Á annan tug smábáta er byrjaður á makrílveiðum, enda makríll tekinn að finnast aftur innan íslensku lögsögunnar í mun meira magni en undanfarin tvö ár, að því er fram kom í tilkynningu frá Hafrannsóknastofnun undir lok júlímánaðar.

Fiskistofa opnaði fyrir umsóknir úr 4.000 tonna makrílpotti fyrir smábáta, og verður úthlutað vikulega meðan potturinn er ekki uppurinn. Tólf smábátar hafa nú þegar fengið úthlutað makrílkvóta, á bilinu 10 til 50 tonn hver. Það sem af er ágúst hafa þeir landað meira en 20 tonnum. Stærri skipin eru búin að veiða yfir 8.000 tonn á íslensku hafsvæði samkvæmt upplýsingum á vef Fiskistofu.

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábáteigenda, segir það óneitanlega spennandi að sjá hvað kemur út úr makrílveiðunum.

„Við erum þarna með 4.000 tonn sem við leigjum af ríkinu á sama gjaldi og við greiðum veiðigjöld. Þannig að við greiðum í raun og veru tvöfalt veiðigjald af þessu, og erum sáttir við það.“

Margir seldu kvótann

Ekkert hefur veiðst af makríl innan íslenskrar lögsögu síðustu tvö árin, að undanskildum einhverjum meðafla, og Örn segir að þeir sem voru komnir með varanlegar veiðiheimildir hafi margir hverjir selt þær frá sér.

„Menn trúðu því ekki að þetta kæmi aftur og stórútgerðin fékk það til sín. En nú geta menn farið í þennan sjóð.“

Hann segist hafa heyrt af því í sumar að menn hafi orðið varir við makríl á strandveiðunum, meira en var til dæmis í fyrra.

Þetta kemur vel heim og saman við bráðabirgðaniðurstöður úr júlíleiðangri rannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar, sem sýna að magn og útbreiðsla makríls í íslenskri landhelgi er mun meira en undanfarin tvö sumur.

Aftur kominn í lögsöguna

„Makríll fannst meðfram suður- og vesturströnd landsins, bæði á landgrunninu og utan þess,“ segir í tilkynningu Hafrannsóknastofnunar frá 26. júlí. „Fyrir sunnan, fannst makríll í Íslandsdjúpi suður að 62 °N breiddargráðu en makríll hefur ekki fengist í þessum leiðangri á þessu svæði síðan sumrið 2016.“ Þá hafa bráðabirgðaniðurstöður frá norsku og færeysku rannsóknarskipunum sýnt að makríll var einnig að finna austan við land.

Örn segir þennan óvænta makrílafla geta komið sér vel fyrir smábátasjómenn til dæmis þá sem hafa verið á strandveiðum í sumar, en Fiskistofa lokaði á strandveiðar þann 21. júlí, eftir aðeins 46 veiðidaga.

„Núna þegar menn fá ekki strandveiðarnar út ágúst þá geta þetta orðið smá uppgrip hjá mönnum. Einhverjir af þessum aðilum eru með útbúnað til þess að setja um borð til að stunda makrílveiðar.“

Flestir verkefnalausir

Annars eru flestir þeir sem voru á strandveiðum verkefnalausir þessa dagana.

„Einhverjir hafa náttúrlega verið með smá kvóta. Sumir með byggðakvóta en langflestir eru ekki með neinar veiðiheimldir. En þó eru dæmi um að menn hafa verið að leigja sér ufsa og það er ekki eins dýrt og að leigja þorskinn. Svo er engan þorsk að fá til leigu í kerfinu núna, og það er mikið vandamál.“

Lokað var á strandveiðar þegar aflinn var að nálgast leyfilegan heildarafla sumarsins, sem var 11.074 tonn af þorski ásamt 1.000 tonnum af ufsa og 100 tonnum af gullkarfa.

Þorskaflinn varð þó ekki nema 10.981 tonn eftir sumarið, þannig að 93 tonn vantaði upp á að þorskaflinn hafi náð útgefinni viðmiðun, og taldi Landsamband smábátaeigenda að Fiskistofa hefði hlaupið á sig með tilkynningu sinni um stöðvun veiða. LS óskaði því eftir því að auglýsingin yrði afturkölluð, en ekki var orðið við því. Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra varð heldur ekki við ósk LS um að fella úr gildi ákvörðun Fiskistofu.