Skipulags- og framkvæmdaráð Norðurþings leggur til að sveitarstjórnin setji nú í auglýsingu skipulagstillögu vegna áforma Samherja fiskeldis ehf. um stækkun landeldisstöðvar sinnar á Núpsmýri í Öxarfirði. Segir ráðið að komið hafi verið til móts við sjónarmið ráðsins með fullnægjandi hætti.
Landeldisstöð Samherja er í dag með árlega framleiðslugetu upp á 1.700 tonn af laxi og bleikju á ári. Unnið er að stækkun með fleiri eldiskerjum og er reiknað með að framleiðslan aukist úr um 1.600 tonnum í 3.000 tonn.
Ný hreinsistöð fyrir frárennsli
„Samhliða stækkuninni er lögð áhersla á að endurnýta vatn í eldinu sem mest og draga úr frumdælingu vatns. Það gefur aukna möguleika á söfnun næringarefna í frárennsli sem gerir starfsemina umhverfisvænni. Frárennsli frá nýjum kerjum verður hreinsað í nýrri frárennslis hreinsistöð,“ segir í greinargerð sem fylgja tillögu um breytt skipulag á svæðinu vegna framkvæmdanna.
Jarðarkaup tryggja aðgengi að sjó
Fram kemur að frá árinu 1988 hafi verið fiskeldisstöð á Núpsmýri sem átt hafi rekið sjódæluhús á sandinum í landi Akursels, handan Brunnár. Samherji keypti fyrir nokkrum árum Akursel sem er 1.350 hektara jörð á ósasvæði Jökulsár á Fjöllum.
„Jarðarkaupin voru gerð með það að markmiði að tryggja fiskeldisstöðinni aðgengi að sjó, auðvelda losun lífrænna efna og nýta til landgræðslu og hefja kolefnisjöfnun rekstursins,“ segir í greinargerðinni.
Í takt við tímann
Meðal viðfangsefna skipulagsbreytingarinnar er aukin sjótaka með endurnýjuðu sjótökuhúsi, borholur til að hita sjóinn í fiskeldinu og fiskimykjutankar til að taka við úrgangi frá fiskeldinu. Að auki á að endurnýja göngubrú yfir Brunná. Að sögn Soffíu Gísladóttur, formanns skipulags- og framkvæmdaráðs Norðurþings er það gert til þess að unnt verði að aka tækjum þar yfir á land Akursels.
„Skipulagið felur í sér framkvæmdir sem gerir fiskeldisstöðinni á Núpsmýri kleift að stækka og þróast í takt við kröfur nútímans, samanber kröfur um fráveitu- og fastefnameðhöndlun. Áhrif skipulagsins á efnahag og atvinnulíf eru því jákvæð og áhrif á aðra umhverfisþætti talin óveruleg,“ segir í greinargerðinni með deiliskipulagstillögunni sem nú er til meðferðar hjá Norðurþingi.