Samstarfsaðili Happy Prawns er norsk/bandaríska tækni- og eldisfyrirtækið Benchmark Breeding Genetics sem fram að árinu 2014 var Stofnfiskur á Íslandi. Markmiðið er að framleiða kóngarækju fyrir veitingastaði og einstaklinga sem tilbúnir eru að greiða hátt verð fyrir gæðaafurðir.

Kóngarækju, Litopenaeus Vannamei,  er yfirleitt að finna í Mið- og Suður-Ameríku og meðfram strönd Flórída að Mexíkóflóa. Eldi á kóngarækju á heimsvísu nemur yfir fjórum milljónum tonna á ári.

Í sláturstærð á 3-4 mánuðum

Fyrsta sendingin af seiðum, alls 200.000 talsins, barst til Noregs frá Flórída í janúar síðastliðnum.  Þau voru sett í 11.000 þúsund lítra tank sem hafði verið hitaður upp í 28° C. Tankurinn er í húsnæði sem áður hýsti rækjupökkun í Sirevåg. Verkefnið hefur vaxið hratt frá því norska laxeldisfyrirtækið Bremnes Seashor gerðist aðili að því. Seiðin voru ekki fyrr komin í tankinn en þau hófu að næra sig og stækka. Að þremur viknum liðnum voru þau flutt yfir í 200.000 lítra tank þar sem þau eru alin upp í sláturstærð. Það getur tekið nokkur ár að ala lax upp í sláturstærð en Happy Prawns fullyrðir að það taki ekki nema þrjár til fjóra mánuði að ala kóngarækju upp í sláturstærð eftir að seiðin berast. Þá eru þau 10-15 millimetrar að stærð.

Sjúkdómar hafa verið ein helsta áskorun í rækjueldi og í mörgum tilfellum hefur margra ára undirbúningur og eldi farið í vaskinn þegar sjúkdómar herja á. Hérna kemur Benchmark Breeding til sögunnar. Fyrirtækið hefur flutt erfðaþekkingu sína og tækni á laxi í rækjueldið. Erfðafræðilegar upplýsingar eru nýttar til að bæta sjúkdómsþol.

Með núverandi aðstöðu er framleiðslugetan einungis um 60 tonn en áformin eru mun stærri. Happy Prawns hefur hafið smíði á nýrri 35.000 fermetra eldissstöð í iðngörðum nærri Sirevåg sem ráðgert er að verði tekin í notkun á næsta ári. Tankarnir verða 52 talsins og framleiðslugetan nálægt 500 tonnum á ári.