Í jólablaði Fiskifrétta sem kom út 22. desember síðastliðinn birtist fyrri helmingur smásögu Sindra Freyssonar rithöfundar um feigðarför skipalestarinnar PQ 17 til Sovétríkjanna sumarið 1942. Smásögunni, sem m.a. byggð er á vitnisburði Íslendings í áhöfn eins af skipunum, vindur svo fram og stigmagnast í næstu tölublöðum Fiskifrétta á nýju ári.

Skáldskapur en þó líklega ekki

„Þessi frásögn er skáldskapur en þó líklega ekki skáldskapur,” segir Sindri Freysson rithöfundur þegar hann er beðinn um að lýsa sögunni Skip númer 13 sem hann skrifaði að beiðni Fiskifrétta fyrir þetta jólahefti blaðsins.

„Líklega ekki skáldskapur segi ég því að svo mjög styðst frásögnin við vitnisburð þeirra manna sem sigldu með ógæfusömu skipalestinni PQ-17 til Sovétríkjanna sumarið 1942, stundum jafnvel orðrétt. Samt nefni ég aldrei þá skipalest á nafn í frásögninni. Núna eru líka rétt áttatíu ár síðan PQ-17 fór sína feigðarför og sannarlega mikilsvert að minnast hennar. En ég tek vissulega mörg skáldaleyfi.”

Sindri kveðst sérstaklega hafa nýtt sér gömul viðtöl við Guðbjörn E. Guðjónsson, einn fjögurra Íslendinga í áhöfn skipsins Ironclad. Hinir þrír voru Albert Sigurðsson, Magnús Sigurðsson og Freysteinn G. Hannesson. „Fyrst og fremst sæki ég í viðtal sem Jón Ormar Ormsson tók við Guðbjörn fyrir tæpum sextíu árum og hins vegar viðtal sem Guðrún Guðlaugsdóttir tók við hann fyrir tæpum tuttugu árum,” segir Sindri.

Bók Kolbrúnar Albertsdóttur, PQ-17 skipalestin, sem byggir á endurminningum föður hennar, Alberts Sigurðssonar, kom líka að góðu gagni, svo og endurminningar Péturs H. Ólafssonar, Krappur lífsdans, sem Jónas Jónasson skráði, en Pétur sigldi með PQ-13 skipalestinni. Þá má einnig nefna veglegar bækur Magnúsar Þórs Hafsteinssonar um orrustuna um Atlantshafið og fleiri heimildir.

„Skáldskapur eða ekki skáldskapur, það er efinn, alla vega sambræðingur sem hefur vonandi ágætis skemmtanagildi fyrir lesendur tímaritsins núna um jólin.”

1

Ég fleygði þungum sjópokanum yfir öxlina og þrammaði niður að höfn í gegnum miðbæinn. Sólin endurkastaðist af Tjörninni og á veggi Iðnó þannig að þeir virtust bylgjast til og frá. Lítil stelpa rölti syngjandi meðfram bakkanum og dró í bandi á eftir sér heimasmíðaðan kubbabát með pappaseglum, einsog hún væri að viðra hund.

Á leiðinni hitti ég gamlan skólafélaga. Hann spurði hvert ferðinni væri heitið.

„Réði mig á bandarískt kaupskip. Líklega á leið til Sovétríkjanna.”

Hann horfði þögull á mig stundarkorn.

„Vertu þá blessaður elsku vinur,” sagði hann loks. „Ég sé þig víst ekki aftur.”

Mér brá. Ég hafði ekkert svar.

En ég hætti ekki við.

Allt frá því að stríðið kom til Íslands höfðu dagarnir haft sama sætbeiska keiminn: Í hvert skipti sem ég horfði á erlendu skipin í höfninni hungraði mig í ævintýri. Ég þráði að brjótast í burtu frá þessari eyju. Upplifa heimsstyrjöldina annars staðar en á Hressó eða bograndi við suðandi útvarpstækið í fréttaleit.

Helst langaði mig að sigla. Ókunnug lönd. Erlendar hafnir. Ilmur af seltu

Ég vissi að stundum vantaði menn á flutningaskip hersins sem komu við á Íslandi á leið sinni til Sovétríkjanna, troðin vopnum, tækjum og matvælum. Eimskipafélagið sá um að ráða og ég skráði mig upp á von og óvon. Ég var nýorðinn nítján ára.

Skömmu síðar var hringt og ég beðinn um að skjótast niður á aðalskrifstofuna í Pósthússtræti. Fjóra menn vantaði á fraktara sem lá í Hvalfirði. Ástæðan var sú að fjórir skipverjar, náungar frá Puerto Rico, höfðu hótað að drepa skipstjórann. Þeir höfðu verið settir í land. Ég vissi ekki þá að nokkrum mánuðum síðar myndi ég skilja ég þessa ágætu herramenn frá Puerto Rico ákaflega vel.

Klakabrynjaður ljóskastari til merkjasendinga. MYNDIR/IWP
Klakabrynjaður ljóskastari til merkjasendinga. MYNDIR/IWP

Við tvístigum fjórir íslenskir strákar þarna á skrifstofunni, ég yngstur, sá elsti tuttugu og tveggja ára, allir tilbúnir að sigla. Við vissum ekki einu sinni hvert ferðinni væri heitið.

„Þið hafið tvo tíma til að græja ykkur,” sagði skrifstofustjórinn og leit varla upp úr kladdanum. „Síðan eigið þið að mæta niður á Reykjavíkurhöfn.”

Ég rölti heim upp á Spítalastíg og sagði mömmu að ég ætlaði að skreppa í burtu í tvo eða þrjá mánuði. Henni leist ekki á blikuna. Hún reyndi allt hvað hún gat að sannfæra mig um að hætta við. Þetta er fásinna! sagði hún. Feigðarflan!

Mér varð ekki haggað Ég tók saman dótið mitt og setti það í sjópokann. Pabbi var ekki heima svo ég bað bara að heilsa honum.

2

Ég þrammaði framhjá bylgjandi veggnum á Iðnó og syngjandi stelpu með kubbabát, alla leið niður á bryggju. Orð gamla vinarins klingdu í höfðinu á mér: Ég sé þig víst ekki aftur.

Hinir strákarnir birtust fljótlega. Við reyndum að bera okkur mannalega en allir skynjuðum við óvissuna, þennan kalda dropa af ótta sem barst með blóðrásinni.

Við vorum fluttir á vélbát hlöðnum kössum upp í Hvalfjörð. Við horfðum dolfallnir á fjörðinn ljúkast upp einsog opnu í dularfullri myndabók. Hvarvetna voru skip. Korvettur, breyttir togarar, fraktskip, freigátur, beitiskip, flugmóðuskip - fjörðurinn virtist útþaninn af öllum farkostum sem hægt var að ímynda sér á sjó. Úr lofti hlaut hann að líkjast lokkandi konfektkassa.

Vélbáturinn dólaði að gömlu skipi sem hafði greinilega séð skárri daga, svartskellótt og ryðbrunnið. Eitt sinn knúið með kolum en nú var búið að setja í það olíukyndingu. Tæpar tíu þúsund lestir að stærð. Klunnalegt í lögun og ögn erfitt að sjá hvort væri skutur og hvort væri stefni, einsog það væri á báðum áttum um hvort það væri að koma eða fara. Fram á skipinu voru fjórar vélbyssur, fjórar vélbyssur á brúnni og tvær fallbyssur aftast. Þegar það var sjósett hafði það heitið Mystic, en ekkert við það minnti á dulspeki eða dulspekinga. Nú kallaðist það Ironclad. Nafn sem kallaði fram mynd af á ósigrandi riddara í blóði drifinni brynju. En þessum kláfi blæddi bara ryði og olíu.

Við klöngruðumst um borð og hittum fyrstan bátsmanninn sem tilkynnti að við hásetarnir heyrðum undir hans stjórn. Hann hét Benny, hláturmildur maður með sorgmædd augu, þéttur á velli og sköllóttur. Hann leiddi okkur upp í brú til að kynna fyrir Moore skipstjóra. Við stilltum okkur upp einsog tindátar. Kapteinninn var líklega aðeins rúmlega fimmtugur en orðinn roskinn fyrir aldur fram; bakið byrjað að bogna, hárið að hvítna. Starandi fölblá augun smugu í gegnum mann einsog stálnaglar. Maður sá það á honum að taugarnar voru þandar.

Moore leit út einsog hann hefði plægt höfin sjö og barist við sjóræningja. En ég frétti brátt að fyrir stríð stýrði hann hafnsögubáti í New York. Hann hafði ekki þurft að fara meira en nokkur hundruð metra frá bryggju árum saman, ekki fyrr en hann var skikkaður til að stýra þessum ryðkláfi, brennimerkum að sigla háskaslóðir á vit þýskra ránfugla, hákarla og úlfa.

Sérviskan skein af Moore. Hann gekk aldrei með kaskeiti skipstjóra, aðeins velkta knapahúfu einsog hann þráði ekkert frekar en að stökkva upp á veðhlaupahest hið allra fyrsta og þeysa á brott. Hann vildi ekki hafa björgunarbátana hangandi í davíðum einsog öll önnur skip, þeir voru geymdir upp á dekki. Til að flýta fyrir ef okkur yrði sökkt bjóst ég við. Mig grunaði að hann væri innst inni jafn skelfingu lostinn og allir aðrir um borð.

Það fór hrollur um okkur alla þegar hann sagði að Ironclad yrði skip númer 13 í skipalestinni.

Nærveru þýskra kafbáta var reynt að mæta með djúpsprengjum.
Nærveru þýskra kafbáta var reynt að mæta með djúpsprengjum.

3

Okkur var vísað niður í káetur. Framlestin var full af TNT-sprengiefni og þess vegna svaf öll áhöfnin í afturhluta skipsins. Á þilfarinu stóðu skriðdrekar boltaðir tryggilega niður með þykkum stálkeðjum og sundurteknar flugvélar í rammgerðum kössum.

Á leiðinni niður sagði bátsmaðurinn okkur frá hinum í áhöfninni.

„Þeir komu margir beint úr fangelsum í Bandaríkjunum,” sagði hann og dró annað augað í pung. Við hváðum.

„Já,” sagði hann. “ Þeir gátu valið um að rotna í fangelsi eða sigla í skipalest. Flestir völdu raunar fangelsið. En hérna eru þeir sem hlutu svo þunga dóma að þeir kusu frekar að sigla.”

Hann sá að okkur varð ekki um sel og kímdi. „Slakið á strákar. Flestir aðrir um borð eru gamlir sjóhundar eða stráklingar að strjúka að heiman. Og svo auðvitað skytturnar tólf. Þeir gaurar eru á vegum flotans og stýra byssunum.”

Við hittum skrýtinn samtíning af mönnum niðri í messa. Ég skildi í fyrsta skipti á ævinni til fulls orðtakið “loftið var lævi blandið”. Sumir þeirra reyndust vissulega vera hættulegir og harðsvíraðir glæpamenn. Yfirleitt var þó þægilegt að vinna með þeim.

Einn var gamall boxari og líklega með vægar heilaskemmdir eftir allar barsmíðarnar. Hann rauk upp við minnsta tilefni, alltaf að sveifla handleggjunum og umlaði eitthvað sem erfitt var að skilja. Hann var kallaður The Kid eða El Cid, við vorum ekki vissir.

Annar var fyrrum útkastari á næturklúbbum, nefbrotinn svoli sem þóttist þekkja alla frá Frank SInatra til Gretu Garbo.

Náungi frá Puerto Rico gekk alltaf vopnaður hnífi. Hann hét Cruz og var liðugasti maður sem ég hef hitt um ævina. Hann sagði við mig fljótlega eftir komuna um borð: „Mundu: Vertu fyrstur ef eitthvað kemur fyrir. Ef þú ert annar gæti það verið of seint.”

Einn skipverja kom til okkar Íslendinganna og kynnti sig brosandi og vingarnlegur. Hann hét Maylor en okkur heyrðist hann segja Maylord og kölluðum hann alla tíð Lordinn eftir það. Ekki þó svo að hann heyrði. Viðkunnanlegur náungi. Ef skipstjórinn neyddist til að tala við hann lét hann alltaf setja manninn í járn áður, bæði fótajárn og handjárn. Hann sagði að Lordinn væri morðingi. Við efuðumst aldrei um að það væri rétt. En við spurðum hann ekki sjálfan.

Ég var lánsamur og lenti í tveggja manna káetu með einum Íslendinganna. Hann varð fljótt traustur vinur minn. Hinir tveir voru settir í káetu með þremur Bandaríkjamönnum, þar á meðal Lordinum. Þeir virtust allir með sakaskrá sem var jafn litrík og truflandi og húðflúrin á líkama þeirra.

4

Við fengum nýja skýringu á því hvers vegna við höfðum verið ráðnir. Fjórmenningarnir sem sakaðir voru um að hóta skipstjóranum lífláti höfðu verið forsprakkar í að brjótast inn í sérstaka geymslu, stappfullri af eðal-viskíi sem ætlað var bandaríska sendiherranum í Moskvu. Þeir buðu síðan allri áhöfninni á blindafyllerí, voru dáðir og dýrkaðir og dauðadrukknir eina kvöldstund, en vöknuðu í járnum. Þeir urðu sótillir þegar skipstjórinn hundskammaði þá og boðaði harðar refsingar fyrir þjófnaðinn á viskí sendiherrans. Þeir vissu ekki hversu gæfusamir þeir voru að losna af skipinu.

„Aldrei á ævi minni hefur viskí smakkast jafn vel. Mér leið einsog sendiherra í heilt kvöld,” sagði einn þrjóturinn við okkur glaðhlakkalegur. Áhöfnin öskraði úr hlátri.

Þriðja daginn um borð stóð ég bakborðsmegin í blíðviðri þegar ég heyrði fjarlæg hróp og köll stjórnborðsmegin. Ég veitti þeim ekki athygli í fyrstu, of djúpt sokkinn í að vefja mér sígarettu eftir öllum kúnstarinnar reglum, nýbúinn að tileinka mér þessa list. Áhöfnin lagði frá sér kústa, pensla og sköfur og forvitnaðist um hvað væri á seyði. Ég bættist í hópinn og rýndi með þeim til lands.

Lítilli fólksbifreið hafði verið ekið næstum ofan í fjöru. Bílstjórinn hafði fyllst svo miklum hugaræsingi þegar hann fann loks Ironclad að hann gleymdi að skella dyrunum þegar hann stökk út. Nú stóð hann í flæðarmálinu og kallaði og veifaði til okkar af öllum lífs og sálar kröftum.

„Hvurn andskotinn er á seyði?” spurði maskínumeistarinn sem kominn var alla leið upp úr vélarúmi til að svala forvitninni.

Mér fannst maðurinn í fjörunni eitthvað kunnuglegur og skerpti á hann augum. Mér hnykkti við. Þetta var pabbi. Hann hrópaði nafn mitt.

Hann hafði fengið lánaðan bíl og ekið alla þessa leið til að finna mig og reyna að telja mér hughvarf. Bjarga mér frá sjálfum mér og skipalestinni. Af einhverjum ástæðum hafði hann klætt sig í fínni fötin fyrir þessa ferð, jakki, vesti og hálsbindi, og var í frakkanum sem hann notaði bara á sunnudögum. Það vantaði bara mömmu við hlið hans í fjörunni, klædda í blómóttan kjól og sparikápu til að fullkomna niðurlægingu mína. Ég blóðroðnaði og reyndi að fela mig á bakvið heilabilaða boxarann.

Tveir herlögreglumenn brunuðu á jeppa niður í fjöruna og stukku út. Maður sá á handapatinu og bendingunum að skipinu að pabbi reyndi óðamála og á sinni broguðu ensku að útskýra fyrir þeim að sonur hans væri um borð í manndrápsfleyinu þarna úti á firðinum. Hann vildi aðeins sækja strákinn og fara með heim. Þeir hlustuðu kurteislega á hann en hristu loks bara hjálmaklædd höfuð. Sonur hans tilheyrði núna bandaríska flotanum og yrði ekki endurheimtur.

Þeir fylgdu honum að bílnum og eltu hann þangað til hann hvarf í rykmekki á móts við Maríuhöfn á leið heim til mömmu að segja henni ótíðindin.

Ég dauðskammaðist mín en lét á engu bera og sneri út úr og eyddi talinu þegar íslensku strákarnir spurðu stríðnislegir hvort að þetta hefði verið pabbi minn. Samviskubitið nagaði mig samt dögum saman. Ég sá fyrir mér mömmu snöktandi yfir kaffibolla í eldhúskróknum heima á meðan pabbi stjáklaði um í ráðaleysi.

5

Við hírðumst í skipinu í heilan mánuð áður en siglt var af stað. Skipstjórinn harðbannaði okkur að fara í land. Hann þurfti að passa upp á fangana fyrrverandi. Við skúruðum og spúluðum frá morgni til kvölds, skröpuðum ryðbletti, pensluðum yfir skellur, reyndum kófsveittir að flikka upp á þennan kláf sem virtist vilja halda dauðahaldi í ljótleika sinn. Þetta var ekki ævintýrið sem mig hafði dreymt um.

Annar stýrimaður, Spence að nafni, horaður og slánalegur náungi, alræmdur fyrir að vera síkvartandi og síklagandi allt og alla, smíðaði sér bát sem hann reri á í kringum skipið til að stytta sér stundir á frívöktum. Furðulegt hvað jafn leiðinlegur maður gat smíðað fallegan bát úr naumum efniviði. Þá fengum við íslensku strákarnir þá hugmynd að smíða kajak. Hann var frumstæð smíði en við gátum líka róið á honum í kringum skipið. Við horfðum löngunaraugum í land.

Þegar við vorum á leið í einn róðurinn kallaði Lordinn á okkur. Hann var að væflast í járnum uppi á dekki. Fótakeðjan glamraði við þilfarið.

„Ætlið þið í land?” spurði hann. „Ég kem með.”

Hann smokraði sér úr járnunum fyrirhafnarlaust. Það rann upp fyrir okkur að skipstjórinn hafði stöðugt verið í hættu. Við rerum í land og horfðum á eftir Lordinum hlaupa upp á veg og stökkva aftan á vörubíl á leið til Reykjavíkur.

Þeir náðu honum strax um miðnætti. En í stað þess að henda honum í fangabragga í bænum skiluðu þeir honum aftur á skipið. Siglingin var miklu grimmari hirting.

Fram í skipinu var fangageymsla. Lítill óvistlegur klefi með þykkri stálhurð. Þegar menn hlýddu ekki skipunum eða stálu einhverju voru þeir lokaðir þar inni upp á vatn og brauð. Sköllótti bátsmaðurinn sagðist þó ætla að hleypa þeim út við loftárás, aðallega svo að þeir gætu barist, komið að gagni áður en þeir dræpust.

Þegar við vorum að matast í messanum kvöldið sem Lordinn strauk dúkkaði allt í einu upp annar stýrimaður. Spence stormaði fokillur að borðinu og hvæsti á okkur að éta hratt. Það átti að loka okkur inni fyrir að hjálpa Lordinum að flýja.

Við tuggðum eins hægt og við gátum. Maturinn um borð var raunar himneskur á tungu og ævinlega vel útilátinn. Brytinn var í guðatölu hjá áhöfninni. Og lánið lék við okkur. Við vorum að kyngja seinasta kjötbitanum þegar vélbátur sigldi að Ironcladi og skilaði skipstjóranum um borð. Hann hafði setið lokafund allra skipstjóra og skipherra uppi í landi. Hann færði okkur þau hrollvekjandi skilaboð að næsta dag myndi lestin sigla til Sovétríkjanna. Refsingin fékk að bíða.

6

Við fengum nú að vita að ferðinni væri heitið til Arkhangelsk, borgar erkiengilsins í landi kommúnismans. Upphaflegi áfangastaðurinn var Múrmansk, en hún var flakandi sár eftir að nasistarnir höfðu sprengt hana miskunnarlaust skömmu áður.

Veðrið var einstaklega fallegt í birtingu næsta morgun. Við sigldum út eftir smá ræmu á milli tundurduflanna. Mjög þröng renna og skipið svo stórt að það sveiflaðist til og frá einsog í þunglamalegum dansi. Ég hékk yfir borðstokkinn og starði náfölur á á odda tundurduflanna nálgast og fjarlægjast skipsstálið í sífellu. Alveg þangað til að við smokruðum okkur út úr rennunni og gátum loksins siglt á fullum dampi.

Við fórum á grunnmiðum vestan með landinu, fyrir Hornbjarg, bættumst í skipalestina fyrir utan Vestfirði og þaðan í haf út í norðaustur. Það var næstum dáleiðandi að skyggnast yfir þennan gríðarlega flota þokast eftir haffletinum í níu samhliða röðum. Kaupskipin voru 36 talsins, og þeim til aðstoðar voru þrjú björgunarskip og tvö olíuskip fyrir fylgdarskipin.

Vosbúð og nístandi kuldi var daglegt brauð áhafnanna.
Vosbúð og nístandi kuldi var daglegt brauð áhafnanna.

Í fylgdarliðinu voru sex tundurspillar, fjórar korvettur, þrír tundurduflaslæðarar, fjórir vopnaðir togarar, tvö loftvarnarskip og tveir kafbátar. Alls um sextíu skip, öll grámáluð til að óvinurinn ætti erfiðara með að greina þau frá hafinu. Og einhvers staðar utan sjónmáls var okkur sagt, sigldu enn stærri bryndrekar ef á þyrfti að halda, þungvopnaðir og í vígahug.

Ég stóð á stjórnborða í svala golunnar og dáðist að umfanginu sem við blasti. Þessari tilkomumiklu fylkingu skipa og öllum mættinum sem fólst í drynjandi vélbúnaðinum neðan þilja og stórkostlegum skotkraftinum ofan þeirra. Og mér leið einsog ég væri öruggur. Einsog ekkert illt gæti hent okkur.

Við höfðum enga hugmynd enn um að okkur var fylgt eftir með djöfullegri hægð, að í djúpunum leyndust alsjáandi augu. Þýskur kafbátur hafði séð skipalestina skömmu eftir að við komum út á rúmsjó. Hann elti okkur þaðan í frá einsog slunginn skuggi.

Óvinurinn var ekki eingöngu þýski herinn heldur líka náttúruöflin.
Óvinurinn var ekki eingöngu þýski herinn heldur líka náttúruöflin.

7

Nokkur skip lentu í rekís í brælu sem gekk yfir okkur á Grænlandssundi. Tvö flutningaskip og olíuskip urðu fyrir skemmdum og þurftu að snúa til baka.

Við höfðum bara siglt í fjóra daga þegar allar tilfinningar sem ég hafði um öryggi voru afhjúpaðar sem falskar og hlægilegar. Þýsk flugvél birtist fyrirvaralaust úr vestri.

Hún hringsólaði og sveimaði einsog forvitin fluga yfir skipalestinni tímunum saman, svo hátt að útilokað var að skjóta hana niður. Skipin reyndu samt og vélbyssudrunurnar þögnuðu ekki. Fór í taugarnar á okkur öllum, vélrænt og hæðnislegt suðið á himni sem við vildum svo heitt geta kæft. Því að við vissum að þetta sakleysislegi svarta skordýr uppi í himinblámanum boðaði dauða okkar og tortímingu.

Að lokum renndi hún sér í burtu. Kvíðinn tók við.

Herskipin töldu sig hafa orðið vör við kafbát. Við sáum hann auðvitað ekki, en tundurspillarnir sigldu um þvers og kruss og hentu án afláts út djúpsprengjum. Þegar þær sprungu risu gríðarháir strókar, hvítir og reiðilegir upp úr sjónum. Þrýstingurinn lamdi byrðing skipanna að endilöngu einsog risavaxnar sleggur. Ég fann hvernig Ironclad titraði undir fótum okkum. Sumir óttuðust titringinn meira en kafbátana, sögðu að sprengiefnið þyldi ekki kröftug högg.

Skipalestin sigldi áfram með jöfnum hraða. Um himinhvolfið svifu uppblásnir loftvarnarbelgir sem sum skipin drógu á eftir sér í stálvírum, einsog þau væri á leið í vitfirrt barnaafmæli. Fylgdarskipin sikksökkuðu í kring og höfðu gát á hverjum þumlungi sjávar. En allir vissu að þetta væri bara spurning um tíma.

8

Næsta dag mætti fyrsta flugsveitin.

Í upphafi fjarlægur vélardynur. Hann nálgaðist hratt og allt í einu blasti við heil sveit af Heinkel-vélum hátt á lofti. Níu alls. Fyrstu sprengjurnar féllu í sjóinn. Þær flugu áfram og hurfu. Birtust síðan aftur. Ég starði höggdofa á vélarnar nálgast óðfluga og fljúga lægra í þetta skipti. Allt í einu stirðnaði ég upp og dofnaði. Yfir mig hvolfdist vitund eða kennd sem ég gat ekki lýst í orðum; þessi furðuleg tilfinning sem fylgir því að uppgötva í fyrsta skipti að einhver sé staðráðinn í að murka úr manni líftóruna.

Sprengju- og kúlnaregn frá þýskri Junckers sprengjuflugvél.
Sprengju- og kúlnaregn frá þýskri Junckers sprengjuflugvél.

Skyttan gaf mér olnbogaskot og öskraði á mig. Stjarfinn sem hafði heltekið mig hvarf. Ég byrjaði að vinna með hröðum og endurteknum handtökum.

Ég hafði fengið það hlutverk að standa við hlið stærstu fallbyssunnar og taka við skothylkjunum þegar hún spýtti þeim út úr sér. Krafturinn í fallbyssukúlunum var nægjanlega öflugur til að sprengja flugvél ef þær hittu í mark. Hylkin voru sjóðheit og ég varð að bera þykka vettlinga á höndum til að skaðbrenna mig ekki þegar ég tók þau upp og kastaði í sjóinn. Þar lentu þau með hvæsandi snarki.

Ég sá að hurð á stálskáp fullum af sprengikúlum hafði hrokkið upp og flýtti mér að skella henni aftur.

„Eins gott að þú lokaðir skápnum,” sagði skyttan við mig eftir árásina. „Ein patrónan skaust beint í hurðina nokkrum sekúndum síðar. Ef skápurinn hefði ennþá verið opinn hefði allt skipið sprungið í tætlur.”

Ironclad var einsog flest önnur skipin í lestinni að sligast undir sprengiefni. Í hugum okkar allra ólgaði sama hugsunin. Lítið þurfti til að allt þetta magn springi í háaloft. Flugvélahlutirnir voru sumir vafðir inn í bastkörfur. Af þeim stafaði líka hætta. Ef nokkrar íkveikjusprengjur hittu þær myndi bastið loga glatt. Í raun sigldum við á púðurtunnu.

9

Það glitti í gráa slikju yfir blóðvellinum. Hún vafðist saman við svarta púðurhnoðrana eftir sprengikúlurnar. Við óskuðum þess af öllu hjarta að hún þéttist í þoku. Einhverju skipi tókst að skjóta niður þýska flugvél. Hún kipptist snögglega til og slengdist logandi í hafið.

Á hverju einasta skipi dönsuðu menn sigurdans og föðmuðu hver annan einsog við hefðum sigrað í fótboltaleik. Við höfðum bitið frá okkur. Kannski vorum við meira en dýr leidd til slátrunar. Kannski áttum við von.

Þrír Þjóðverjar klöngruðust vankaðir út á væng brotlentu vélarinnar. Þeir ýttu pínulitlum gúmmífleka á flot og byrjuðu að róa allt hvað af tók, burt frá herskipunum sem ösluðu grimmúðleg til þeirra. Það blasti við þeim að verða skotnir í kaf, rotna í fangelsi til stríðsloka eða verða helfrosin reköld dögum eða vikum saman. Við kærðum okkur kollótta - því verra fyrir þá, því betra. En þá sveif flugvél allt í einu niður og settist mjúklega á sjóinn rétt hjá þeim. Þeir klifruðu upp á flotholtin og voru dregnir innfyrir, vélin tók sig upp í skyndingu og smaug inn í vaxandi þokumóðuna. Einsog töframaður hefði látið holdvota kanínu hverfa.

Við störðum gapandi á þessa óvæntu og fífldjörfu björgun. Það sljákkaði rækilega í gleðinni. Við vorum samt ennþá nokkuð drjúgir með okkur þegar næsta árásarhrina hófst korteri síðar.

Ég sá flugmann einnar vélarinnar líta snöggt til mín þegar hún æddi á milli skipanna, næstum í seilingarfjarlægð. Ávöl og brúnleit hlífðargleraugu spennt yfir efri hluta andlitsins. Voldug leðurhetta með heyrnatólum óluð á höfuðið. Súrefnisgríma tengd við áberandi gúmmíbarka huldi nef, munn og höku. Hann leit út eins og vélræn ófreskja.

Samt vissi ég að undir þessari ógnvænlegu stríðsgrímu, bakvið þennan drápsvilja, var bara gaur einsog ég, einhver sem hafði hungrað í ævintýri og átti kvíðafulla móður heima í eldhúsi.

Steingráar þokuslæður lögðust letilega yfir hafflötinn. Við hættum að sjá flugvélarnar og þær hættu að sjá okkur. Einsog náttúran hefði ákveðið að skakka leikinn í smástund. Fyrstu árásinni var lokið. Við gátum andað léttar. Í bili.

„Við misstum ekkert skip,” tilkynnti sköllótti bátsmaðurinn okkur og allir ráku upp fagnaðaróp.

Ég vonaði að þokunni myndi aldrei létta.

Ósk mín virtist ætla að rætast. Daginn eftir þurftum við að setja út þokudufl. Næsta skip fyrir aftan hélt sig þá í hæfilegri fjarlægð og hættan á árekstri minnkaði umtalsvert. Eini vandinn voru skothvellir sem dundu annað slagið í þokunni, þegar taugastrekktar skyttur tóku duflin í misgripum fyrir sjónpípu kafbáts og byrjuðu að skjóta. Ég hrökk í kút í hvert skipti. En við þurftum alla vega ekki að verjast Þjóðverjum þann daginn.

Skipalestin silaðist áfram, hjó þunglestuð í öldurnar. Sædrifið gekk yfir skytturnar við byssurnar. Ég horfði áhyggjufullur á þokubakkann rakna upp og þynnast umhverfis okkur, þangað til að hann minnti mig á glottandi hauskúpu framundan stefni skipsins.

10

Sjöunda daginn eftir að við lögðum úr höfn hófst helvítið fyrir alvöru. Þremur skipum var sökkt þegar kvöldaði. Ég fékk þá skrýtnu flugu í höfuðið að ég væri staddur í öfugsnúinni sköpunarsögu, sem byrjaði með útrýmingu manna og endaði með auðn og tóm.

Við sáum menn skjótast skelfingu lostna um þilförin og príla út fyrir borðstokkinn. Líta snöggvast um öxl en láta sig svo falla í sjóinn. Aðrir litu ekki til baka heldur hentu sér útbyrðis, einn af öðrum. Þeir seinustu sem hlupu úr brennandi skipunum voru einsog logandi kyndlar. Það rifjaðist upp hvað Cruz hafði brýnt fyrir mér: Vertu alltaf fyrstur út.

Þýsku kafbátarnir voru einnig mættir til leiks.

„Tundurskeyti! Tundurskeyti!” öskraði boxarinn The Kid, óvenju skýrmæltur, og benti óttasleginn út á haf.

Tundurskeytið myndaði rák í sjónum sem nálgaðist einsog pensilstrik. Ég stóð mig að því að biðja til guðs um að skipið snerist í tíma. Skipstjórinn hljóp að vélsímanum og sló honum á fulla ferð áfram til þess að snúa skipinu. Og með seiglukenndri hægð og rymjandi vélum náði Ironclad að beygja. Tundurskeytið missti marks. Freyðandi línan teygðist áfram út í fjarskann.

Benny bátsmaður gekk niður í messa um kvöldið og bað um hljóð. Með grafarsvip og þunga sem við höfðum ekki séð áður sagði hann að skeyti hefðu borist frá Bretunum. Fyrirmæli um að sundra lestinni. Flest verndarskipin myndu hverfa á braut. „Leiðinlegt að þurfa að yfirgefa ykkur. Verið blessaðir og hamingjan fylgi ykkur. Útlit fyrir að þetta verði slátrun.”

Skipstjórarnir máttu gera það sem þeir vildu til að bjarga skipunum. Okkur leið einsog það ætti að skilja okkur eftir varnalausa, búið að afskrifa okkur og dæma til dauða. Veita okkur frelsi sem við vildum alls ekki, ekki einu sinni fangarnir um borð.

“Every man for himself,” sagði akróbatinn Cruz með sterkum spænskum hreim og hrækti með fyrirlitningu á gólfið. “¡Cada hombre por si mismo!”

11

Siglingin var aðeins rétt rúmlega hálfnuð. Við vorum á milli steins og sleggju: Öðrum megin var Noregur með þýskar flugvélar og herskip á hverju strái. Hinum megin miskunnarlaus ísinn. Þegar við vorum á stýrisvaktinni urðum við að gæta okkur sérstaklega á risavöxnu jökunum sem gátu rist upp hliðar skipsins eins auðveldlega og skæri klýfur blað.

Áttundi dagurinn rann upp.

Flugsveitirnar komu í hrönnum. Þær byrjuðu yfirleitt á öftustu skipunum. Morse-lamparnar glömpuðu um alla lestina, sendu aðvörunarmerki og fyrirskipanir á milli skipanna í samblandi af fáti og vonleysi. Skip númer 13 sigldi í jaðrinum norðanmegin í lestinni, frekar aftarlega, eitt skip fyrir aftan, þrjú fyrir framan. Vélarnar flugu fyrir skipin og sendu dembur yfir þau. Kúlurnar skutust hvínandi að skipunum, glóandi leiftur á eldingarhraða. Sumar hæfðu strax skotmarkið. Ógurlegar sprengingar dundu og bergmáluðu yfir hafflötinn. Sumar þeirra köstuðu niður stórum, segulmögnuðum sprengjum.

Hvinurinn í flugvélunum að lækka og hækka flugið og ýlfrið í fallandi sprengjunum rann einsog hugsjúk laglína saman við ærandi hvellina í sprengjunum og geltið í byssunum. Vitfirrtur fiðlari að leika á slitna strengi á meðan jafn trylltur trumbuslagari barði trommurnar.

Stærri flugvélar sem köstuðu út tundurskeytum birtust. Þær létu skeytin falla í sjóinn og hækkuðu síðan flugið. Þá gátum við dritað á þær. Fáeinar voru skotnar niður, en það skipti engu; þær voru einsog tryllt mýflugnager sem engu eirði.

Ein flugvélin stefndi aftan að okkur. Ég taldi mína seinustu stund runna upp. En hún sendi skeytið á einn dallinn sem sigldi bakborðsmegin við okkur. Aðra eins sprengingu hafði ég aldrei séð. Skipið bókstaflega tættist í sundur.

Ein vélin steypti sér skyndilega niður, á fleygiferð með óskaplegum hávaða. Byssurnar á skipunum byrjuðu að skjóta. Flugvélin tók snögga dýfu upp á við og lét um leið sprengjurnar gossa.

Hvert einasta skip í skotfæri hleypti af byssum sínum. Þau þurftu að halda skothríðinni neðarlega því að þýsku flugvélarnir flugu svo lágt á milli skipanna, fyrir neðan möstrin jafnvel, til að erfiðara væri að skjóta á þær. Fyrir vikið var bókstaflega haglél kúlna rétt fyrir ofan okkur. Siglutré, flautur og strompar voru víða einsog gatasigti. Ef einhver hefði asnast til að príla upp á brúarþakið hefði hann verið saxaður í sundur. Margir dóu raunar fyrir kúlnahríð eigin manna.

Stöðugt á varðbergi enda ógnin jafnt í djúpum hafsins og á lofti. MYNDIR/IWP
Stöðugt á varðbergi enda ógnin jafnt í djúpum hafsins og á lofti. MYNDIR/IWP

12

Fallbyssan var orðin svo rauðglóandi að ég óttaðist að hún myndi springa. Hendur mínar voru sjóðheitar þrátt fyrir vettlingana, svo mörgum skothylkjum hafði ég hent fyrir borð. Sprengjubrot smaug niður á bakið á mér. Sem betur fer stöðvaðist það í björgunarbeltinu sem ég bar á mér. En ég fékk samt brunasár sem mér logsveið í dögum saman.

Ógnarsterkur blossi gaus upp í flutningaskipi á stjórnborða, teygði sig til himins einsog glóandi súla og í næstu svipan drundi sprenging. Hávaðinn var óskaplegur. Skipið hvarf á svipstundu. Járnbraki, tréflísum, líkum og líkamshlutum rigndi yfir sjóinn. Ironclad hentist til einsog tröllahendur væri að lyfta því. Við leituðum að handfestu í óðagoti. Ískaldur sjór skall á okkur og freyddi um þilfarið.

Ég reyndi ákaft að hugsa ekki um allt sprengiefnið í lestinni, en því meira sem ég reyndi að forðast að hugsa um það því meira hugsaði ég um það.

„Drottinn minn dýri, vonandi hitta þeir ekki í farminn,” sagði einhver við hlið mér. Eða kannski ég sjálfur.

13

Það var hroðalegt að sigla innan um sökkvandi skipin. Heyra hjálparköll bjargarlausra sjómannanna. Sumir þeirra velktust um öskrandi í logandi olíubrákinni og brunnu til bana fyrir framan augun á okkur. Margir fóru í skrúfur skipanna. Okkur var harðbannað að hægja á okkur og bjarga þeim. Skip sem nam staðar var auðveld bráð.

Korvetturnar og björgunarskipin sigldu inn á milli og kræktu í þá menn sem hægt var. Netum var rennt nður síður skipanna, alveg undir sjávarmál til að menn í sjónum gætu klifrað um borð þegar þeir komu syndandi, fljótandi á braki eða jafnvel á bátum eða flekum. Þeir sem voru ekki fiskaðir upp hurfu fljótlega í öldurótinu. Korvetturnar voru svo litlar að Þjóðverjarnir eyddu ekki skotum á þær að óþörfu. Björgunarskipin voru orðin yfirfull af skipreika mönnum, margir þeirra særðir eða deyjandi. Menn liðu óheyrilegar kvalir.

Ég horfði á tvo björgunarbáta slíta sig frá nærstöddu skipi. Því hvolfdi, kjölurinn sneri upp góða stund, en síðan lyftist stefnið og á augabragði hvarf það af yfirborði sjávar. Þrír menn sem voru andartaki á eftir skipsfélögum sínum stukku í sjóinn og svömluðu á eftir bátunum en ræðararnir sneru ekki við af ótta við að sogast ofan í með skipinu. Að lokum gáfust þeir upp, kuldinn heltók þá. Kollarnir þrír hurfu sporlaust ofan í sjóinn einn af öðrum og birtust ekki aftur.

Alda skolaði manni fyrir borð á nýlegu flutningaskipi. Hann reyndi að synda eins hratt frá skipinu og hann gat, keyrður áfram af óttanum. Honum virtist ætla að takast það en skipið valt svo hratt á hliðina að það sem eftir var siglutoppsins skall á honum. Rammflæktur í víra og loftnet og kaðalspotta barðist hann um nokkur andartök einsog fiðrildi í háfi, en síðan dróst allt skipið niður og hann með.

Einn synti að braki í sjónum þar sem nokkrir sjómenn ríghéldu í fleka. Allt var löðrandi í olíu, líka sjálfar öldurnar. Hann tók sig til og sótti mann sem flaut rænulítill nærri og hjálpaði honum að flekanum. Hann kom auga á annan og náði líka að koma honum í hendurnar á þeim sem lágu á flekanum. Síðan horfði hann stundarkorn á yfirfullan flekann, höfuð hans vaggaði í sjónum næstum í friðsæld. Svo synti hann í burtu og leit ekki við. Hann var kominn kannski hundrað metra þegar kuldinn yfirbugaði hann. Ég sá hann reka eitthvert út í buskann á meðan við fjarlægðumst.

Einn náungi reyndi að halda félaga sínum á floti og hrópaði örvæntingarfullur á okkur að koma til hjálpar. Við gátum ekkert gert. Máttum ekkert gera. Hann virtist halda að félaginn væri meðvitundarlaus en við sáum að hálft andlit hans var horfið.

Þegar kvöldaði kváðu hvarvetna við sprengingar. Nær og fjær. Eldar lýstu himininn og lituðu hafið. Innan um brakið glitti í rauð ljós í sjónum, litlar týrur sem loguðu í björgunarvestunum. Eitt andartak fékk ég svipaða ónotatilfinningu og áður; að veröldin lægi á röngunni. Að ég væri að horfa á blóðrauðar stjörnuþyrpingar breiðast yfir himin á hvolfi. Einsog við ragnarök.

Þennan dag sökktu þýsku flugvélarnar sex skipum og þýsku kafbátarnir sex skipum.

Stund milli stríða.
Stund milli stríða.

14

Eftir því sem loftárásunum fjölgaði jókst ótti manna við að fara niður í lest til að sækja skotfæri. Ef þeir væru staddir þar þegar sprengja hæfði skipið voru þeir dauðadæmdir.

„Við förum ekki niður,” sögðu tveir hásetar næsta dag. „Ekki að ræða það.” Foringi skyttuhópsins, ungur maður að nafni Carter sem var jafn akkúrat og reglustika og leit út einsog snurfusuð hetja í stríðsmynd, tók leiftursnöggt upp skammbyssu.

„Hverjir neita að fara niður í lest?” spurði hann og horfði í kringum sig með vopnið á lofti. Enginn sagði orð. Eftir það fóru menn möglunarlaust niður, en hræðslan skein áfram úr augunum.

Við stóðum vörð við byssurnar allan sólarhringinn. Ég var örþreyttur, varla með réttu ráði. Sama máli gegndi um aðra. Við höfðum vakað sleitulaust sólarhringum saman og vorum orðnir aðframkomnir af svefnleysi. Blautir og ískaldir. Þömbuðum kaffi til að halda okkur gangandi og fá hita í kroppinn, en það var farið að bragðast einsog tjara.

Stöðugt bárust fréttir af skipum sem búið var að sökkva eða voru að sökkva. Á bylgjulengd kaupskipanna barst hvert neyðarkallið af öðru. „Fjöldi flugvéla að sprengja okkur.” “Erum að yfirgefa skipið.” “Sex kafbátar á yfirborðinu á leið til okkar.” „Við erum brennandi í ísnum.”

15

Skipstjórinn með fölbláu augun sigldi að ísnum og skipaði áhöfninni að mála Ironclad hvítan. Við höfðum nóg af hvítri málningu. Allir kepptust við að mála, yfirmenn sem undirmenn. Lökin voru rifin af kojunum, breidd yfir kassana á þilfarinu og hengd fyrir kýraugun. Þau bylgjuðust og flöksuðust í kulinu svo að skipið líktist konu í hvítum kjól á bjargbrún.

Þegar við sigldum inn í ísinn lagðist hvít þoka yfir. Við misstum sjónar af öðrum skipum. Heyrðum bara skelfilegt urrið í flugvélum á lofti, að leita að okkur til að drepa. Stundum flugu þær mjög lágt en þokan var svo þétt og nýmálað skipið rann svo vel saman við þokuna og ísinn að flugmennirnir komu ekki auga á okkur.

Við mjökuðumst áfram. Ironclad læddist meðfram ísbreiðunni hulið þoku og snjókófi einsog eitthvert draugaskip. Við vissum ekkert hvar við vorum eða hvert við værum að fara. Tímaskynið afbakaðist allt.

Snjórinn krapaði, fraus síðan á hliðunum og þokaði sér lengra. Ironclad var drekkhlaðið og hvert tonn af klaka og ís sem hlóðst á það til viðbótar farminum stefndi okkur í sífellt meiri háska. Ísinn afskræmdi lögun skipsins, léði því fjarstæðukenndan svip einhverjar forsögulegrar skepnu.

Við stóðum tímunum saman úti á þilfari og börðum hann af í kappi við tímann og dauðann, dökkir og þungbúnir skuggar, bölvandi og hríðskjálfandi af kulda. Vopnaðir hömrum, kúbeinum, rörum, skóflum og raunar hverju því verkfæri sem gat brotið klakann sem safnaðist ógnarhratt á alla fleti og óf sig utan um skipið einsog kyrkislanga.

Á vakt úti á dekki titraði ég einsog hrísla undir ullarteppi og glápti dáleiddur á snjóflygsur falla hljóðlaust, svífandi og leikandi léttar, fullkomin andstæða banvænna sprengjanna sem við þekktum orðið alltof vel. Við minnsta hljóð kipptist ég við og fékk hnút í magann.

Ég vissi að ef við þyrftum að fara í björgunarbátana og byltast lengi á sjónum myndi hungrið og kuldinn fyrr eða síðar svipta okkur líkamlegri og andlegri heilsu. Augnlokin myndu klakast og andlitin yrðu gráföl, ótvírætt merki þess að kalið væri að ná undirtökunum. Ég hugsaði um þetta fram og til baka, var orðinn skipreika í huganum.

16

Sálarástandið um borð hríðversnaði með hverjum deginum. Ég fór að veita athygli vaxandi geðveiki á meðal skipverja. Menn að kjökra allan daginn eða hvísla einhverju að sjálfum sér. Við hinir stóðum þöglir við byssurnar eða hölluðum okkur að köldum rúðunum og mændum út í þennan gráhvíta vegg án þess að sjá nokkurn skapaðan hlut. Ísþokan sem umlukti skipið sefaði ekki áhyggjur okkar, veitti enga von. Við gátum bæði rekist á ísjaka og skip. Hraðinn var svo lítill að Ironclad lét illa að stjórn. Fleiri skip voru að kljást við sama vandann. Stundum heyrðum við skip senda út Morse-stafinn D, sem þýddi að erfitt væri að stýra. Það gladdi okkur að heyra lífsmark en um leið jókst hættan á að þau skyllu á okkur.

Áhöfnin spilaði flest kvöld til að drepa tímann og gleyma sér stundarkorn. Járnskrúfur í tvennum stærðum voru notaðar fyrir spilapeninga. Litla stærðin jafngilti einum dollara, sú stærri tíu dollurum. Menn lögðu eftirvinnutímana sína undir.

Aðeins einn af Íslendingunum spilaði. Við hinir fylgdumst með eða dormuðum í koju. Honum hafði gengið illa lengi, var búinn að tapa næstum allri eftirvinnunni og gat þess vegna ekki spilað nema eitt kvöld í viku.

Síðasta kvöldið hans í spilamennskunni bauðst ég til að hjálpa honum. Ég sat uppi á borði bakvið spilaborðið og gat oft séð hvað andstæðingar hans höfðu á hendi.

„Ef ég set sígarettuna í vinstra munnvikið eru þeir með léleg spil,” sagði ég við hann. „Ef ég set hana í hægra munnvikið skaltu gæta þín.”

Honum gekk vel að spila það kvöld og vann marga eftirvinnutíma til baka.

Um klukkan eitt um nóttina varð ég að fara að sofa og sagði honum að nú skyldi hann ekki spila meira en eitt eða tvö spil til viðbótar og ekki leggja mikið undir.

Ég steig út á myrkvað dekkið til að fá mér ferskt loft fyrir háttinn, en þá réðust tveir menn á mig. Þeir höfðu grunað mig um svindl hálft kvöldið og beðið eftir mér. Þeir drógu mig út að borðstokknum og ætluðu að henda mér fyrir borð. Annar þeirra var Lordinn. Ég kastaði mér niður á dekkið og náði dauðahaldi á vír sem strekktur var í einn skriðdrekann.

„Jæja íslenski djöfull,” hvæsti Lordinn og byrjaði að traðka á höndunum á mér. „Nú færðu að hitta guð.”

Ég byrjaði að öskra. Fyrst bara á hjálp en síðan á Cruz vin minn, akróbatann frá Puerto Rico. Hann stökk út nokkrum andartökum síðar og sveiflaði glampandi hnífnum einsog hljómleikastjóri tónsprota.

„Ég sker ykkur í tætlur druslurnar ykkar,” öskraði hann. „Putas!”

Árásarmennirnir tveir hurfu hljóðlaust út í myrkrið. Daginn eftir mætti ég báðum margoft en allir létu einsog ekkert hefði gerst.

Útlistun listamanns á hildarleiknum sem PQ-17 skipalestin stóð frammi fyrir.
Útlistun listamanns á hildarleiknum sem PQ-17 skipalestin stóð frammi fyrir.

17

Við lónuðum í ísnum í næstum þrjár vikur. Eitt kvöldið stillti einhver útvarpið á fréttaútsendingu frá Berlín. Þjóðverjar sögðust hafa gjöreytt allri skipalestinni. Það ríkti bann við að nota talstöðina nema í neyð og útilokað að sannreyna eða hrekja þessar fullyrðingar í þokunni. Kannski vorum við eina skipið sem var eftir.

Við sátum tveir á spjalli niður í messa þegar roknahögg kom á skipið. Það tók heljardýfu. Við hlupum strax upp og út. Ég slengdist eftir dekkinu og hrökk næstum fyrir borð. Rétt tókst að grípa í kaðalspotta á seinustu stundu. Öskrandi menn hlupu um og spurðu hvort að sprengja hefði lent á okkur? Ég hugsaði einsog svo oft áður um allt sprengiefnið í framlestinni og átti von á því versta. Brytinn stormaði út á dekk, ofsahræddur og svo viss um að við værum að fara að sökkva að hann byrjaði að klífa mastrið.

En skýringin kom brátt í ljós. Eitt af skipunum í lestinni hafði líka haldið inn í ísinn og rekist á okkur í myrkrinu og þokunni. Höggið kom á mitt skipið og það valt fram og aftur einsog kólfur í klukku. En það hélst upprétt og enginn leki hafði komið að því við áreksturinn. Allt var hins vegar á rúi og stúi. Við eyddum næstu dögum í að raða hlutum og sópa saman því sem hafði brotnað. Skipið sem sigldi á okkur hélt áfram út í þokuna án þess að þaðan kæmi aukatekið orð. Við sáum það ekki fyrr en löngu seinna.

18

Einn daginn létti þokunni. Við gátum meira að segja grillt í land. Sovéskur eyjaklasi, sagði skipstjórinn okkur, Novaya Zemlya. Við sigldum suður með stærstu eyjunni, geysistóru eyðilegu flæmi, og rákumst á nokkur skipanna úr lestinni. Þau höfðu líka falið sig í ísnum.

Við héldum hópinn og sigldum áfram. Við komum auga á mannvirki í landi þar sem eyjan skarst í sundur og það var ákveðið að senda bát í land til að kanna málið. Skipin fyrir utan mynduðu hálfhring til að verja bátinn ef á okkur yrði ráðist, allar byssur hlaðnar og menn settir í skriðdrekanna. Þegar komið var í fjöruna kom maður hlaupandi á móti þeim.

Hann kunni bara rússnesku en eftir mikið handapat og bendingar skildu menn hvern annan nægjanlega vel. Þarna höfðust við sautján Rússar. Þeir sendu skeyti til meginlandsins og óskuðu eftir aðstoð. Eftir að við höfðum beðið þarna í nokkra daga birtust tvær rússneskar korvettur.

Rússarnir tilkynntu okkur að það væru breskir tundurspillar á leiðinni til að fylgja okkur til Arkanangelsk. Við sigldum til móts við Bretana með korvetturnar okkur við hlið.

Við vorum nýkomnir af stað þegar sást í flugvél. Hún er þýsk, sögðu Rússarnir, skjótið! Skipin skutu allt hvað þau gátu en vélin hélt sig hátt á lofti.

Næsta dag birtust sex þýskar vélar. Við áttum von á þessari heimsókn. Við hlóðum byssur skriðdrekanna og þegar vélarnar lækkuðu flugið hófst gríðarleg skothríð úr byssum skipanna og skriðdrekanna. Þær hækkuðu hratt flugið og létu sig hverfa.

Einn daginn strandaði Ironclad. Öllum var skipað að yfirgefa skipið vegna sprengjuhættu. Önnur rússneska korvettan kom siglandi og við hópuðumst um borð í hana. Moore skipstjóri þráaðist hins vegar við og tókst einhvern veginn að losa skipið. VIð sigldum áfram til Arkangelsk.

Kafbátur gerði okkur fyrirsát í Hvítahafinu. Önnur korvettan sigldi fram og til baka einsog óður svartbakur, þvers og kruss, og byrjaði að kasta út djúpsprengjum. Stuttu seinna rak olía og brak upp á yfirborðið. Við önduðum léttar.

Í Arkangelsk fengum við loks að vita hvernig lestinni hafði reitt af. Aðeins ellefu flutningaskip höfðu þraukað, öllum hinum hafði verið sökkt. Um hundrað og fimmtíu sjómenn höfðu farist.

19

Við tók löng bið. Skipstjórinn hafði loks tapað kjarkinum fullkomlega. Hann strandaði skipinu fimm sinnum, missti viljandi af skipalestum sem við áttum að fara með heim, þóttist ekki hafa fengið skipanir um brottför. Hann þorði ekki að sigla til baka.

Þegar vetraði og styttist í að siglingarleiðin um Hvítahaf lokaðist að fullu sendu Rússanir togara til að lóðsa okkur til betri hafnar. Togarinn sigldi á undan okkar í niðamyrkri og éljagangi með aðeins eitt ljós hangandi í mastrinu. Það blikkaði okkur dauflega einsog blint auga. Við vorum hálfnaðir þegar skipstjórinn vildi snúa við.

„Veðrið er of vont,” sagði hann, tók af sér knapahúfuna og strauk hárið skjálfandi höndum. Það var orðið alhvítt.

Áhöfnin mótmælti einróma. Þjarkið endaði með því að skipstjórinn keyrði skipinu afturábak upp í skerjagarðinn, vísvitandi. Það sat pikkfast í þrjár vikur. Þá var það dregið inn á höfnina í þunglyndislegum bæ sem hét Molotovsk, bær sem minnti mig einhvern veginn á dapran og einmana hrossagauk. Þar átti það eftir að sökkva. Lukka skips númer 13 var á þrotum.

20

Vistin í Molotovsk reyndi á þolrifin. Vikurnar mjökuðust áfram. Við vorum allir orðnir úttaugaðir, þreyttir á aðgerðarleysinu og sísvangir því að matarbirgðarnar voru á þrotum. Við fengum naumt skammtaðan mat úr landi. Yfirleitt óæti sem æsti bara upp hungrið og bætti í skapvonskuna. Þegar minnst var af mat hvarf hungurtilfinningin næstum alveg. Kvalirnar hurfu, aðeins þungur verkur í maga. Það var jafnvel verra að borða.

Og við vorum alltaf með varann á okkur; með hraðan hjartslátt og gjóandi flöktandi augum til himna þegar það var flugveður.

Við fengum yfirleitt ekki landgönguleyfi. Nokkrir reyndu að strjúka en rússneska lögreglan kom með þá aftur. Áhöfnin fór að lokum í verkfall til að heimta betri kost og fá að flytjast í land. Yfirboðurum okkar virtist hins vegar standa á slétt sama - verkefnin voru hvort sem er svo fá. Mikilvægasta auðvitað að manna dælurnar því að það sytraði inn sjór eftir öll ströndin. Skipið hálfsökk í höfninni skömmu fyrir jól.

Á aðfangadag hjó ég niður lestarborð í eldinn fyrir skipstjórann og fékk að launum landgönguleyfi. Leyfið var samt hálfgerð hefndargjöf; það var búið að brjóta ísinn allt í kringum skipið og bæði erfitt og hættulegt að komast í land. Ég ákvað samt að reyna jakahlaup, það var allt til þess vinnandi að komast í burtu.

Benny bátsmaður kvaddi mig við ísilagðan borðstokkinn. Veglegur skallinn nú hulinn undir loðhúfu sem hann hafði fengið í bænum í skiptum fyrir sjóstígvél. Hann sá strax á mér að ég ætlaði ekki að koma til baka.

„Það leynir sér ekki á svipnum að þú ert dauðfeginn að losna við dallinn,” sagði hann og brosti. „Ég skil það fjandi vel.”

„Já … Veistu …” Ég hikaði í leit að réttu orðunum. „Mér líður einsog það séu jól.”

„Hvað meinarðu?” spurði hann undrandi. „Það eru jól!”

„Ég veit,” sagði ég. „En mér líður einsog það séu jól. Eitthvað sem ég hef ekki fundið í mörg ár.”

Hann pírði á mig augum og ég átti von á kaldhæðnu glotti, en hann kinkaði kolli einsog hann skildi.

„Já. Þegar maður hefur lifað af svona helvíti þá eru jól. Meira að segja gleðileg. Þrátt fyrir allt.”

Ég tók í krumluna á honum, renndi mér niður kaðalstigann og tók að stökkva á mili ísjakanna. Vonandi beið mín jólamatur einhvers staðar í klakabrynjuðum bænum; svart rúgbrauð, súpudiskur og kannski hélað vodkastaup ef heppnin var með mér.