Upplýsingagnótt er um íslenskan sjávarútveg og dæmi um að upplýsingaflæðið hafi skert samkeppnisstöðu sjávarútvegsfyrirtækja í viðskiptum við erlenda aðila, var meðal þess sem fram kom í máli Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, á hinum árlega Sjávarútvegsdegi sem haldinn var í tíunda sinn í dag í samstarfi Deloitte, SFS og Samtaka atvinnulífsins.

Heiðrún Lind sagðist eiga erfitt með að greina hvað það sé nákvæmlega sem skorti á í opinberum upplýsingum um sjávarútveg.

Enn ítarlegri upplýsingar í kjölfar lagabreytingar

Hún sagði eftirlit með reglum sem gilda um hámarkshlutdeild og tengda aðila vera á hendi Fiskistofu þar sem opinberar upplýsingar úr fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra, sem eru öllum aðgengilegar, liggi til grundvallar. Þær upplýsingar séu orðnar enn ítarlegri eftir nýlegar lagabreytingar sem kveða á um skyldu til að upplýsa um raunverulega eigendur. Hið sama gildir um upplýsingar úr ársreikningaskrá sem eru öllum aðgengilegar.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, sagði engan fót fyrir hálfkveðnum vísum.
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, sagði engan fót fyrir hálfkveðnum vísum.

Samningsstaða veikst

„Raunar er það svo að fiskiskip og útgerðir geta sig nánast hvergi hreyft án þess að Fiskistofa hafi af því veður og það er verr. Strangar reglur gilda til að mynda um tilkynningar til Fiskistofu um landanir og afla og allt er þetta aðgengilegt á rauntíma á gagnasíðum Fiskistofu. Þar má meðal annars sjá upplýsingar eins og um hlutdeildir, úthlutanir, veiðileyfi eftir tegundum, aflamark, viðskipti með aflamark, landanir og aflastöðu, tegundatilfærslur, flutning á milli ára, umframveiði og svo framvegis. Allt er þetta sundurgreint eftir árum, eftir útgerðum, eftir skipum, eftir löndunarhöfnum og tegundum. Raunar eru þessi gögn svo ítarleg og gagnsæ að dæmi eru um að samningsstaða íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja hafi veikst gagnvart erlendum kaupendum sem nýta þessar upplýsingar óspart í viðræðum um kaup og kjör á fiski,“ sagði Heiðrún Lind.

Greinin sjálf stuðlað að auknu gagnsæi

Þá fari fram margvísleg söfnun og birting upplýsinga um sjávarútvegsfyrirtækja hjá Hagstofu Íslands, Samgöngustofu, Verðlagsstofu skiptaverðs, Landhelgisgæslu og tollayfirvöldum.

„Atvinnugreinin hefur líka sjálf stuðlað að auknu gagnsæi þar sem fjöldi fyrirtækja hafa sett sér stefnu í samfélagsábyrgð og birt ýmis konar ófjárhagslegar upplýsingar. Því til viðbótar eru tvö af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins með hlutabréf skráð í Kauphöll og þriðja fyrirtækið á leið þangað í lok árs. Á þessum aðilum hvílir rík upplýsingaskylda.“

Allt uppi á borði

Heiðrún Lind benti jafnframt á að sjávarútvegur og nú fiskeldi einnig væru einu atvinnugreinarnar á Íslandi sem sem boði til sérstaks fundar árlega undir fundaröðinni Sjávarútvegsdagurinn til þess að ræða afkomu, rekstur og fjárhagslega stöðu atvinnugreinarinnar ár frá ári.

„Það er nákvæmlega enginn fótur fyrir hálfkveðnum vísum um skort á gagnsæi þegar kemur að sjávarútvegi. Ég fullyrði að engin atvinnugrein, hvort heldur er hér á landi eða á hinum alþjóðlega vettvangi sjávarútvegs, hefur lagt jafn mikið upp úr því að hafa upplýsingar aðgengilegar og til reiðu hverjum þeim sem vill afla sér frekari þekkingar,“ sagði Hreiðrún Lind.