Ísfisktogarinn Vestmannaey VE hélt til veiða á mánudag að aflokinni þjóðhátíð og var verið að landa úr skipinu í morgun. Aflinn er nánast fullfermi af þorski, ýsu, ufsa og löngu. Skipstjóri í veiðiferðinni var Egill Guðni Guðnason og var hann spurður hvernig hún hefði gengið.

„Það má segja að hún hafi gengið vel. Það var keyrt beint austur á Ingólfshöfða og þar vorum við að veiðum allan tímann. Við vorum einungis 34 tíma að veiðum og vorum með um tvö tonn á tímann. Það er ekki hægt að kvarta yfir því. Það var smá golukaldi til að byrja með í túrnum en síðan ríkti bongóblíða,” segir Egill Guðni.

Vestmannaey mun halda á ný til veiða í kvöld.