„Sumarið 1966, þegar Englendingar urðu heimsmeistarar í fótbolta, var ég í sveit í Skotlandi. Pabbi þekkti þarna mann og þannig virkaði þetta í þá daga. Ég var sendur þangað til að læra ensku. Vinur minn einn fór þangað í sömu erindagjörðum og þegar við flugum yfir Port Glasgow var Elizabeth II úti á dokkinni nýbyggð, eitt flottasta farþegaskip heims um þær mundir,“ segir Sigurður Ólafsson vélstjóri um aðdraganda þess að hann réðist ungur sem dagmaður í vélarrými á síldarflutningaskipinu Haferninum, einmitt ári eftir að Englendingar urðu heimsmeistarar.

Faðir Sigurðar, Ólafur Sigurðsson, var yfirvélstjóri á Haferninum. Hann kom því til leiðar að strákurinn var ráðinn dagmaður í vélarrúmi  sumarið 1967.

„Þetta var í fyrsta sinn sem ég var skráður á skip. Á síðasta ári hætti ég svo loks, eftir 53 ár til sjós. Fannst ég vera búinn með kvótann,“ segir Sigurður. Síðustu ár starfsferilsins var hann vélstjóri hjá skipaþjónustu Faxaflóahafna.

Eitt flottasta skipið í flotanum

Til þess að komast til Siglufjarðar og um borð í Haförninn vorið 1967 þurfti Sigurður að fara um langan veg og um Siglufjarðarskarð því Strákagöng voru ekki opnuð fyrr en síðar þetta sama ár.

„Það var dálítið sérstakt fyrir 17 ára gutta að þvælast þetta en pabbi vildi það og ég þorði ekki annað en að hlýða. Hann skólaði mig til eins og hann gat í vélarrúminu á Haferninum. Skipið var með virkilega flottan vélbúnað. Vélin var sex strokka, 2.100 hestafla Burmeister & Wain tvígengisvél sem gat líka brennt svartolíu og Bergen dísilljósavél. Það var ekki nema tíu ára gamalt þegar það kom og líklega eitt það flottasta í íslenska skipaflotanum á þessum tíma,“ segir Sigurður.

  • Sigurður Ólafsson vélstjóri minnist áranna á Haferninum. Mynd/gugu

Síldarverksmiðjur ríkisins keyptu Haförninn af norska skipafélaginu AS Odfjell í Björgvin. Þá hét það Lönn; smíðað árið 1957, 100 metra langt, 13,7 metrar á breidd og með 18 feta og 9 þumlunga djúpristu. Það gat lestað 3.300 tonnum. Skipið kostaði rúmar 36 milljónir króna en með breytingum og tækjabúnaði var það komið upp í rúmar 45 milljónir króna. SR lögðu út 8 milljónir í reiðufé en afgangurinn var greiddur með erlendu láni sem SR tóku með ábyrgð ríkissjóðs, samkvæmt heimild í bráðabirgðalögum. Heimahöfn var Siglufjörður.

Siglufjörður síldarlaus

Sigurður Þorsteinsson var ráðinn skipstjóri. Hann hafði áður verið skipstjóri á Dagstjörnunni, síldarflutningaskipi Einars Guðfinnssonar í Bolungarvík. Ólafur yfirvélstjóri hafði farið með skipið ásamt fleirum til Bremerhaven í endurklössun áður en það kom til Íslands. Í Brimarhöfn voru settar upp tvær síldardælur til að ná aflanum úr íslensku bátunum sem voru farnir að sækja síldina langt norður að Jan Mayen og síðar að Svalbarða. Þjóðviljinn segir í frétt 8. ágúst 1966 að Haförninn hafi komið til Seyðisfjarðar 6. ágúst það ár og haldið þaðan á síldarmiðin við Jan Mayen.

„Hefur Siglufjörður farið mjög varhluta af síldinni til þessa í sumar en væntanlega bætir þetta nýja skip nokkuð hlut Siglufjarðar hvað bræðslusíld varðar,“ segir í blaðinu. Haförninn var líka það stórt skip að Siglufjörður var eina höfnin á Norðurlandi þar sem það gat lagst að bryggju.

„Þetta var tankari en það var settur alls konar aukabúnaður í hann úti í Bremerhaven. Fyrir utan dælurnar fékk hann auka ljósavél og bógskrúfu sem var ekki algengt í skipum þá.“

  • Söltun um borð í Haferninum.  Verkun sem skipverjar unnu að með leyfi útgerðarinnar SR og höfðu upp úr því mjög góðar aukatekjur. Upplýsingar um hverjir sjómennirnir eru liggja ekki fyrir. Mynd/Steingrímur Kristinsson/Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins

Þegar Sigurður kom til Siglufjarðar vorið ´67 mátti staðurinn muna fífil sinn fegurri hvað atvinnustigið varðaði. Þar hafði allt verið blússandi í síldarsöltun, bræðslu og uppgangi árin á undan. Það var verulega farið að dofna yfir öllu.

Siglufjörður hafði sumarið ´66 verið í 14. sæti yfir síldarlöndunarstaði landsins af 19 alls. Meira að segja sollurinn, Reykjavík, var fjórði hæsti löndunarstaður síldar þetta sumar með um 20.000 tonn og aðeins Seyðisfjörður, Raufarhöfn og Neskaupstaður voru ofar á listanum.

Hlutafélag um síldarsöltun um borð

„Síldin var horfin frá Siglufirði og það söfnuðust á Haförninn alls kyns spekúlantar sem óbreyttir sjómenn. Við eltum síldina norður til Jan Mayen og tókum hana úr bátunum þar. Síldarspekúlantarnir iðuðu í skinninu því það sem fiskaðist þarna var demantssíld. Vel yfir 500 grömm að meðalþyngd. Öllum þótti vont að horfa á eftir svona eðalhráefni í gúanó. Demantssíld er frábær matfiskur ef hægt er að koma henni í lagi í land. En siglingin af miðunum var löng og þetta var fyrir daga kælingar í skipum. Af þeim sökum fór megnið af þessu fína hráefni kasúldið í bræðslu. Þegar síldin gerjaðist í tönkunum myndaðist gas og það gerðist að sækja þurfti menn meðvitundarlausa upp úr tönkunum,“ segir Sigurður.

23 voru í áhöfn Hafarnarins. Úti á síldarmiðunum voru settir fenderar milli skips og síldarbátanna. Slanga ein sver var leidd um borð í bátana og síldin soguð upp úr þeim yfir í Haförninn. Hver túr tók um það bil eina viku.

Haförninn flutti líka síldarlýsi frá SR á Siglufirði til Evrópu. Hann sá auk þess um að færa síldarflotanum í norðri olíu, vatn og vistir.

Í Haferninum fór fram hliðarstarfsemi sem gaf mönnum jafnvel meira í aðra hönd en launin öll frá Síldarverksmiðjum ríkisins. Áhöfnin hafði stofnað hlutafélag um söltun á síld um borð og hafði af því góðar tekjur. Sigurður var í félaginu. Þeir sem höfðu sig samt mest í frammi voru þeir sem höfðu blómstrað hvað fegurst á mektarárunum á Sigló; síldarspekúlantar, sem í ljósi aðstæðna höfðu nú margir ráðið sig til sjós til að hafa í sig og á.

  • Bátarnir voru oft mjög hlaðnir þegar þeir komu til löndunar milli skipa. Mynd/Steingrímur Kristinsson/Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins

Sigurður á kvikmyndarbrot sem tekið var upp á þessum tíma. Í einu myndskeiðinu segir Sigurður Þorsteinsson skipstjóri að hlutafélagið um borð hafi saltað síld í um 3.000 tunnur sumarið og haustið ’67. Hráefnið fékkst hjá síldarbátunum og ef veiðin var mikil fékkst það jafnvel gefins. Síldarvinnslur ríkisins létu þessar bjargir áhafnarinnar óáreittar. Sigurður segir að menn hafi haft miklu meiri tekjur af síldarsöltuninni úti á dekki á Haferni en þeir fengu í laun hjá SR.

„Það voru allir í hlutafélaginu, skipstjórinn og pabbi líka. Pabbi gerði þó ekki annað en að passa vélarrúmið meðan við hinir vorum að bjarga síldinni. Þetta fór þannig fram að bátarnir settu síld í net og við drógum netið aftur með Haferninum með nýveiddri síldinni. Þar var henni komið fyrir í poka og hann hífður upp í stíu með spili. Við höfðum komið upp aðgerðarborði og skárum þar síldina. Hún fór í fötur og þær voru hífðar upp á bátadekk. Þar voru síldarspekúlantarnir sem söltuðu og krydduðu síldina eftir kúnstarinnar reglum ofan í tunnur. Þetta voru karlar frá Siglufirði sem vissu allt um síld og hvernig átti að krydda hana og salta.“

Farvel í Genóa

Áhöfnin á Haferninum var ekki ein um sjálfsbjargarviðleitni af þessu tagi því á miðunum voru líka gamlir fraktdallar sem hafði verið breytt í síldarplan. Engir voru þó stórtækari í söltuninni en sjómennirnir á Haferninum. Svíar og Danir keyptu síldina og gerðu úr henni gaffalbita sem seldust eins og heitar lummur um alla Evrópu.

Sigurður var á Haferninum frá því vorið 1967 og fram til 1969 þegar hann hóf vélstjórnarnám. Hann lauk námi 1973.

„1967 hvarf síldin úti fyrir Norðurlandi en var á fleygiferð þarna í kringum Jan Mayen. Svo færði hún sig  alveg norður til Svalbarða. Síldarflotinn og við eltum hana þangað. Ég man að við tókum olíu í Hammerfest en veiðin var lítil við Svalbarða, bara skrap.“

Tap varð á útgerð Hafarnarins þegar síldin hvarf og hann lá lengi bundinn við bryggju. Loks var skipið leigt til danska stórfyrirtækisins A.P. Møller Maersk í Danmörku og notað til að flytja olíu á hafnir í Evrópu. Sigurður var í áhöfninni á þessum tíma. Íslendingar misstu svo sjónar af Haferninum þegar hann var seldur til Genóa á Ítalíu. Ólafur yfirvélstjóri,  faðir Sigurðar, var einn þeirra sem skilaði skipinu af sér þangað suður.

  • Verið að dæla úrJörundi III RE 300. Mynd/Steingrímur Kristinsson/Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins.