Líf og fjör er í höfninni á Arnarstapa þessa dagana. Nærri fimmtíu bátar hafa verið í höfninni og 39 þeirra eru byrjaðir á strandveiðum

„Já, það er allt á hvolfi. Hér er allt á fullu, og þetta byrjaði vel,“ segir Björn Arnaldsson hafnarstjóri á Arnarstapa.

„Það fóru 25 á sjó í gær og allir með skammtinn,“ sagði Björn þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn til hans á þriðjudag. „Það var samt norðan helvítis bræla og enginn á sjó í Rifi og enginn í Ólafsvík.“

Strandveiðar hófust á mánudaginn og tvo fyrstu dagana reru 175 bátar, en eins og venjulega eru þeir flestir á A-svæðinu sem nær frá sunnanverðu Snæfellsnesi til Ísafjarðardjúps.

Fleiri en í fyrra

Samkvæmt samantekt Landssambands smábátaeigenda lönduðu þessir 175 bátar 139 tonnum í samtals 193 róðrum. Það gerir að meðaltali 722 kg í róðri.

Fjöldinn sem búinn er að tryggja sér leyfi er nokkru meiri en á síðasta ári, þegar 463 voru komnir með strandveiðileyfi á sama tíma.

Björn hafnarstjóri segir misjafnt eftir árum hve miklu er landað á Stapa, en það hefur farið upp í 3.000 tonn á ári þegar best lætur en svo niður undir 1700 þegar minna er um að vera.

„Þetta er voða mikið í kringum 2000 tonn, en það fer mikið eftir veðri. Ef það er meiri norðan átt þá er meiri veiði hérna á Stapa, en ef það er mikil sunnanátt þá minnkar hún, af því þá stendur aldan alltaf inn á hafnarsvæðið og þá er ekkert næði hérna sunnan við.“

Þröngt á þingi

Höfnin er lítil frá náttúrunnar hendi og Björn segir þar oft þröngt á þingi, en allt gangi það samt upp.

„Hér er bara einn löndunarkrani og það er bara híft stanslaust og landað. Þetta gengur í góðu veðri og bjargast alltaf á sumrin þegar margir eru á skakinu. En það er allur gangur á þessu. Þetta byrjar oft með miklum látum en svo fækkar það kannski eftir fiskeríinu.“

Höfnin hefur verið löguð mikið á undanförnum árum.

„Hér hafa verið heilmiklar framkvæmdir núna í tuttugu ár af og til. Síðasta stóra verkefnið var dýpkunin, við bæði dýpkuðum hafnarsvæðið og stækkuðum það. Það er búið að endurnýja bryggjuna, lengja grjótgarð og búa til meira skjól.“