Álsey VE 2, uppsjávarskip Ísfélagsins í Vestmannaeyjum, hefur verið úr leik allt frá því að skipið fékk veiðarfæri í skrúfuna í september síðastliðnum. Skipið er núna í slippnum í Reykjavík þar sem verið er að undirbúa það fyrir málun en viðgerð á skrúfunni drógst talsvert á langinn.

Álsey var smíðuð árið 2003 hjá Fitjar Mek í Noregi og hét áður Hardhaus. Það er 69 metrar á lengd og með 6.120 hestafla Wärtsilä aðalvél. Lestarnar eru 12 talsins, samtals 1.955 rúmmetrar. Ísfélagið keypti skipið af norskri útgerð fyrir tæpum fjórum árum. Skipið var við veiðar á síld í september þegar veiðarfærin flæktust í skrúfunni sem skemmdist. Senda þurfti skrúfuna erlendis til viðgerðar en skipið lagðist á meðan við höfn í Reykjavík. Þar sem tímapressan var ekki mikil hefur gangurinn verið með þessum hætti en skipið er nú aftur komið í slipp og skrúfan komin á sinn stað.

Ekkert dauðans stress

„Það er ekkert dauðans stress en bara ákveðið ferli sem hófst þarna í október og það er svo sem engri loðnu fyrir að fara enn sem komið er. Við höfum verið í heimasíldinni undan farið sem hefur rúllað áfram meðan veðrið er í lagi og við eigum þannig lagað lítið eftir af kvóta. Við áttum enn þá um 8 þúsund tonn eftir af makríl þegar þeirri vertíð lauk. Við vorum hálfhissa að ekki yrði hækkað upp í 35% það sem mætti flytja milli ára, sérstaklega í ljósi þess að ekki hefur verið samið um skiptinguna milli strandríkjanna. Hverjum erum við að halda góðum,“ spyr Eyþór Harðarson útgerðarstjóri hjá Ísfélaginu.

Nú er að hefjast nokkurra daga loðnuleit uppsjávarskipsins Aðalsteins Jónssonar SU. Eyþór segir að flestir líti raunsætt á hlutina þótt innst inni voni allir að það verði loðnuvertíð í vetur. Bjartsýnin dugi mönnum skammt heldur séu það einungis beinharðar mælingar sem gefi einhverja niðurstöðu. Engu að síður er verið að endurnýja tæki í fiskmjölsverksmiðju Ísfélagsins, setja upp nýjan gufuþurrkara og forsjóðara sem skilar um talsverðri afkastaaukningu.

Pathway í maí

Ísfélagið er nú með fjögur upp sjávarskip í rekstri, þ.e. Álsey VE, Heimaey VE, Suðurey VE og Sigurð VE. Í maí á næsta ári bætist fimmta uppsjávarskipið í flotann sem er Pathway sem keyptur var af skosku útgerðarfyrirtæki fyrr á árinu. Eyþór segir að ekki standi þó til að Ísfélagið geri þau öll út heldur verði annað hvort Heimaey eða Suðurey seld og eru skipin bæði í söluferli. Pathway hefur verið í notkun hjá skosku útgerðinni en þar hafa menn mun minna fyrir uppsjávarveiðunum en þekkist hér heima því stutt er á miðin. Notkunin á skipinu er því ekki eins og menn eiga að venjast hér við land.

Pathway mun leysa Suðurey eða Heimaey af hólmi næsta sumar.
Pathway mun leysa Suðurey eða Heimaey af hólmi næsta sumar.