Nýlega gaf Hafrannsóknastofnun út þá ráðgjöf að enginn kvóti yrði gefinn út fyrir loðnu á komandi vertíð. Guðmundur Þ. Jónsson á Vilhelm Þorsteinssyni EA kveðst þó telja góðar líkur á að það breytist.

„Ætli þeir fari ekki í leiðangur í janúar. Það hlýtur að koma einhver kvóti. Það vantaði mjög lítið upp á að það kæmi kvóti hjá þeim. Þeir voru búnir að spá í fyrra að það yrði ekki mikið á þessari vertíð miðað við loðnumælingar,“ segir Guðmundur.

Að sögn Guðmundar hefur veiðin á þessu ári verið ágæt, meðal annars á makrílvertíðinni. „Makrílinn kom bara ágætlega út miðað við það sem maður bjóst við. Hann var talsvert inni í lögsögunni,“ segir hann.

Erfitt að spá um makrílinn

Einnig hafi verið talsvert um norsk-íslensku síldina inni í lögsögunni. Hún sé ekki horfin þaðan en íslensku skipin séu hins vegar öll búin með kvótann. „Færeyingarnir bíða bara eftir að hún komi út fyrir línuna þar sem þeir mega vera,“ segir hann.

Spurður hvort einhverja vísbendingu um framtíðina megi lesa út úr því að makríllinn var talsvert inni í okkar lögsögu að þessu sinni segist Guðmundur vona að svo sé þótt engu sé hægt að spá.

„Maður veit aldrei hvernig þetta verður með hitastig og fleira. Það er svo breytilegt með þennan makríl. Það var ekkert í hittifyrra þannig að það er gríðarlega misjafnt hvað gerist,“ segir Guðmundur.

Skipstjórinn bendir einnig á að ágætis makrílveiði hafi verið í lögsögunni hjá Færeyingum í sumar en ekkert í fyrra. Lítið hafi verið hjá Norðmönnum fyrst í haust. „Það er bara allur gangur á þessu.“

Þreifa fyrir sér í Síldarsmugunni

Geir Zoëga, skipstjóri á grænlenska togaranum Polar Amaroq, er á leið með áhöfn sína í Síldarsmuguna að skima eftir norsku-íslensku síldinni.

„Fyrsti veiðidagurinn í Síldarsmugunni fyrra var 23. nóvember. Þannig að við förum af stað um helgina og skoðum austur fyrir. Ef það er ekkert komið í Smuguna þá fer ég bara og tek einn kolmunnatúr í færeysku lögsögunni og fer svo í Smuguna í lok nóvember,“ segir Geir sem kveður Polar Amaroq eiga á fimmta þúsund tonna kvóta í norsk-íslensku síldinni.

Skipið hefur verið á Reyðarfirði um nokkra hríð. „Við erum búnir að vera á makríl í sumar og fram á haust og svo tókum við smá pásu og ætlum að fara að kíkja á þetta bara núna,“ segir Geir sem kveður dönsku siglingamálastofnunina hafa skoðað togarann í reglubundnu eftirliti í hléinu og nú sé allt klárt og áhöfnin að tínast á staðinn.

Bjartsýnn þar til annað kemur í ljós

„Nei, blessaður vertu. Það verður loðna, verður ekki að vona það?“ svarar Geir spurður hvort hann telji að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um engan loðnukvóta í vetur muni standa.

„Miðað við mælinguna þá vantaði alla loðnu fyrir norðan en svo vantar ekki nema 700 tonn að þeir mæli í kvóta. Þannig að ég hef ekki trú á öðru en að þetta verði að minnsta kosti skoðað. Maður er að minnsta kosti alltaf bjartsýnn þar til annað kemur í ljós.“

Loðnu úr Polar Amaroq  hefur verið landað á Íslandi að sögn Geirs. „Þar sem er hæsta verðið,“ svarar hann spurður um hvar aflanum sem í vændum sé verði landað. „Ég reikna með í Færeyjum eða Danmörku.