Mörgum hefur blöskrað hve varðveislu sjóminja er lítið sinnt hér á landi. Fjölmörg skip sem hafa menningarlegt gildi fyrir þjóð, sem frá örófi hefur byggt allt sitt á sjósókn, eru horfin sjónum. Varðveisla menningarverðmæta af þessu tagi fer helst fram með einkaframtaki líkanasmiða sem smíða eftirgerðir af sögufrægum skipum og hafa verk Ingvars Friðbjörns Sveinssonar Hnífsdælings, vakið verðskuldaða athygli.

Ingi Bjössi, eins og hann er kallaður, vantaði verkefni þegar hann hætti til sjós og hóf smíði á breska síðutogaranum Caesar sem strandaði við innsiglinguna í Ísafirði 1971. Smíðin tók sjö mánuði og lauk henni árið 2019. Nú er Ingi Bjössi tekinn til við mun stærra verkefni sem er smíði á togurunum Júní og Júpíter.

Hann hefur þó ekki alveg sagt skilið við Caesar frekar en aðrir Vestfirðingar, þ.e.a.s. flakið sjálft, því í því eru talin vera um 160 tonn af svartolíu. Í fyrra bárust fregnir af olíublautum fugli sem barst á land og telur Ingi Bjössi það vera olíu úr Caesar.

Júní smíðaður í Aberdeen

„Júní GK frá Hafnarfirði sem ég er fást við núna, var smíðaður 1950 í Aberdeen. Júní var í hópi stærstu nýsköpunartogaranna og hinir voru Sólborgin frá Ísafirði og Harðbakur frá Akureyri. Þeir voru eins og smíðaðir eftir sömu teikningu. Bæjarútgerð Hafnarfjarðar átti Júní 1951 en skipið var svo selt til Grikklands í júní 1964. Þar var skipið allt fram til ársins 2002 þegar það fór í pottinn,“ segir Ingi Bjössi.

Júní GK.
Júní GK.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Hann áætlar að klára smíðina fyrir næsta sjómannadag. Samhliða þessu er hann að smíða eftirgerð af Júpíter. Það var líka Hafnarfjarðartogari í eigu Tryggva Ófeigssonar og var smíðaður árið 1925. Hann varð síðar Guðmundur Júní frá Þingeyri. Í framhaldinu eignaðist Einar ríki Sigurðsson hann. Einar seldi hann til Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur sem ætlaði að breyta honum í 500 tonna flutningaskip þegar kviknaði í honum þar árið 1963. Skipið var svo dregið vestur og er nú hluti af uppfyllingu við slippinn á Ísafirði. Spilið úr honum er ennþá í notkun í slippnum á Ísafirði.

Í hlutföllunum 1:25

Ingi Bjössi fer alla leið í sinni líkanagerð. Hann smíðar alla hluti sjálfur og notar í það trefjaplast, timbur og millimetraþykkt ál. Hann vinnur allt í hlutföllunum 1:25 sem þýðir að 4 cm í meternum. Júní, sem er nú í smiðum, er 2,27 metrar á lengd, og verður eitt af stærstu módelum sem smíðuð hafa verið hérlendis. Júpíter er 1,79 metrar á lengd. Smíðin fer fram í bílskúr Inga Bjössa og hann ætlar að sýna gripina þar næsta sumar.

Júní GK.
Júní GK.

Í Júní og Júpíter er rafmagn á mörgum greinum. Hægt er að kveikja ljós inni í skipunum þannig að það lýsi út um kýraugun, ljós eru undir stýrishúsinu, svo eru dekkljós, siglingaljós og ljós á afturskipi og hvert ljós er á sérgrein.

Ljósin á Júpíter úr kúlupenna

Ingi Bjössi hefur fengið teikningar hjá Samgöngustofu og hjá skipasöfnum erlendis er að finna skipateikningar á netinu. Hann fékk t.a.m. teikningar af Júní sendar frá skipasafninu í Aberdeen. Hann segir smíðina kostnaðarsama og mikið efni fari til spillis sem ekki nýtist við smíðina, jafnt plastefni sem málning. Þá er ótalinn allur vinnutíminn sem fer í hvert verk. Hann fái engan styrk til verksins og sækist ekki eftir því heldur.

Ingi Bjössi hirti ónýta prentara á Sorpu og reif þá í sundur til að finna nothæf tannhjól.
Ingi Bjössi hirti ónýta prentara á Sorpu og reif þá í sundur til að finna nothæf tannhjól.

„En þetta er saga lands og þjóðar það sem ég er að fást við. Ég er að endurskapa hvern einasta hlut. Ég fór til dæmis í Sorpu að finna ónýta prentara til að rífa í sundur. Í þeim hef ég fundið tannhjól eftir réttu máli fyrir spilin eða aðra hluti í skipunum. Það þarf vissa útsjónarsemi til að gera hlutina."

Júpíter GK.
Júpíter GK.

Ég notaði til dæmis í stigann framan á mastrinu grindina úr djúpsteikingarpottinum mínum. Ég klippti hana í sundur og passaði alveg eftir máli. Uppþvottavélin mín bilaði og ég sá strax að ég gæti notað hjól sem eru á grindinni í uppþvottavélinni. Ég fór með skífumál á hjólin og þau pössuðu nákvæmlega sem koppar á spilin. Svo þurfti ég að finna út úr því hvernig ég fyndi krókana fyrir öndunina á olíutönkum og vatnstönkum. Ég gerði mér ferð út í Bónus til að athuga hvort ég fyndi þar eitthvað. Þarna var uppþvottabursti með krók aftan á sér sem passaði nákvæmlega. Annað vandamál var ljósin framan á stýrishúsinu á Júní. Þau eru keilulaga eins og fremsti hlutinn á penna. Ég fór með skífumálið inn í bókabúðina og mældi penna. Þarna datt ég niður á nokkra penna og eftir að ég hafði lagað þetta dálítið til eru þeir núna ljósin framan á stýrishúsinu á Júní.“

Júpíter GK.
Júpíter GK.