Vísindamenn um borð í rannsóknarskipi þvældust um Norður-Íshafið í heilt ár og hafa nú birt niðurstöður sínar. Svæðið er friðað gegn veiðum næstu 16 árin.

Nokkrir þorskar hafa fundist djúpt í Norður-Íshafinu, ekki langt frá Norðurpólnum. Þetta kom vísindamönnum í fjölþjóðlegum rannsóknarleiðangri töluvert á óvart, enda var vart talið að þorskur gæti þrifist þar í svo djúpum sjó meira en 500 kílómetra frá landi.

Hópur vísindamanna hélt til um borð í þýsku rannsóknarskipi, ísbrjótnum Polarstern, sem var látinn reka með ísnum um Norður-Íshafið í heilt ár, frá haustinu 2019 til haustsins 2020. Niðurstöður MOSAiC-leiðangursins voru birtar í vísindatímaritinu Science Advances þann 18. febrúar, en háskólinn í Stokkhólmi segir frá þessum rannsóknum á vef sínum.

Árið 2016 höfðu vísindamenn um borð í norska rannsóknarskipinu Oden í fyrsta sinn staðfest það, með bergmálsmælingum, að djúpt þarna í hafinu sé að finna nokkuð magn af smærri lífverum sem talið er að berist þangað með hafstraumum.

Í Polarstern-leiðangrinum fundust þar hins vegar stærri fiskar á 200 til 600 metra dýpi, þar á meðal Atlantshafsþorskur ásamt laxsíld, smokkfiski og ískóði.

Þorskarnir voru reyndar aðeins sex talsins, en rannsóknir sýndu að þeir komu upphaflega frá Noregi og höfðu dvalist í allt að sex ár í býsna köldum sjó.

„Þannig að jafnvel þótt engan sérstakan þorskstofn sé að finna í miðhluta Norður-Íshafsins þá sýna þessar rannsóknir að þeir geta lifað þar af. Svo virðist sem fáeinir þorskar finni þar næga fæðu til þess að haldast þarna við góða heilsu í lengri tíma,“ segir Pauline Snoeijes Leijonmalm, prófessor í sjávarvistfræði við háskólann í Stokkhólmi. Hún er jafnframt verkefnastjóri rannsóknarleiðangursins.

Samstarf um rannsóknir

Síðastliðið sumar tók gildi samningur, sem gerður var árið 2018, um að koma í veg fyrir stjórnlausar úthafsveiðar í miðhluta Norður-Íshafsins. Samninginn undirrituðu fulltrúar frá Íslandi, Noregi, Danmörku fyrir hönd Færeyja og Grænlands, Kanada, Rússlandi, Bandaríkjunum, Kína, Japan, Suður-Kóreu og Evrópusambandinu.

Á næstunni munu svo þessi sömu ríki, ásamt ESB, ýta úr vör stóru rannsóknarsamstarfi um Norður-Íshafið þar sem safnað verður upplýsingum um fiska og vistkerfi í miðhluta Norður-Íshafsins.

Evrópusambandið beið ekki eftir því að samningurinn tæki gildi heldur hóf strax fjármögnun rannsóknarverkefna á grundvelli hans með því að styrkja rannsóknir í Polarstern-leiðangrinum 2019-2020. Fyrstu niðurstöður þeirra rannsókna birtust í fyrrgreindri vísindagrein.

„Þetta samkomulag kemur í veg fyrir allar fiskveiðar í hagnaðarskyni næstu 16 árin hið minnsta, og setur vísindin í forgang,“ segir Leijonmalm.