Barði NK kom til Neskaupstaðar í morgun með 1.320 tonn af makríl.

Þetta kemur fram á vefsíðu Síldarvinnslunnar þar sem rætt er við Runólf Runólfsson, skipstjóra Barða.

„Þetta gengur þokkalega og miklu betur en menn bjuggust við. Spáð hafði verið að enginn makríll myndi ganga inn í íslenska lögsögu en það hefur svo sannarlega ekki ræst. Það er æðislegt að veiðin skuli fara fram innan lögsögunnar og það styrkir okkar stöðu gagnvart öðrum þjóðum sem leggja stund á veiðar úr stofninum,“ er haft eftir Runólfi sem kveður menn ánægða með stöðu mála - það sé ekki annað hægt.

Stór makríll en sést illa í tækjum

„Fiskurinn sem fæst er bæði stór og feitur og hinn fallegasti, en hann sést illa á tækjum. Hann heldur sig gjarnan í smáum blettum en hann er fljótur í förum þannig að blettirnir hverfa á augabragði. Það þarf sem sagt talsvert að hafa fyrir veiðunum en það er ekki hægt að kvarta,“ segir Runólfur.

Tonnin 1.300 tonn sem Barði kom með að landi í morgun er hreinn makríll, veiddur í samstarfi þriggja skipa á einum sólarhring.

Samstarf fimm skipa

„Það eru fimm skip í samstarfinu og auk okkar voru Beitir NK og Vilhelm Þorsteinsson EA á miðunum, en Börkur NK var að landa í Neskaupstað og Margrét EA í Færeyjum. Í þessum túr vorum við að toga í sex til sjö tíma en skipin hafa stundum togað upp í fimmtán tíma. Löndun á aflanum mun hefjast síðar í dag þegar þrifum á fiskiðjuverinu er lokið eftir vinnslu á aflanum sem Börkur kom með,” segir Runólfur á svn.is.