„Við pabbi smíðuðum þennan bát 1967 með aðstoð bróður pabba sem hét Einar Sigurðsson og var skipasmiður hérna á Fáskrúðsfirði,” segir Helgi Guðlaugsson, vélstjóri á Fáskrúðsfirði, sem nú er á áttræðisaldri. Hann rær til fiskjar reglulega á Vögg sem er eini báturinn sinnar gerðar sem til er í landinu, að undanskildum einum sem var smíðaður 1953 fyrir útgerðarfélagið Eskfirðing. Sá bátur er ekki haffær og er víst falur. Þarna er líka önnur hafnarprýði sem heitir Jón Finnbogason, plastbátur og svokallaður Skagstrendingur.

© Óðinn Magnason (.)
Faðir Helga var Guðlaugur Sigurðsson, bróðir Einars bátasmiðs sem smíðaði á sinni tíð tugi opinna árabáta og dekkbáta. Einar hafði fengið heilablóðfall en það kom ekki í veg fyrir að hann hjálpaði bróður sínum og Helga að byrða bátinn. Þeir feðgar höfðu þá þegar reist kjölinn og heflað timbrið í byrðinginn.
„Við byrjuðum á laugardagsmorgni í maí 1967 að byrða bátinn. Einar sagaði timbrið til, ég sá um gufuna og við pabbi negldum þetta upp. Pabbi vildi ekki að við værum líka að þessu á sunnudegi en Einar bað okkur um að koma. Við vorum svo búnir að byrða hann seinnipart sunnudagsins. Það tók því ekki nema tvo daga að byrða bátinn,“ segir Helgi.
Upprunalegur að gerð
Einar smíðaði fjölda báta sem voru 22 fet á lengd. Hann var hamhleypa til verka. Eitt skiptið tók það tíu daga frá því kjölur var reistur að slíkum bát þar til eigandinn fór í fyrsta róðurinn. Vöggur ber eiganda sínum og Einari Sigurðssyni fagurt vitni þar sem hann liggur bundinn við smábátabryggjuna á Fáskrúðsfirði. Fyrst var sett í hann Farmall vél og seinna FM vél. Enn síðar BMW vél sem reyndist ekki vel og núna er í honum Solé Diesel.
„Ég hef alltaf haldið bátnum vel við. Á tímabili hafði ég breytt honum dálítið en í dag er hann algjörlega upprunalegur. Hann er sex metra langur og 1,40 tonn. Svona bátar eru ekki til í dag. Það er öllu hent og fargað. Þetta er iðngrein sem er því sem næst horfin. En þessi þekking er í minni fjölskyldu. Bróðir minn, Hallur, er skipasmiður og býr á Nýja-Sjálandi.“

© Óðinn Magnason (.)
Á árum áður fór Helgi oft í félagi við aðra á bátnum í eggjatöku út í Skrúður úti af mynni Fáskrúðsfjarðar. Í einum túrnum voru þeir fimm og fengu 3.000 egg. Einnig fór hann með föður sínum og bræðrum í lundaveiði út í eyjuna og fengu 800 lunda einn túrinn. Helgi segir að þetta sé liðin tíð því súlan hafi eyðilagt lundavarpið þar.
Lítið borð fyrir báru
„Hallur bróðir minn var að minna mig á það um daginn að við strákarnir hefðum farið með pabba á færi á Vögg og komið að landi með 900 kíló. Það hefur þá ekki verið mikið borð fyrir báru.“
Helgi hefur lengst af starfað sem vélstjóri og verið við flestar veiðar nema snurvoð. Hann fer reglulega á Vögg út í fjörð og veiðir í soðið á færi og fær frá 100 og upp í 200 kíló í róðri. Systkini, vinir og vandamenn fá í soðið hjá honum. Helgi segir að það sé reyndar lítið um fisk inni í firði.
„Það kemur auðvitað alltaf á vorin hrygningarfiskur í mars-apríl. En á öðrum tímum er ekki mikið líf í firðinum enda er hann fullur af laxabúrum. Þá förum við langleiðina út úr firðinum og hittum þar á fisk. En það hefur alltaf verið ágæt veiði í net hérna á vorin en við erum ekki nema tveir að sýsla við þetta á litlum bátum,“ segir Helgi.
Jón Finnbogason
Önnur hafnarprýði í Fáskrúðsfirði er Skagstrendingurinn Jón Finnbogason sem er í eigu eiginkonu Ólafs Gunnarssonar skipstjóra. Báturinn er úr trefjaplasti og var áður í eigu Sigfúsar Vilhjálmssonar á Brekku í Mjóafirði sem seldi hann Jóni Finnbogasyni sem einnig var þekktur sem Jón bútungur. Þaðan komst hann í eigu fjölskyldu Ólafs. Báturinn er talsvert notaður á sumrin fyrir frístundaveiðar á firðinum og veiðar á sjófugl. Honum hefur verið glæsilega við haldið eins og Vögg litla og setja bátarnir skemmtilegan svip á smábátahöfnina í Fáskrúðsfirði.

© Óðinn Magnason (.)
