Áformuð bygging nýs skjólvarnagarðs og dýpkun Njarðvíkurhafnar mun gera hana bæði víðari og skjólbetri í senn. Framkvæmdirnar tengjast áformum um að skapa skipum Landhelgisgæslunnar aðstöðu utan Reykjavíkur og stytta siglingaleið þeirra suður fyrir land. Viljayfirlýsing dómsmálaráðuneytisins, Landhelgisgæslunnar, Reykjanesbæjar og Reykjaneshafnar um að byggja upp aðstöðuna var undirrituð í maí síðastliðnum.

„Nú erum við að fara að hefja framkvæmdir þannig að við erum að vinna við að hnýta síðustu endana varðandi þessa þætti og miðum við að slík aðstaða verði endanlega klár á hundrað ára afmæli Gæslunnar árið 2026,“ segir Halldór Karl Hermannsson, hafnarstjóri Reykjaneshafnar.

Fjölnotahús fyrir Gæsluna

„Við erum að fara að betrumbæta í Njarðvíkurhöfn með dýpkun og skjólvarnagarði. Fyrir vikið þá eigum við möguleika á að reisa inn á skjólvarnagarðinum viðlegukant sem yrði þá notaður sem aðstaða fyrir skip Gæslunnar. Við gerum líka ráð fyrir að hafa þar flotbryggjur til þess að þjónusta minni bátana þeirra,“ segir Halldór um helstu framkvæmdirnar í þessu verkefni.

„Svo gerum við ráð fyrir því að í tengslum við þessa hafnaruppbyggingu verði reist 400 fermetra fjölnotahús sem getur hýst ýmsa starfsemi sem tengist skipaflotanum hjá Gæslunni, meðal annars viðhald á smærri bátum og öðru slíku,“ segir Halldór enn fremur.

Með þessu segir Halldór betra skjól myndast í Njarðvíkurhöfn og þar með skapist miklu betri aðstaða á núverandi hafnarmannvirkjum.

Fyrir Gæsluna til framtíðar

„Við værum í sjálfu sér ekki að fara í þennan viðlegukant sem við stefnum á nema vegna þess að við erum að fókusera á hann í tengslum við Landhelgisgæsluna. Við höfum ekki beint þörfina fyrir hann að svo stöddu einan og sér – nema að hafa einhverja starfsemi við hann,“ segir Halldór. Í raun sé verið að nota tækifærið að skapa það sem þurfi til þess að Gæslan geti sinnt sínu hlutverki betur fyrir framtíðina.

„Fyrst og fremst ánægju og stolt að geta verið með Landhelgisgæsluna í þjónustu,“ svarar Halldór spurður hvaða þýðingu verkefnið hafi fyrir Reykjaneshöfn.

Líka fyrir dönsk varðskip

Varðandi fjármögnun segir Halldór að almenn hafnaraðstaða sé yfirleitt styrkt af hafnarbótasjóði. „En þetta yrði byggt á einhvers konar láns- og leigukjörum,“ segir hann.

Að sögn hafnarstjórans stendur til að byggja aðstöðu inn í Helguvíkurhöfn fyrir Atlantshafsbandalagið sem myndi þá ekki nýta Njarðvíkurhöfn.

„En ef komin er þessa aðstaða  í Njarðvíkurhöfn þá munu örugglega aðrir aðilar, eins og dönsku varðskipin og aðrir slíkir, hugsanlega vilja nýta sér þá hana frekar en Helguvík sem er náttúrlega ekki viðleguhöfn heldur fyrst og fremst lestunar- og losunarhöfn,“ segir Halldór.

Eftir framkvæmdirnar verður að sögn Halldórs hægt að fara út og inn í Njarðvíkurhöfn í hvaða veðuraðstæðum sem er og höfnin verður skjólbetri.

Náið samstarf hafnarinnar og Gæslunnar

Starfsmenn Landhelgisgæslunnar vinna náið með fulltrúum Reykjaneshafnar við þessa undirbúningsvinnu,“ segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, um aðkomu stofnunarinnar að verkefninu. „Fulltrúar Landhelgisgæslunnar hafa komið að þarfagreiningu á þeirri aðstöðu sem nauðsynleg er fyrir varðskip Landhelgisgæslunnar í Njarðvík. Landhelgisgæslan hefur bent á í þeirri vinnu að nauðsynlegt sé að viðlegukantur sé að minnsta kosti 200 metrar, djúprista í höfninni sé að lágmarki átta metrar auk starfsmanna- og lageraðstöðu á svæðinu,“ segir Ásgeir.