Samherjamenn telja sig hafa fullreynt að hægt er að stunda veiðar og geymslu á lifandi þorski á Íslandsmiðum til að jafna sveiflur í veiðum, sem óhjákvæmilega verða vegna veðurfars og gæfta, og lengja hillutíma afurða með geymslu á lifandi fiski í landkvíum.

Prófanir hafa verið gerðar undanfarin misseri á Oddeyri EA sem var sérstaklega breytt og lengd um eina tíu metra í þessu skyni.

Kristján Vilhelmsson, útgerðarstjóri hjá Samherja, segir að niðurstaðan úr verkefninu sé sú að þessi aðferðarfræði gangi upp. Þó þurfti að gera enn frekari breytingar á Oddeyrinni til að ná þeim árangri. Þegar því var að ljúka reið alheimsfaraldurinn yfir og ákveðið var að bíða með framhald verkefnisins.

„Þar fyrir utan hefur kvótinn verið skorinn niður síðan þetta var og við þurfum að draga úr sókn. En við teljum okkur hafa fengið niðurstöðu úr verkefninu. Þetta er hægt og gekk alveg upp. Þessi aðferð myndi jafna sveiflurnar í aðföngum fyrir vinnsluna auk þess sem við kæmum þá fiski fyrr út á markaðinn með því að geyma hann lifandi í kvíum á landi. En við bíðum bara átekta þar til fer að rofa til með veiðiheimildir,“ segir Kristján.

Kristján Vilhelmsson, útgerðarstjóri Samherja.
Kristján Vilhelmsson, útgerðarstjóri Samherja.
© BIG (VB MYND/BIG)

Oddeyrin liggur bundin við bryggju og er verkefnalaus sem stendur. Það sé alls ekki loku fyrir það skotið að hafnar verði veiðar og geymsla á þorski í skipinu til vinnslu í landi þegar betur árar hjá þorskstofninum og aflheimildir aukast á ný.

Samherji keypti uppsjávarskipið Chieftain af írskri útgerð gagngert til þess að gera tilraunir með þessar veiðar. Skipið, sem var 45 á lengd, var lengt um 10 metra hjá Karstensens á Jótlandi og því breytt fyrir bolfiskveiðar. Í stað þess að taka pokann inn á dekk og sturta úr honum er hann tekinn á síðuna og aflanum dælt um borð með sogdælukerfi. Þar fer hann í sérútbúna tanka og haldið þar lifandi. Í framhaldinu er fiskurinn unninn um borð eða komið með hann lifandi að landi.

Önnur hugmyndafræði

Fiskifréttir sögðu frá því í byrjun mánaðarins að verksmiðjutogari norska útgerðarfélagsins Bluewild, Ecofive, sem hannaður og smíðaður er af Ulstein Design, hefði fengið nýsköpunarverðlaunin á Nor-Fishing sjávarútvegssýningunni í Þrándheimi fyrir tæknilausnir. Aflinn verður fluttur lifandi í tanka fyrir neðan sjólínu og þaðan á efra verksmiðjudekk með yfirþrýstingslosun sem kemur í veg fyrir dæmigert tjón sem getur orðið við annars konar dælingu. Kristján segir muninn á aðferðafræði Norðmannanna og Samherja þann að þeir fyrrnefndu láta sérsmíða skip í verkefnið og þeir eru með aðra lausn á því að ná fisknum lifandi úr pokanum. Móttakan sé einnig öðruvísi en hugsunin er sú sama; að halda fiskinum lifandi allt fram að vinnslu. Munurinn er einnig sá að fiskurinn verður unninn í flök og bita um borð í skipinu í vinnslulínu sem Skaginn 3X framleiðir.

„Útgerðarmaðurinn norski kynnti þetta verkefni fyrir nokkrum árum og hefur síðan unnið mikið með Ulstein skipasmíðastöðinni að útfærslu skipsins. En okkar hugmyndafræði er önnur,“ segir Kristján.