Fiskeldi í hafi mun meira en tvöfaldast til ársins 2050, fara úr 29 milljón tonnum í 74 milljón tonn. Þessu spáir DNV, norskættað alþjóðafyrirtæki sem sinnir ráðgjöf, vottunarmálum, rannsóknum og fleiru, meðal annars í sjávarútvegi.

Á ráðstefnunni North Atlantic Seafood Forum, sem haldin var á netinu dagana 8. til 10. júní, greindi Bente Pretlove frá spá DNV um þróun fiskeldis fram til ársins 2050. Með fiskeldi í hafi er þarna eingöngu átti við eiginlegt fiskeldi, ekki þangeldi sem annars er oft haft með í heildartölum um eldi í hafi.

Þetta þýðir síðan að framleiðslan í fiskeldi nálgast það að verða jafn mikil og heildarmagn allra fiskveiða í heiminum. Alls hefur mannkynið verið að veiða um og yfir 80 milljón tonn af fiski árlega síðan um 1990, og heildarveiðin mun vera komin yfir 90 milljón tonn nú, en ekki er talið að sjálfbærar veiðar geti staðið undir mikið meiri afla en það.

Fleiri munnar að metta

Spáin frá DNV er meðal annars byggð á spá um mannfjöldaþróun í heiminum, en talið er að mannkyninu muni fjölga um fjórðung á næstu þremur áratugum, eða úr 7,8 milljörðum árið 2020 í 9,9 milljarða.

Pretlove sagði að jafnframt að vegna batnandi lífskjara almennt megi reikna með því að jarðarbúar muni hver og einn að meðaltali þurfa 10 prósent meira af próteini um miðja öldina heldur en nú, og þegar fólksfjölgun um 25% er tekin með í reikninginn muni neysla á próteini því aukast um 35% á þessum þremur áratugum.

Pretlove sagði óhjákvæmilegt að megnið af þessari auknu próteinneyslu komi úr fiskeldi: „Fiskeldi í hafi verður í lykilhlutverki við að tryggja framboð af próteini,” segir í spánni frá DNV.

Hún segir að til þess að þetta gangi eftir þurfi töluvert nýsköpunarstarf. Þróa þurfi nýja tækni og DNV spáir því að áherslan verði í vaxandi mæli á eiginlega fiska frekar en skelfisk eða aðrar sjávardýrategundir.

Auka þurfi afköstin

Jafnframt spáir DNV því að eldið færist í auknum mæli upp á land annars vegar og lengra út í haf hins vegar, enda þótt meginþunginn verði áfram í skjóli fjarða: „Við spáum því að árið 2050 verði 13% fiskeldis úthafseldi en 10% landeldi.”

Ný tækni sé nauðsynleg bæði til þess að auka afköstin og til að draga úr því plássi sem eldisstöðvar taka, bæði á landi og úti á sjó.

Hvað eldi sjávargróðurs varðar spáir DNV því að það aukist úr um 30 milljónum tonna upp í 50 milljónir tonna um miðja öldina, en viðurkennir þó að mikil óvissa sé í þessari spá vegna þess að áhuginn á eldi sjávargróður hefur verið vaxandi upp á síðkastið. Vöxturinn í þeim geira gæti því orðið hraðari.

DNV er alþjóðleg skráningar- og flokkunarstofa sem var upphaflega stofnuð árið 1864 og hét þá Det norske veritas. Eftir að DNV sameinaðist Germanischer Lloyd árið 2013 hét það DNV-GL, en frá og með 1. mars síðastliðnum breyttist nafnið aftur í DNV.