Curio hefur hlotið 2,3 milljóna evra styrk frá Evrópusambandinu til þess að þróa áfram frumgerðir nýrrar vélar sem sker klumbubeinið af bolfiski. Tækið hefur verið smíðað í frumgerð og þykir hafa sýnt stuðla að betri nýtingu afla, spara verulega mannafla og draga úr kolefnisfótspori.

Elliði Hreinsson, framkvæmdastjóri Curio, segir að styrkurinn frá Evrópusambandinu hafi haft úrslitaáhrif á það að hægt var að fara af krafti í það að þróa búnaðinn.

Um er að ræða tölvustýrða klumbuskurðarvél fyrir h/g fisk (head and gutted). Mest er unnið af slíkum fiski, ferskum eða uppþíddum, í Noregi, annars staðar í Evrópu og Bandaríkjunum. Fram til þessa hafa klumbubeinin verið skorin af fyrir flökun ýmist með handskurði eða gamlir hausarar verið nýttir til verksins við illan leik og með lélegri nýtingu. Mörgum hefur samt þótt skárri kostur að nýta hausara til verksins í stað mannaflsfreks handskurðar.

Elliði segir staðan sé jafnframt sú að erfitt sé að fá vinnuafl í fiskvinnsluna og klumbuskurður sé mannaflsfrek iðja. Alls staðar sé slegist um vinnuaflið. Pólverjar bjargi að miklu leyti fiskvinnslu á Íslandi, Úkraínumenn pólskri fiskvinnslu, Kóreumenn úkraínskri vinnslu og Kínverjar kóreaskri. Þannig sé gangurinn í þessu og því mikilsvert að til komi ný tækni og aukin sjálfvirkni inn í mannaflsfrek störf í fiskvinnslunni.

Sótt um styrk til að sækja um styrk

Hugmyndin að klumbuskurðarvélinni fæddist í Curio fyrir all nokkru síðan og búið var að smíða fyrstu frumgerð í hálfgerðum hjáverkum. Eitt sinn er Elliði var staddur á sjávarútvegssýningu benti fulltrúi frá íslenska fyrirtækinu Evris, sem sérhæfir sig í því að aðstoða fyrirtæki við að sækja um alþjóðlega styrki til vöruþróunar og markaðssetningar, á þann möguleika að sækja um Horizon 2020 nýsköpunarstyrk Evrópusambandsins í iðnaði sem öllum aðildarríkjum og EES-ríkjum gefst kostur að sækja um. Samstarf tókst með Curio og Evris um að fara þessa leið.

Fyrsta skref Curio var að sækja um styrk sem er nýttur til þess að undirbúa verkefnið á þann hátt að hægt sé að sækja  um aðalstyrkinn. Curio, ásamt um 1.800 öðrum fyrirtækjum, komst í gegnum þá síu. Fyrirtækið fékk 50.000 evra styrk og öll sú upphæð og meira til fór í að undirbúa umsóknina um aðalstyrkinn. Af þessum 1.800 fyrirtækjum komust 120 áfram og var fulltrúum þeirra boðið til Brussel til að kynna frekar verkefnið og verja það fyrir dómnefnd.

Minni matarsóun

„Ég hef í gegnum tíðina ekki haft mikla trú á skriffinskuveldi af hvaða toga sem það er. En ég verð þó að viðurkenna að það var óhemju faglega að þessu öllu staðið. Verkefni okkar var metið út frá mælikvörðum nýsköpunar og verðmætasköpunar innan tiltekinnar atvinnugreinar. Styrknum skyldi vel varið og hann á að skila sér til baka út í iðnaðinn. Í okkar tilfelli vóg það þungt að búnaðurinn mun auka nýtingu sjávarafurða og draga úr matarsóun og notkun hans fylgir auk þess minna kolefnisspor,“ segir Elliði.

Aðalstyrkurinn er sem fyrr segir 2,3 milljónir evra og verður helmingur hans nýttur til að þróa áfram fjórar frumgerðir sem verða prófaðar á mismunandi markaðssvæðum og með mismunandi hráefni. Vélarnar verða keyrðar í sex mánuði jafnvel hjá ólíkum verkendum og gögnum safnað allan tímann. Hinn helmingur styrksins verður nýttur til að þróa lokaútgáfu vélarinnar m.a. á grunni þeirra gagna sem söfnuðust á prófunartímanum. Heildarkostnaðurinn af verkefninu er hins vegar u.þ.b. 3,2 milljónir evra.

Norskur styrkur

Einn viðskiptavina Curio er norski saltfiskframleiðandinn Jangaard í Noregi. Curio hefur selt fyrirtækinu flökunarvélar og annan búnað. Í einni heimsókn Norðmannanna hingað til lands sáu þeir frumgerð klumbuskurðarvélarinnar þegar hún var í keyrslu og hrifust mjög af. Þetta leiddi til samstarfs á þessu sviði og Jangaard fær eina af frumgerðunum til prófunar í sex mánuði. Hinar vélarnar fara til Bretlands, Póllands og ein verður líklega prófuð hér á landi. Reiknað er með að prufukeyrslunar hefjist seinni part árs og vélin verði tilbúin til framleiðslu um mitt ár 2020.

„Við sóttum um og fengum í samstarfi við Jangaard lítinn styrk frá FHF sjóðnum í Noregi. Samtök sjávarútvegsfyrirtækja í Noregi halda úti sjóðnum og veita styrki úr honum til nýsköpunarverkefna. Stjórn sjóðsins leit á verkefnið sem mikið framfaraspor fyrir norskan fiskiðnað og var tilbúinn að styrkja okkur í gegnum Jangaard,“ segir Elliði.

1,5-7% aukning í nýtingu

Eingöngu í vinnslunni hjá Jangaard starfa á fimmta tug manns eingöngu við það að skera klumbubein og sama er uppi á teningnum hjá fjölda annarra fyrirtækja í Noregi, Póllandi, Bretlandi og víðar. FHF í Noregi gerði könnun meðal fiskvinnsla þar í landi í tengslum við umsóknarstyrk Curio og komst að þeirri niðurstöðu að klumbruskurðarvélin gæti leitt til aukinnar nýtingar á hráefni um allt frá 1,5% upp í jafnvel 7% eftir aðferðum á hverjum stað fyrir sig. Því til viðbótar myndi þessi nýja tækni leiða til aukinnar, mannaflssparandi sjálfvirkni.

„Við erum lítið fyrirtæki og höfum alltaf verið mjög bundnir af því að vel gangi að selja aðrar vörur okkar. Með auka innspýtingu eins og frá Evrópusambandinu og FHF sjóðnum gátum við farið í verkefnið af fullum krafti óháð sölu á annarri vöru. Stóri markaðurinn fyrir klumbruskurðarvélina er Noregur og nánast öll Evrópa, það er Færeyjar, Ítalía, Portúgal, Pólland, Litháen, Lettland, Rússland og að þó nokkru leyti einnig í Bandaríkjunum. Við erum rétt nýbyrjaðir að kynna vélina. Við vorum á sjávarútvegssýningunni í Boston og verðum líka á sýningunni í Brussel þar sem aðalkynningin fer fram.“

Fimm manns verða frá Curio í Brussel og verður varpað upp myndbandi af klumbruskurðarvélinni. Fyrirtækið vill síður sýna frumgerðina strax og vill komast nær markaðssetningu áður en það verður gert. Verið er að sækja um einkaleyfi fyrir hluta af búnaðinum.

Dótturfyrirtæki í Noregi, Skotlandi og Bandaríkjunum

„Við bindum miklar vonir við nýju vélina og vonum að hún verði eitt af stóru söluatriðunum hjá okkar á næsta ári. Curio hefur verið í mjög örum vexti og vöxum nú mest erlendis.  Við erum að setja upp verksmiðju í Peterhead í Skotlandi. Í byrjun árs 2018 stofnuðum við félag í Noregi þar sem við erum enn sem komið er einungis með þjónustu en líklega verður einnig sett upp samsetningarverksmiðja þar. Í þessum töluðu orðum erum við svo að stofna dótturfélag í Bandaríkjunum sem sinna mun þjónustu og minniháttar framleiðslu. Annars fer framleiðslan að langstærstum hluta fram í Hafnarfirði og í útibúinu okkar á Húsavík,“ segir Elliði.

Um 50 manns starfa hjá Curio. Fyrir utan klumbruskurðarvélina eru væntanlegar þrjár til fjórar nýjar vélar frá Curio í lok þessa árs og á næsta ári, nýjungar sem auka munu vöruvalið hjá fyrirtækinu.