Ólögleg viðskipti með evrópuál er ein af stærstu svikamyllunum með villt dýr í álfunni. Þetta er starfsemi sem veltir miklum fjármunum, sumir segja allt að 600 milljörðum ÍSK á ári, og er á fárra vitorði. Evrópski állinn er á lista yfir lífverur í útrýmingarhættu samkvæmt lista Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna, IUCN).

Talið er að óprúttnir aðilar smygli allt að 350 milljónum lifandi ála frá Evrópu til Asíu á hverju ári. Þessi ábatasama glæpaiðja hefur haft mikil áhrif á tegundina. Allt frá níunda áratug síðustu aldar er talið að evrópski álastofninn hafi minnkað um 96%. Þar er um að kenna stíflu í hefðbundnum farleiðum álsins frá Þanghafinu, mengunar í hafi og óseðjandi spurn smyglara eftir ungálum. Allt hraðar þetta þeirri þróun að evrópski állinn verði útdauður. Sagt er frá þessu á heimasíðu Náttúrugripasafnsins í London.

Verslunin felst einkum í sölu á ungálum, svokölluðum glerálum. Sala á þeim er heimil innan ríkja Evrópusambandsins en verður ólögleg um leið og hún nær til landa utan sambandsins.

Áframeldi í Kína

Oftast eru álarnir seldir til Austur-Asíu þar sem þeir fara í áframeldi. Þaðan á sér stað umfangsmikil sala á lifandi og unnum ál til neyslu víðs vegar um heiminn. Í gegnum tíðina hefur spurn eftir evrópskum ál verið mest í Japan en á síðustu árum virðist hafa dregið úr henni. Miklar vinsældir sushi rétta um allan heim á síðustu árum hefur byggt um alveg nýjan markað fyrir flök af eldisálum.

Álaræktendur í Kína hafa í gegnum tíðina einnig alið japanska álinn. Eftir að framboð minnkaði sneru þeir sér að öðrum innfluttum tegundum, ekki síst evrópska álnum. Áður fyrr voru stundum lögleg viðskipti með ál milli Evrópulanda og Kína en frá árinu 2010 bannaði ESB þennan útflutning í ljósi hnignunar stofnsins.

Það virðist þó deginum ljósara að þessi viðskipti blómstra aldrei sem fyrr og þrátt fyrir minni eftirspurn í Japan er heimsmarkaðurinn fyrir ál sterkur.

Svarti markaðurinn stór

Evrópski állinn er veiddur þegar hann kemur úr Þanghafinu til Evrópu sem lirfa og breytist þar í glerál. Talið er að 60 tonn af glerál séu veidd á hverju ári, aðallega af Frökkum í Biskajaflóa, en einnig í minni mæli við Spán og Bretland.  Í hverju kílógrammi af glerálum eru mörg þúsund einstaklingar. Einungis er talið að viðskipti með um helming aflans fari fram innan Evrópu. Afgangurinn hreinlega gufar upp.

Það sem af er þessu ári hafa yfirvöld gert upptæk um 8 tonna af gleráli úr vörslu ýmissa aðila sem hafa reynt að smygla honum út úr Evrópu.

Talið er að einungis um 10% af því sem ætlað er til ólöglegs útflutnings út úr Evrópu sé gert upptækt. Þetta þýðir að ólögleg viðskipti með glerál gætu numið allt að 100 tonnum á ári, samkvæmt Europol. Svarti markaðurinn er því þrisvar sinnum stærri en sá löglegi innan Evrópu.

Europol segir að einkum sé stuðst við tvær aðferðir við smyglið. Skipulögð glæpasamtök frá Asíu taka glerálin einfaldlega með sér í plastpokum sem komið er fyrir í ferðatöskum en einnig er algengt að flytja þá út með flugi og þá falda innan um aðrar sjávarafurðir.