Norsk þorskeldisfyrirtæki stefna á að magnið verði komið upp í að minnsta kosti 80 þúsund tonn árið 2025. Þegar allt er tekið saman geti eldið náð 120 þúsund tonnum árlega.

Þessu greinir norska Fiskeribladet frá, og hefur eftir Keven Vottestad að nú horfi menn fram á við, ekki aftur til misheppnuðu áranna þar sem gríðarlegt tap varð af þorskeldi.

Vottestad er verkefnastjóri norska þorskeldisklasans, Nasjonalt Nettverk Torskeoppdrett, sem 28 fyrirtæki eiga hlut að. Það eru bæði eldisfyrirtæki og önnur sem tengjast eldinu.

„Við erum að tala um að hefja þorskeldi á ný, ekki um það hversu mikið þau sem á undan okkur komu töpuðu,“ segir Vottested. Hann segir að hjá fyrirtækinu Havlandet Marin Yngel sé sjötta og sjöunda kynslóð þorskseiða í vexti, en fyrirtækið hefur starfað síðan 2001. Fiskurinn sé frábær eldisfiskur.

Þegar Norðmenn stunduðu þorskeldi á árunum upp úr síðustu aldamótum framleiddu þeir þegar mesta varð 21.000 tonn, en undan fjaraði þegar þorskverð lækkaði og framleiðslukostnaður hækkaði.