Kolmunnaveiðar hafa farið vel af stað og hvert uppsjávarskipið af öðru stefnir nú að landi til löndunar. Þegar rætt var við Tómas Kárason, skipstjóra á Beiti NK, var skipið á heimstími og áætlað að landa í dag á Seyðisfirði, alls um 3.100 tonnum.

Tómas og félagar voru komnir með 3.100 tonn sem fengust í sex holum. Hann segir þetta fara virkilega vel af stað núna. Í fyrra hófst veiðin um miðjan apríl og var þá veiðin misjöfn og mikill straumur á miðunum að gera skipunum erfitt fyrir. Núna eru um tíu íslensk uppsjávarskip á miðunum nálægt miðlínunni milli Færeyja og Skotlands auk færeyskra, norskra og rússneskra skipa. Allir virtust vera að gera það gott.

754 sjómílna stím

Túrinn tók fimm daga og stímið á miðin er 377 sjómílur eða 754 sjómílur fram og til baka. Heimstímið tekur því rúman sólarhring og var áætlað að landa á Seyðisfirði seinnipartinn í gær.

„Það hefur verið hörkuveiði síðustu daga. Við tókum sex hol og erum með 3.100 tonn um borð á ekki lengri tíma en þetta. Það gerist varla mikið betra,“ segir Tómas.

Eftir fjögur hol höfðu náðst yfir 2.000 tonn og í síðustu tveimur holunum samtals um 1.100 tonn. Tómas segir að þetta hafi allt verið stutt hol eða frá sex og upp í níu tíma.

Hann segir að stundum hafi kolmunnavertíðin farið rólega af stað en yfirleitt komist menn fljótlega í ágæta veiði þegar göngufiskurinn komi norður eftir. Alls voru á þriðja tug skipa á þessum veiðum. Aflinn var fallegur og stór kolmunni en fiskurinn fari smækkandi eftir því sem hann gengur norður eftir og blandast kolmunna sem þar er.

Heildarkvótinn 150.400 tonn

Til stóð að landa á Seyðisfirði og halda beinustu leið aftur á miðin. Um 21 þúsund tonna kvóti er á Beiti og gerir Tómas ráð fyrir því að hann náist í 7-8 túrum.

Börkur NK var einnig á miðunum en Hákon EA og Vilhelm Þorsteinsson voru að landa fullfermi á Neskaupstað. Bjarni Ólafsson AK landaði á Neskaupstað í byrjun vikunnar og var aftur farinn á miðin.

Heildarkvóti í kolmunna er tæp 693 þúsund tonn samkvæmt samkomulagi strandveiðiþjóðanna. Kolmunnakvóti til íslenskra skipa á þessu ári er 150.400 tonn sem deilist niður á 18 uppsjávarskip. Beitir NK er með mesta kvóta einstakra skipa, 19.600 tonn, Börkur NK með 18.300 tonn og Venus NS og Víkingur AK með 15.700 tonn. Samkvæmt aflaupplýsingum hafði verið landað tæplega 36.000 tonnum af kolmunna frá því veiðarnar hófust. Enn eru því óveidd 114 þúsund tonn.