Það hefur nú verið staðfest að möttuldýrið Didemnum vexillum hefur fundist í norskum sjó. Vísindamaður við norsku hafrannsóknastofnunina líkir dýrinu við plágu. Þar sem það nær fótfestu flæðir það yfir sjávarbotninn á stórum svæðum. Botnlægur gróður og dýr sem þar voru fyrir, þurfa að víkja og eiga ekki afturkvæmt.

Það var kafarinn og ljósmyndarinn Erling Svensen sem gerði þá uppgötvun að möttuldýrið er að koma sér fyrir við Noreg. Hann var að kafa við Engøyholmen, lítinn hólma við höfnina í Stavanger, þegar hann rak augun í eitthvað sem hann hafði ekki séð áður. Hann kafar reglulega á svæðinu og vissi að nokkrum mánuðum fyrr hafði ekkert þessu líkt verið þar að sjá. Til fróðleiks má geta þess að Erling Svensen enginn nýgræðingur í dýralífi sjávar og gaf út bók ásamt Frank Emil Moen sem heitir Marien Fish & Invertebrates of Northern Europe, sem er víða nýtt af sérfræðingum við neðansjávarmyndgreiningar.

Í umfjöllun norsku hafrannsóknastofnunarinnar er sjávarlíffræðingurinn Vivian Husa til svars. „Þetta er plága sem ég hef verið að bíða eftir undanfarin tíu ár,“ segir Vivian en hún hefur umsjón með skráningu og vöktun framandi tegunda í hafinu við Noreg.

„Tegundin hefur dreift sér eins og eldur í sinu á síðustu árum,“ bætir hún við og nefnir Holland, Frakkland, Írland og Bretland í því samhengi. Uppruni tegundarinnar er þó talinn vera Japan.

Maræla?

Fiskifréttir spurðust fyrir hjá Hafrannsóknastofnun.

Steinunn Hilma Ólafsdóttir, sérfræðingur á botnlífríkissviði Hafrannsóknastofnunar, segir að yfir þá dýrafylkingu sem Didemnum vexillum tilheyrir sé notað orðið möttuldýr á íslensku. Hins vegar séu afar fá sérnöfn á íslensku á tegundum innan þessa hóps. Segir hún dýrið vera kallað ýmsum heitum á ensku, t.d. Marine vomit eða Sea vomit en sennilega sé ekki um formleg heiti að ræða. Með þessi ensku heiti í huga stingur Steinunn Hilma upp á heitinu Maræla, sem er þá bein þýðing og er mjög lýsandi fyrir útlit dýrsins þar sem það dreifir sér. Heitið er svo gott og lýsandi að Fiskifréttir telja ekki ástæðu til að leita lengra eftir heiti á þennan vágest.

Áhrifin ekki ljós

„Ef skoðað er við hvernig aðstæður þetta dýr lifir ætti það að geta lifað í sjónum við Ísland, alla vega hér fyrir sunnan,“ segir Steinunn Hilma. „Hins vegar gæti verið að hitastigið sé ekki nægilega hátt að jafnaði til að tegundin dafni vel og hún fari að valda skaða. Nefnt hefur verið að nökkvar og ígulker eins og skollakoppur éta þessa tegund. Það er svo annað mál hvort þau nái að halda henni niðri. Þannig að áhrif á vistkerfið hér, ef hún kæmi hingað, eru ekki ljós.“

Steinunn Hilma Ólafsdóttir. Hér heldur hún á snjókrabba, en myndin er tekin í rannsóknaleiðangri við Vesturströnd Grænlands. Þessi krabbategund er ekki kominn til Íslands - ennþá. Ljósmyndari var líklega Laure deMontety.
Steinunn Hilma Ólafsdóttir. Hér heldur hún á snjókrabba, en myndin er tekin í rannsóknaleiðangri við Vesturströnd Grænlands. Þessi krabbategund er ekki kominn til Íslands - ennþá. Ljósmyndari var líklega Laure deMontety.

  • Steinunn Hilma Ólafsdóttir. Hér heldur hún á snjókrabba, en myndin er tekin í rannsóknaleiðangri við Vesturströnd Grænlands. Þessi krabbategund er ekki kominn til Íslands - ennþá. Ljósmyndari var líklega Laure deMontety.


Fiskifréttir spyrja sig hvort tegundin er þegar komin hingað. Það fer ekki fram sérstök vöktun á lífríki neðan fjöru við landið og möttuldýr eru ekki vel skráð hér við land. Ættingjar hennar, Didemnum polaris og Didemnum albidium eru í íslenskum sjó en valda ekki vandræðum.

„Það eru nokkrar tegundir sem hafa verið að flytja útbreiðslumörk sín eða nema land í löndunum í kringum okkur og búast má við að komi til Íslands. Þetta er t.d. kóngakrabbi og snjókrabbi og það er stundum talið að það sé bara tímaspursmál hvenær þeir koma. Fleiri tegundir gætu einnig komið og aukin hætta skapast ef aðstæður eru ákjósanlegar og ekki eru til staðar rándýr eða aðrar náttúrulegar varnir sem halda þeim niðri,“ segir Steinunn Hilma.

Sindri Gíslason við rannsóknir á grjótkrabba sem hann hefur ásamt kollegum sínum vaktað í mörg undanfarin ár. Mynd/Sindri Gíslason
Sindri Gíslason við rannsóknir á grjótkrabba sem hann hefur ásamt kollegum sínum vaktað í mörg undanfarin ár. Mynd/Sindri Gíslason

  • Sindri Gíslason við rannsóknir á grjótkrabba sem hann hefur ásamt kollegum sínum vaktað í mörg undanfarin ár. Mynd/Sindri Gíslason


Ófundinn vágestur

Sindri Gíslason, forstöðumaður Náttúrustofu Suðvesturlands, hefur fylgst grannt með nýjum framandi tegundum í vistkerfi Íslands. Hann segir umrædda tegund svo sannarlega vera ein þeirra sem litið er eftir í vöktun Náttúrustofunnar hér við land. Þessi vágestur hafi þó ekki fundist hér ennþá. [Á vefsíðu náttúrustofunnar má finna upplýsingar um allar framandi tegundir sjávarlífvera sem skráðar eru við Ísland, www.natturustofa.is .]

Sindri segir að tegundin hafi verið til vansa á margan hátt.

„Fyrir utan að vera til vandræða sem ágeng tegund, er uppruni hennar óljós og eins hefur verið erfitt að greina hana rétt til tegundar. Til lengri tíma var hún skilgreind sem a.m.k. átta ólíkar tegundir eftir fundarstöðum. Voru margir vísindamenn því farnir að vitna í hana eftir ættkvíslinni einni sér en ekki tegundaheiti, þ.e. Didemnum sp. Erfðafræðin leysti þennan rugling með flokkunarfræðina að lokum. Uppruni tegundarinnar er ekki fullkomlega ljós en líklegast á tegundin uppruna sinn að rekja til Japan,“ segir Sindri og nefnir jafnframt mikinn innflutning fjölda landa á japönskum ostrum á sjöunda áratug 20. aldar meðal hugsanlegra skýringa á mikilli útbreiðslu.

„Líklegast þykir þó að skipaflutningar séu megin ástæða útbreiðslu tegundarinnar um heiminn. Innlend útbreiðsla á sér svo stað með skemmtibátum, prömmum og öðrum búnaði s.s. baujum, fljótandi drasli, veiðarfærum og eldisbúnaði sem flutt er milli staða,“ segir Sindri.

Ísland á mörkunum

D. vexillum getur að sögn Sindra valdið vistfræðilegum og efnahagslegum skaða með því að breyta búsvæðum sjávar og valda tjóni t.d. í sjókvíaeldi og skelfiskrækt. Tegundin vex hratt og myndar miklar breiður (kóloníur), sem geta vaxið yfir margskonar undirlag þess á meðal annað lífríki s.s. önnur möttuldýr, svampa, samlokur og stórþörunga og eins mannvirki eins og bryggjur, flotbryggjur, skipsskrokk, baujur, reipi og festar. Til viðbótar við mikla hæfni til að nema ný búsvæði hefur hún mjög vítt hitaþol, eða frá núll gráðum til 28 gráða.

Hann bætir því við að dýrinu hefur gengið vel á tempruðum og köldum svæðum um allan heim, þar á meðal Nýja-Sjálandi, við báðar strendur Norður-Ameríku, við Holland, Atlantshafsströnd Frakklands, Stóra-Bretlands, Írlands og vesturströnd Íberíu-skagans.

„Tegundin hefur verið að breiðast jafn og þétt út í Evrópu og Ameríku síðustu þrjá áratugi. Í Evrópu virðist ákjósanlegur vaxtarhiti hennar vera á bilinu 14 til 18 gráður, fækkar við hlýrra og kaldara hitastig og deyr alveg við hitastig undir fimm gráðum. Miðað við það er hún því alveg á mörkunum að geta numið hér land. Nýlegar rannsóknir gefa hins vegar til kynna að D. vexillum hafi mikinn sveigjanleika hvað varðar hita- og seltuþol og að tegundin geti aðlagast hratt breyttum umhverfisaðstæðum,“ segir Sindri.

„Er það einmitt eitthvað sem þessar framandi ágengu tegundir sýna okkur statt og stöðugt, þær búa oftar en ekki yfir mikilli aðlögunarhæfni og eru sífellt að koma okkur að óvart. Við á Náttúrustofunni munum því áfram hafa augun opin fyrir þessari tegund eins og öðrum framandi tegundum í sjó,“ segir Sindri.

Maræla (D. vexillum) dreifir sér eins og eldur í sinu þar sem hún nær fótfestu og myndin sýnir vel hvernig dýrið gleypir í sig allt sem fyrir verður. Mynd/Wikipedia - U.S. Geological Survey
Maræla (D. vexillum) dreifir sér eins og eldur í sinu þar sem hún nær fótfestu og myndin sýnir vel hvernig dýrið gleypir í sig allt sem fyrir verður. Mynd/Wikipedia - U.S. Geological Survey