Eftirspurn eftir sjávarafurðum mun dragast saman á seinni helmingi þessa árs á sama tíma og framleiðslukostnaður verður hár, samkvæmt niðurstöðum í skýrslu greiningardeildar alþjóðabankans Rabobank. Þetta mun leiða til verðlækkana á afurðum.

Undirtitill skýrslunnar, sem fjallar að stærstum hluta um horfur í fiskeldi, er „Á barmi efnahagssamdráttar“. Þar segir að hagnaður af fiskeldi og rækjueldi, sem nú er í hæstu hæðum, muni líklega dragast saman og að það sem eftir lifir ársins 2022 geti reynst mikil áskorun í báðum greinum.

Í skýrslunni kemur fram að á sama tíma og áhrifa heimsfaraldursins gæti sífellt minna sé farið að bera á minnkandi eftirspurn í ljósi efnahagsástandsins, jafnt í Evrópusambandsríkjunum og Bandaríkjunum. Þetta muni leiða til minni eftirspurnar eftir sjávarafurðum hjá veitingastöðum og smásöluverslunum í báðum heimshlutum.

Eftirspurn og verð á laxi og rækju slógu öll met á fyrri helmingi 2022. Rabobank segir einsýnt að verð lækki umtalsvert á seinni helmingi ársins. Í skýslunni segir jafnframt að aukin eftirspurn eftir innfluttum sjávarafurðum í Kína geti þó vegið á móti þessari þróun og þá einkum á fjórða ársfjórðungi, að því gefnu að ekki verið gripið til innflutningshafta á ný vegna Covid.

Rabobank segir að í Evrópu vegist á áframhaldandi bati eftir Covid-19 faraldurinn og vaxandi samdráttarþróun hagkerfanna sem skapi mikinn ófyrirsjáanleika á markaði.