Umhverfisstofnun fékk það staðfest frá lögmanni breska fyrirtækisins Advanced Marine Services strax í maí síðastliðnum að fyrirtækið er á eftir gulli og/eða silfri sem það telur vera um borð í þýska flutningaskipinu SS Minden, sem liggur á hafsbotni 120 sjómílur suðaustur af Íslandi. Þetta kemur fram í skriflegu svari við fyrirspurn Fiskifrétta en hingað til hefur það ekki verið gefið upp hvaða verðmæti eigendur fyrirtækisins telja vera í skipinu og eru á eftir.

Með auga á Minden
Eins og Fiskifréttir greindu frá 13. júlí þá barst Umhverfisstofnun starfsleyfisumsókn frá AMS þann 27. apríl síðastliðinn. Þá var rétt rúm vika liðin frá því að norska rannsóknaskipið Seabed Constructor sigldi héðan, eftir að Landhelgisgæslan færði skipið að landi og lögreglurannsókn hófst. Landhelgisgæslan hafði fylgst með skipinu dögum saman áður en ákveðið var að færa það til hafnar í Reykjavík. Þá hafði það haldið sig á afmörkuðu svæði um 120 sjómílur suðaustur af landinu. Þar liggur Minden, sem áhöfn þess sökkti sjálf á fyrstu dögum síðari heimsstyrjaldarinnar að skipun þýskra hernaðaryfirvalda. AMS hefur fullyrt að það sé í fullum rétti við aðgerðir sínar, og bent á að enginn hefur gert tilkall til þess sem þar kunni að vera að finna.

Fjölmiðlar, hér heima og erlendis, hafa fylgst náið með málinu. Ástæðan fyrir því að AMS legði rannsóknaskipið norska og fór niður í skipið með hjálp kafbáts og annars hátæknibúnaðar, var að nálgast kistu í póstherbergi Minden hvar verðmæti er að finna, að þeirra mati. Þetta kom fram í upphaflegri starfsleyfisumsókn fyrirtækisins, sem gerði að nokkru leyti grein fyrir hvað fyrirtækið var að gera í flaki Minden, og hvernig starfsmenn þess ætluðu að bera sig að við að endurheimta „verðmæti“.

Hins vegar var ekkert að finna í upphaflegri starfsleyfisumsókn AMS um hvað fyrirtækið teldi nákvæmlega að væri í kistunni. Í svari Umhverfisstofnunar til AMS frá því 19. maí var hins vegar farið fram á viðbótar gögn svo hægt væri að halda áfram við að afgreiða umsóknina. Nánari upplýsingar um það efni eða farm sem ætlunin er að fjarlægja úr skipinu var eitt þeirra atriða sem tiltekið var sérstaklega, og Fiskifréttir hafa spurst fyrir um hjá Umhverfisstofnun enda ljóst að svar hlyti að hafa borist stofnuninni þar sem um skilyrði var að ræða fyrir því að AMS fengi mögulega starfsleyfi.

Gull eða silfur
Í svari Umhverfisstofnunar til Fiskifrétta er staðfest að svar AMS barst um hæl – enda hafði komið fram ítrekað að mikið lægi á, ekki síst vegna þess kostnaðar sem fellur til þegar leigt er fullkomið rannsóknaskip eins og Seabed Constructor.

„Umbjóðandi minn telur að inni í þeim kassa sem hífður verður upp gæti verið að finna verðmæta málma, líklega gull eða silfur. Þetta muni þó ekki koma í ljós fyrr en að kassinn er opnaður,“ segir í svari lögfræðings AMS til Umhverfisstofnunar frá 23. maí, en hefur aldrei verið upplýst um fyrr en nú.

Reynist tilgáta AMS rétt er ljóst að um mikil verðmæti er að ræða – gull í allstórri kistu eins og þeirri sem hér um ræðir er án efa margra milljarða virði.

Eigandi gefur sig fram
Nýjar upplýsingar frá Umhverfisstofnun greina hins vegar frá því að þýska skipafélagið Hapag-Lloyd geri tilkall til flaks Minden, eins og Fréttablaðið greindi frá í síðustu viku. „Hér með áskiljum við okkur allan rétt með tilliti til SS Minden og allra hluta eignarinnar sem þegar eru fundnir eða kunna að finnast,“ segir í bréfi skipafélagsins til Umhverfisstofnunar. Þetta er gert í krafti þess að Hapag-Lloyd yfirtók þýska skipafélagið Norddeutscher Lloyds árið 1970, eiganda Minden á þeim tíma sem skipinu var sökkt. Má nefna að SS Minden var eitt fimm áþekkra kaupskipa, og Norddeutscher Lloyds var eitt helsta skipafélags Þýskalands á stríðsárunum.

Bragi Dór Hafþórsson, lögmaður AMS hér á Íslandi, segir hins vegar í bréfi til Umhverfisstofnunar vegna þessa að hvorki AMS né Umhverfisstofnun sé í stöðu til að meta hver sé eigandi SS Minden og farms þess.

„Líkt og áður hefur komið fram í samskiptum okkar þá er það ætlun umbjóðanda míns, komi í ljós að verðmæti sé að finna í flakinu, að skila þeim til breskra yfirvalda, nánar tiltekið „UK Reciever of Wreck“. Er þar um að ræða stjórnvald innan landhelgisgæslunnar þar í landi sem hefur það hlutverk að rannsaka og skera úr um hver sé eigandi flaks eða þeirra verðmæta sem finnast í flaki,“ skrifar Bragi. „Ef hið bæra stjórnvald kemst að þeirri niðurstöðu að flakið eða farmur þess tilheyri tilteknum eiganda þá er verðmætunum skilað til þess aðila gegn því að finnandi eigi rétt á björgunarlaunum sem ákveðin eru af stjórnvaldinu í samræmi við almennar reglur.“

Engir meinbugir
Enginn þeirra umsagnaraðila sem Umhverfisstofnun leitaði til sér meinbugi á því að AMS verði veitt starfsleyfi og geti fjarlægt verðmæti úr skipinu – en slík beiðni var send m.a. á Samgöngustofu, Landhelgisgæsluna, Minjastofnun Íslands, Hafrannsóknarstofnun, utanríkisráðuneytið og heilbrigðisnefnd Austurlands. Engar athugasemdir bárust yfir höfuð þar sem lagst var gegn veitingu slíks leyfis, segir í svari Umhverfisstofnunar til Fiskifrétta en frestur til athugasemda vegna starfsleyfis er nýrunninn út. Það þýðir að AMS, að óbreyttu, fær grænt ljós til að fjarlægja kistuna úr póstherbergi skipsins, hvar hinir verðmætu málmar eru taldir vera.

Ákvörðun um hvort starfsleyfi verður gefið út verður tekin á allra næstu dögum.