Eftirlitsmenn Fiskistofu fylgdust með veiðum á tólf langreyðum á vertíðinni. Engar alvarlegar athugasemdir voru gerðar, en vegna mistaka eða bilunar tókst ekki að koma þremur deyddum hvölum í land.

Hvalveiðivertíð sumarsins lauk 28. september síðastliðinn. Þá höfðu veiðst alls 148 langreyðar. Fyrsta langreyðin veiddist 23. júní en sú síðasta 28. september. Samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu voru 53 af þessum dýrum karldýr á stærðarbilinu 52 til 64 fet en 92 kvendýr á stærðarbilinu 54 til 69 fet. Loks voru þrjú dýr skráð „veidd en komu ekki að landi.“

„Það að dýr hafi ekki komið að landi þýðir að dýr var sannarlega skotið og deytt en náðist ekki að skipshlið til flutnings í land,“ segir í svari Fiskistofu til Fiskifrétta. „Slík dýr eru engu að síður skráð sem veidd dýr. Dýrið sekkur mjög fljótt þegar það drepst. Þetta getur gerst t.d. vegna bilunar í skipi og/eða búnaði eða vegna mannlegra mistaka. Er það mjög sjaldgæft að slíkt gerist.“

Eftirlitsmenn Fiskistofu fylgdust í sumar með veiðum á 12 dýrum af þeim 49 sem veidd voru fyrir 24. ágúst, en þá tók ný reglugerð gildi sem fól það í sér að Matvælastofnun skuli taka að sér eftirlitið og fylgjast með því að við veiðarnar sé farið að lögum um velferð dýra. Engu að síður sinntu eftirlitsmenn Fiskistofu eftirlitinu áfram, en þá samkvæmt samstarfssamningi við MAST.

Fiskistofa segir að engar alvarlega athugasemdir hafi verið gerðar við veiðarnar á þessum tólf dýrum sem eftirlitsmenn fylgdust með, en í einu tilviki hafi þó verið „leiðbeint um meiri nákvæmni í skráningum og var það í upphafi veiðitímabilsins. Var strax brugðist við þeim athugasemdum og úrbætur gerðar.“

Svara vant hjá MAST

„Hvað varðar dýravelferðarhlutann þá er það í höndum MAST að meta niðurstöður eftirlitsins og svara spurningum um þann hátt,“ segir í svari Fiskistofu.

Engar upplýsingar var hins vegar að fá frá Matvælastofu enn sem komið er, bæði vegna leyfa starfsfólks og vegna tilfærslu fólks í störfum. Enginn sem haft var samband við hafði því þessar upplýsingar tiltækar.

Reglugerðin, sem sett var 24. ágúst, segir að Matvælastofnun skuli fylgjast með því að farið sé að lögum um velferð dýra, meðal annars með „eftirlitsferðum við veiðar, myndbandsupptökum veiðiaðferða og skráningu þeirra aðgerða sem varða velferð dýra.“

Upphaflega hafði Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra kynnt hugmynd um að einn í áhöfn hvors hvalveiðibáts yrði skikkaður til þess að fylgjast með veiðunum og taka þær upp á myndband sem síðan yrði afhent Matvælastofnun, en þegar til kom varð ekkert út því.