Loðnufrysting hófst í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað sl. laugardag. Það var grænlenska skipið Polar Ammassak sem var þá komið til löndunar með 1.200 tonna afla.

Polar Ammassak hefur landað tveimur loðnuförmum áður í Neskaupstað en þeir fóru báðir til mjöl- og lýsisframleiðslu. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Guðmund Hallsson, skipstjóra á Polar Ammassak, og spurði hann út í veiðarnar.

„Þetta gekk bara ágætlega hjá okkur. Við fengum aflann um 73 mílur austur af Langanesi og þar var töluvert að sjá. Við fengum aflann í þremur holum og voru frá 300 og upp í 500 tonn í holi. Dregið var í 6-8 tíma. Þessi loðna, sem þarna fékkst, er hin þokkalegasta. Það eru 38-40 stykki í kílóinu. Þetta er ekki stærsta loðnan, sem er venjulega fremst í göngunni. Hún er ábyggilega komin framhjá þessu svæði sem við vorum á. Þarna var ágætisveður þar til í lokin en það brast á með skítaveðri í síðasta holinu. Mér líst bara vel á framhaldið á þessum veiðum. Þessi loðna, sem við vorum í, virtist býsna róleg og það var ekki mikil ferð á henni. Hrognafyllingin í henni er ennþá mjög lág. Í reyndinni eru þessar veiðar hinar þægilegustu svo fremi að veður sé gott. Við erum um átta tíma á miðin frá Neskaupstað,” segir Guðmundur.

Lokið var við að frysta loðnuna úr Polar Ammassak um hádegi í gær og gert er ráð fyrir að skipið haldi á ný til veiða síðar í dag. Auk Polar Ammassak hefur grænlenska skipið Tasiilaq verið að loðnuveiðum norðaustur af landinu og í gærkvöldi hélt Barði NK einnig til loðnuveiða.