

Einnig er nú beðið eftir því að Landhelgisgæslan komist til þess að fljúga yfir svæðið með flugvél sinni, sem er með svokallaðan SLAR-búnað sem getur greint mengun undir yfirborðinu.

„Það sést engin mengun á yfirborðinu sem gæti bent til þess að hún sé að mara einhvers staðar undir yfirborðinu, nái ekki alveg upp til yfirborðsins en það gæti hugsanlega sést með þessum búnaði sem er í flugvél Gæslunnar.

Hún segir einnig erfitt að átta sig á umfangi lekans.

„Það er af því að við sjáum hana ekki. Það er enginn mengunarflekkur sjáanlegur á yfirborði sjávar. En þetta er svartolía og það þarf ekki annað en að hún leki hægt út úr skipi, í dropatali. Hún er þykk og þá breiðist hún út.“

Þá segir hún að úr því olían kemur ekki upp á yfirborðið þá séu það væntanlega first og fremst tegundir sem eru að kafa eftir æti sem lenda í henni.

Erpur hefur vaktað Landeyjasand í samvinnu við Umhverfisstofnun.

„Öll hræ sem finnast eru skráð og sýni tekin úr olíublautum fuglum ca. mánaðarlega. Þetta hefur verið gert í áratugi við Norðursjó og víðar.”

Hann segir tíðni olíublautra fugla á Landeyjasandi, núna á tímabilinu frá júlí til desember, vera fremur lága miðað við Norðursjó, „en ekki er búið að vinna úr gögnunum þar sem athuganir munu standa amk 1-2 ár.“

Erpur segir síðan hafnarmengunina í Eyjum vera „staðbundið vandamál sem illa gengur að ráða við.“

Hann segir grun liggja á því að olía og grútur liggi á hafnarbotninum „þar sem slíku er sökkt með sápu af hafnarstarfsmönnum. Það þarf að kanna með botnsýnatöku og er það mál á byrjunarstigi og þarf samvinnu við Umhverfisstofnun og hafnaryfirvöld um efnagreiningar.“

Sigurrós segir að fuglar sem fundust í höfninni hafa verið með einhvers konar fituefni. „Það bendir til þess að fuglar hafi líka komist í einhvers konar grút og við vitum af því að einhvern tímann hefur orðið vart við grútarmengun í höfninni.“