Útlit er fyrir enn meiri samþjöppun innan rússnesks sjávarútvegs á grundvelli fjárfestingakvóta stjórnvalda þar í landi. Stærri fyrirtæki fjárfesta meira en áður í greininni og sækjast eftir meiri kvóta en þau minni lýsa andstöðu sinni yfir því hvernig kvótanum er útdeilt.

Í grein eftir rússneska blaðamanninn Ivan Stupachenko sem birtist í vefritinu Seafood Source News er haft eftir heimildarmönnum að hagstæðar markaðsaðstæður sjávarútvegs á heimsmarkaði og fjárfestingakvótaleið rússneskra stjórnvalda hafi skapað mikinn hvata fyrir innlenda fjárfestingu í rússneskum sjávarútvegi, jafnt innan sjávarútvegsfyrirtækjanna sjálfra og almennra fjárfesta.

Árið 2014 hafi þörfin fyrir nútímavæðingu í sjávarútvegi verið augljós. Rússar höfðu bannað innflutning á sjávarafurðum frá vestrænum ríkjum. Rússar ætluðu að vera sjálfum sér nægir á þessu sviði.

Ári síðar lagði Vladímir Pútín Rússlandsforseti blessun sína yfir fjárfestingakvótakerfið sem felur í sér að þau fyrirtæki sem eru tilbúin að fjárfesta í nýjum skipum eða fiskiðjuverum fái kvóta á kostnað þeirra sem ekki nútímavæðast. Í kjölfarið urðu til kjöraðstæður fyrir nokkur rússnesk sjávarútvegsfyrirtæki.

5 milljóna tonna kvóti

Fyrsta hluta fjárfestingakvótaáætlunarinnar var ýtt úr vör 2017 og annar hluti hennar fer af stað á þessu ári.

„Rússneskur sjávarútvegur verður stöðugt fýsilegri fjárfestingakostur. Framboð sjávarafurða nær ekki að mæta aukinni eftirspurn á alþjóðamarkaði og rússneskur sjávarútvegur er í kjörstöðu með aðgengi að 5 milljóna tonna kvóta á ári hverju. Fyrirtæki ótengd sjávarútvegi munu vilja taka þátt og fyrirtæki innan sjávarútvegs munu halda áfram að kaupa upp samkeppnisfyrirtæki,“ segir í grein Stupachenkos.

Þannig er talið að ótilgreindur hópur innlendra fjárfesta hafi staðið að baki hugmyndum að breytingum á kvótaúthlutum í krabba árið 2017. Þeir hafi lagt það til við Pútín að farin yrði uppboðsleið en fram að því hafði krabbakvóta verið úthlutað á grunni veiðireynslu.

Tillögurnar ollu miklu uppnámi innan greinarinnar og orðrómur var um að það hefðu verið eigendur Russian Fishery Company, RFC, sem samkvæmt lista Forbes, er fimmta stærsta sjávarútvegsfyrirtæki Rússlands, sem hefðu staðið að baki hugmyndinni.

„Krabbakóngar“

RFC hefur reyndar vísað því á bug að það hafi staðið að baki tillögunni. En niðurstaðan varð sú að stjórnvöld fóru millileið og seldu helming krabbakvótans á uppboðum þar sem sterkustu fjárfestarnir buðu hæst. Í framhaldinu var farið að tala um nýju „krabbakóngana“ í Rússlandi.

RFC þótti ekki rétt að staldra við þar heldur lagði fram hugmynd um endurúthlutun á öðrum kvótum til fjárfesta sem væru tilbúnir að greiða fyrir þá á uppboðum eins og gert var með krabbakvótann. Seint á síðasta ári barst RFC svo liðsauki frá Norebo, sem vill að fjárfestingarkvóti verði einungis bundinn við ný skip og lagður verði á hærri skattur á hrávinnslu sjávarafurða til þess að stuðla að meiri fullvinnslu. Tillögurnar hafa valdið miklu uppnámi og margir telja þær eingöngu miða að enn frekari samþjöppun og yfirráðum stærstu sjávarútvegsfyrirtækjanna yfir auðlindinni.

Nú er útlit fyrir að fjárfestingarkvóti verði einungis bundinn við ný skip og lagður verði á hærri skattur á hrávinnslu sjávarafurða til þess að stuðla að meiri fullvinnslu. Mynd/EPA