Íslenska hátæknifyrirtækið Hefring hlaut nýlega Hvatningarverðlaun TM og Sjávarútvegsráðstefnunnar, Svifölduna, fyrir hönnun sína og þróun á snjallsiglingar- og vöktunarkerfi, sem miðar að því að auka sjálfbærni, öryggi og hagkvæmni í siglingum. Með tækninni getur áhöfn stýrt bátum og skipum eftir rauntíma leiðbeiningum kerfisins, af meira öryggi, með minni eldsneytisnotkun og þar með dregið úr kolefnisfótspori sínu.
Í notkun í 14 löndum
Björn Jónsson, rekstrarstjóri og einn af þremur stofnendum Hefring, segir að viðurkenningin sé ákaflega mikilvæg, ekki aðeins fyrir stöðu fyrirtækisins á Íslandi heldur einnig á erlendum mörkuðum. „Verðlaunin eru mikilvæg vegna þess að í þeim felst viðurkenning á verkefninu og þeirri vinnu sem hefur komið okkur á þennan stað“ segir Björn. „Hvatningarverðlaunin hjálpa okkur ennfremur þegar við sækjum áfram fram á erlendum mörkuðum en kerfið er þegar í notkun hjá viðskiptavinum í fjórtán löndum,“ bætir hann við. Hefring tryggði sér fyrr á þessu ári 2,2 milljóna evra fjármögnun en meðal hluthafa í fyrirtækinu nú eru fjárfestingarsjóðir frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Portúgal ásamt fjárfestingararmi þýska fyrirtækisins Schulte Group, sem er eitt af stærstu fyrirtækjum í heimi í skiparekstri.
20% eldsneytissparnaður
Notkun á snjallsiglingarkerfi Hefring, sem kallast IMAS eða “Intelligent Marine Assistance System”, fer hratt vaxandi. „Í hverjum mánuði bætast við um 1500 til 2000 ferðir og gögnin sem safnast í þessum ferðum sýna að með notkun kerfisins megi draga úr eldsneytisnotkun um allt að 20%, sem lækkar bæði eldsneytiskostnað og dregur úr neikvæðum umhverfisáhrifum,“ segir Björn. Meðal verkefna sem unnið er að hjá fyrirtækinu er að auka sjálfbærni í strandveiðum í einu af fylkjum Kanada, en þar eru gerðir út yfir eitt þúsund fiski- og humarbátar. Fyrstu niðurstöður verkefnisins er að það megi draga úr eldsneytiskostnaði um sem nemur 240 milljónum króna fyrir þennan flota á hverju veiðitímabili, ef miðað er við 55 veiðidaga á hverju tímabilii. Hann bætir við að hjá Hefring sé unnið að gagnadrifinni þróun og þó svo að þetta sé eina kerfið sinnar tegundar enn sem komið er, þá fagni fyrirtækið allri samkeppni því markaðurinn hafi þörf fyrir snjalllausnir í siglingum. „Við þurfum bara að hlaupa hraðar en samkeppnin og vera ávallt að minnsta kosti skrefi á undan öðrum,“ bætir Björn við, ákveðinn þegar spurt er um samkeppnina.
Dregur úr slysahættu
Hefring, var stofnað 2018 en fyrstu árin fóru í rannsóknir og þróun á frumgerðum kerfisins sem svo leiddi af sér þróun á snjallsiglingarkerfinu eins og það er í dag, sem safnar rauntímagögnum um ölduhreyfingar, veður, hraða og vélarafköst báta og skipa meðan á siglingu stendur. „Gögnin eru samtímis notuð, til að reikna út og gefa áhöfn leiðbeinandi siglingahraða í rauntíma, sem getur dregið verulega úr líkum á slysum, lækkað viðhaldskostnað sem getur hlotist af ölduhöggum en allt slíkt veldur álagi á bát, skip og búnað sem og áhöfn og farþega,“ segir Björn ennfremur.
Sjóherir sem notendur
Þrátt fyrir að COVID heimsfaraldurinn hafi sett strik í reikninginn í upphafi, hafi markviss kynning á kerfinu farið af stað í byrjun árs 2022. Björn segir að sjófarendur sem nýti kerfið hafi nú þegar farið í um 30 þúsund ferðir og siglt samtals 460 þúsund sjómílur og áætlar hann að það samsvari um það bil 20 ferðum í kringum jörðina. „Viðskiptavinir okkar starfa meðal annars í löggæslu, strandgæslu, reka lóðsbáta, þjónusti aflands vindmyllugarða, eru í lagareldi auk þess sem ferðaþjónustuaðilar í rekstri báta og skipa nýta kerfið. Þá eru útgerðir fiskibáta og fiskiskipa meðal viðskiptavina og nýlega bættust sjóherir við sem notendur,” segir Björn. Hann segir að enn sem komið er hafi fyrirtækið ekki sótt inn á markað fyrir skemmtibáta en meðal hluthafa í fyrirtækinu er einn stærsti framleiðandi skemmtibáta í heiminum, svo þar liggi líka tækifæri sem nýtt verði á næstu misserum.
Aðrir stofnendur Hefring eru þeir Karl Birgir Björnsson, framkvæmdastjóri og prófessor Magnús Þór Jónsson, tæknistjóri (CTO).
Hefring er með starfsaðstöðu í Sjávarklasanum þar sem starfa níu manns en að auki þá er fyrirtækið með samstarfsaðila víða um heim.