Verði öll áform um laxeldi á landi hér að veruleika má gera ráð fyrir 150 milljarða króna fjárfestingu og þúsundum starfa, segir í nýrri skýrslu frá Hafrannsóknastofnun sem hér er sagt frá. Stutt er síðan slík áform þóttu vonlaus.

„Á tiltölulega fáum árum hefur sýn manna á möguleika laxeldis á landi breyst. Fyrir um 10 árum var algengt viðhorf að um væri að ræða vonlausa iðju ævintýramanna. Með aukinni þekkingu og reynslu, ásamt sögulega háum framleiðslukostnaði í sjókvíaeldi, hefur það viðhorf almennt breyst,“ segir Leó Alexander Guðmundsson, líffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, í nýbirtri og ítarlegri samantekt hans um laxeldi á landi.

„Á næstu árum verður áhugavert að fylgjast með þróuninni í greininni, einkum hvernig ganga muni að fjármagna verkefni, manna eldisstöðvar, framleiða á markað og þróa tæknina enn frekar. Til skemmri tíma verður áhugavert að sjá hver þróunin í áætluðu framleiðslumagni úr landeldi verður en tölurnar hafa rokið upp á skömmum tíma. Að sama skapi verður áhugavert að fylgjast með þróun í sjókvíaeldi varðandi umhverfismál, dýravelferð og framleiðslukostnað.“

Alþjóðleg þróun

Leó segir hér um alþjóðlega þróun að ræða sem nú hafi einnig náð hingað.

„Þar til fyrir örfáum misserum var ekki litið á landeldi sem vænlegan kost í Noregi. Sumir álitu að alls ekki ætti að styðja við framþróun landeldis því þá gæti Noregur misst
samkeppnisforskot sitt sem fælist í kjöraðstæðum fyrir sjókvíaeldi,“ segir Leó.

„Orðræðan hefur hins vegar gjörbreyst á afar skömmum tíma og nú eru stór áform uppi um landeldi í Noregi.“

Hér á landi er stefnt að umfangsmiklu laxeldi á landi og áform eru uppi um stórar landeldisstöðvar í Ölfusi, Vestmannaeyjum og á Reykjanesi. Þau áform eru mislangt á veg komin, en Leó segir að ef þau verða öll að veruleika megi „lauslega gera ráð fyrir 150 milljarða króna fjárfestingu og þúsundum starfa. Hér eru um margs konar störf að ræða sem krefjast séfræðiþekkingar á ýmsum sviðum, t.d. fiskeldisfræðingar, rafvirkjar, vélfræðingar, líffræðingar, fiskverkafólk o.fl. Búast má við samkeppni um mannafla til að sinna þessum störfum þótt ekki kæmi til ört stækkandi sjókvíaeldis.“

„Val á hentugum stað fyrir landeldisstöð getur verið flókið, krefst mikils undirbúnings og er tímafrekt ferli,“ segir í skýrslunni.

„Almennt má segja að mikilvægt sé að líta til umhverfisaðstæðna (t.d. getur eldisstöð valdið umhverfistjóni eða getur umhverfið valdið tjóni á eldisstöð), aðgengi að auðlindum, möguleika á úrganglosun, fjarlægð frá mörkuðum (meira fjallað um það síðar) eða aðgengi að þeim. Eins hvort lækka megi stofnkostnað með nýtingu hvers kyns innviða og mögulega eldri bygginga. Af þeim verkefnum sem eru hafin eða fyrirhuguð og greint hefur verið frá í fjölmiðlum, er ekki óalgengt að sjá merki þess að reynt sé að lækka stofnkostnað með ýmsum hætti.“

Einstakar aðstæður

Á Reykjanesskaga, og þá að meðtöldu Ölfus-svæðinu, eru aðstæður til landeldis einstakar. Bæði þar og í Öxarfirði er nægur jarðsjór sem einfaldar tilveru eldisfyrirtækjanna verulega og á Reykjanesi er jarðhiti sem gefur af sér heitt affallsvatn, bæði úr Reykjanesvirkjun og úr orkuveri í Svartsengi. Stolt SeaFarm á Reykjanesi nýtir sér það við eldi á Senegalflúru og Matorka nýtir sér einnig heitt affallsvatn þar.

Stór áform eru uppi um landeldi við Þorlákshöfn. Aðsend mynd
Stór áform eru uppi um landeldi við Þorlákshöfn. Aðsend mynd
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Varðandi það hvort landeldi geti komið í stað sjókvíaeldis á heimsvísu virðast flestir fræðimenn, sérfræðingar og álitsgjafar sammála um að framleiðsla úr landeldi verði viðbót við sístækkandi markað með lax,“ segir Leó í skýrslu sinni.

„Helstu atriðin sem nefnd hafa verið að aftri framgöngu landeldis er fjármögnun verkefna, samkeppni við seiðaeldisstöðvar sjókvíaeldis um eldisbúnað og skortur á starfsfólki með nauðsynlega menntun og þekkingu“. Auk þess séu „möguleg áhrif orkukreppunnar á meginlandi Evrópu nú um stundir enn sem komið er óljós.“

Menntunarmál segir hann síðan að þurfi að skoða sérstaklega, en bent hafi verið á að hérlendis sé takmarkað framboð af sérmenntuðum starfsmönnum. Sá þáttur sé ásamt fjármögnun verkefna oftast nefndur þegar kemur að því hvað standi landeldi helst fyrir þrifum.

Áhrif á markaði

„Gangi framtíðaráætlanir um stórfellda framleiðslu á laxi á landi eftir getur það haft áhrif á markaði með lax og framleiðslu í sjókvíaeldi, a.m.k. í sumum löndum,“ segir ennfremur.

Ef áætlanir um framleiðslu í landeldi ganga eftir, hvernig mun markaðurinn þá bregðast við? Spyrja má til dæmis hvort eldislaxinn verði auglýstur sem landeldislax og reynt að aðgreina hann frá laxi úr sjókvíaeldi. Þetta gæti verið gert á grundvelli náttúruverndarsjónarmiða eða jafnvel á grundvelli dýravelferðarsjónarmiða.

„Ef svo er mætti eins búast við samkeppni milli landeldislax frá ólíkum framleiðendum, þar sem þættir eins og hlutfall endurnýtingar vatns og losun næringarefna og gróðurhúsalofttegunda út í umhverfið gætu skipt máli.“

Árangursríkt landeldi gæti einnig leitt til minni stuðnings almennings við vaxtaráform í sjókvíaeldis, bæði í Skotlandi og Noregi.

Evrópa hefur verið mikilvægasti markaðurinn fyrir lax úr íslensku sjókvíaeldi, og gangi „framtíðaráætlanir í landeldi á heimsvísu eftir gæti samkeppni eldislax úr sjókvíum á Evrópumarkaði harðnað, sér í lagi ef Noregur yki framleiðslu í sjókvíaeldi líkt og stefnt er að. Enn fremur ef væntingar Norðmanna til úthafseldis og landeldis ganga eftir.“

Ekki sé gott að segja hvort eftirspurn muni halda í við aukið framboð, eða hvort verð á laxi muni lækka.

„Tíminn mun leiða það í ljós,“ segir Leó.