Samstarfsviljayfirlýsing um atvinnu- og innviðauppbyggingu í tengslum við nýtingu þangs í Breiðafirði var undirrituð á þriðjudag. Að henni koma Stykkishólmsbær, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Veitur og kanadíska félagið Acadian Seaplants Limited.

Bæjarstjórn Stykkishólms hefur átt í formlegum viðræðum við Acadian Seaplants um vinnslu þangs í Stykkishólmi frá árinu 2019. Fyrirtækið hyggst stofna íslenskt dótturfyrirtæki til þess að þróa alhliða miðstöð þörungavinnslu í suðurhluta Breiðafjarðar með aðsetur þar í Stykkishólmi.

Tækifæri í þangi

Með yfirlýsingunni er stoðum rennt undir rannsóknir og vinnslu þangs í Stykkishólmi og verður unnið að því að nýta fyrirliggjandi tækifæri til atvinnu- og verðmætasköpunar. Í tilkynningu segir að lögð verður áhersla á að fullnýta hráefnið með sem minnstum áhrifum á umhverfið samhliða sem mestum svæðisbundnum ávinningi.

Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar, segir að í verkefninu liggi mörg tækifæri fyrir Stykkishólm, svæðið og samfélagið í heild sinni.

„Efnahagslegur og samfélagslegur ábati af fyrirhugaðri starfsemi er augljós, bæði fyrir svæðið og íslenskt samfélag, sem og framtíðar vaxtarmöguleikar og nýsköpun í kringum sjálfbæra auðlindanýtingu Breiðafjarðar. Acadian Seaplants hefur alla burði og þekkingu til að koma á fót og styðja við rannsóknir á efnisinnihaldi þangs með virðisaukandi framleiðslu og nýsköpun að leiðarljósi. Í slíku samstarfi gætu falist enn frekari tækifæri fyrir uppbyggingu virðisaukandi framleiðslu sjávarfangs úr Breiðafirði.“

Jean-Paul Deveau, forseti og framkvæmdastjóri Acadian Seaplant, segir að nálgun fyrirtækisins sé sjálfbær nýting á sjávarplöntum, til að framleiða afurðir sem nýttar eru um allan heim, sem byggist á rannsóknum fyrirtækisins og vísindum.

„Við teljum að aðferðir okkar geti eflt stöðu Íslands á heimsvísu hvað varðar nýtingu á sjávarplöntum. Þetta verkefni mun leiða af sér sterkari innviði um nýtingu jarðvarma í Stykkishólmi og mun auk þess hafa mikla þýðingu fyrir fyrirtæki okkar og aðra framtíðar atvinnustarfsemi á Snæfellsnesi.“

Púslin raðast upp

„Þetta samkomulag er enn eitt dæmið um þau fjölbreyttu tækifæri sem er verið að sækja víða um land um þessar mundir. Hér er nýsköpun í forgrunni og þar liggja tækifærin. Oft í tengslum við auðlindanýtingu eins og í þessu tilfelli. Púslin eru að raðast rétt upp á mörgum stöðum núna og þetta er mjög ánægjulegt dæmi um það,“ segir Þórdís Kolbrún.