Vísindamenn við hafrannsókanastofnun Noregs hafa reiknað út að sjávarspendýrin í Norður-Atlantshafi éti 25 milljónir tonna á hverju ári af sjávarlífverum. Á sama tíma nemi veiði fiskiskipa 4,2 milljónum tonna.

Vísindamennirnir skiptu Norður-Atlantshafi upp í þrjú svæði; hafið í kringum Ísland, Grænlandshaf og Noregshaf og Barentshaf. Niðurstöður rannsóknanna eru þær að sjávarspendýr, hvalir og selur, éta 13,4 milljónir tonna af sjávarlífverum í kringum Ísland, 4, milljónir tonna á Grænlands- og Noregshafi og 7,1 milljón tonna í Barentshafi. Greint er frá þessu á heimasíðu Havforskningsintituttet.

Samkvæmt tölum vísindamannna eru að jafnaði veidd um 1,55 milljónir tonna við Ísland, 1,45 milljónir tonna í Grænlands- og Noregshafi og næstum 1,2 milljónir tonna í Barentshafi. Samtals um 4,2 milljónir tonna.

Steypireyður étur til að mynda mikið magn af svifi sem er neðarlega í fæðukeðjunni en fiskveiðar snúast að stórum hluta á veiðum á tegundum eins og þorski. Engu að síður sýna niðurstöður hópsins að sjávarspendýr og sjómenn séu í samkeppni um sjávarfangið.

Hvalastofnar stækka

„Mestar eru líkurnar á samkeppni milli sjávarspendýra og manna í Grænlands- og Noregshafi. Ástæðan er sú að þar eru stundaðar veiðar neðar í fæðukeðjunni. Þar veiðist mest uppsjávarfiskur eins og síld og kolmunni. Samkeppnin er að öllum líkindum minni í Barentshafi,“ segir Mette Skern-Mauritzen, rannsóknastjóri við Norsku hafrannsóknastofnunina.

Vísindamennirnir telja sig einnig geta fært sönnur fyrir því að sjávarspendýr éti meira af sjávarlífverum en áður og á öðrum svæðum.

„Það eru margar ástæður fyrir þessu. Ein þeirra er sú að hvalastofnarnir hafa stækkað mikið eftir að hvalveiðum í atvinnuskyni var hætt víðast hvar, segir Skern-Mauritzen.

Aðrar skýringar eru þær að hraðar breytingar séu að verða á vistkerfunum á norðurhveli jarðar. Hvölum fjölgi og þeir haldi til á stærra sviði en áður. Sjávarhitastig haldi áfram að hækka og hvalir sæki stöðugt norðar. Afleiðingarnar séu þær að sjávarspendýr taki til sín stöðugt stærri hlut af sjávarlífverum í Norður-Atlantshafi.

Hópurinn telur að taka verði tillit til þessara breytinga við stjórnun viðkomandi hafsvæða.

„Til að tryggja góða fiskveiðistjórnun á þessum tímum, þegar vistkerfi eru að breytast svo hratt, ber að taka tillit til þess að lífsmynstur sjávarspendýra er líka að breytast,“ segir Skern-Mauritzen.