Á árunum 1986 til 1994 voru teikningar eftir Gísla J. Ástþórsson fastur liður í Fiskifréttum, en áður höfðu teikningar hans birst í Sjávarfréttum, forvera Fiskifrétta.

Í Fiskifréttum birtust teikningar Gísla undir yfirskriftinni Skin og skúrir við sjávarsíðuna, en þekktasta persóna Gísla, sjálf Sigga Vigga, var reyndar fjarri góðu gamni. Viðfangsefnið var samt af sama tagi: Raunveruleiki fiskverkafólks og útgerðar birtist þar í skoplegu ljósi, gjarnan með hvössum ádeilutóni sem ekki fór framhjá neinum.

Gísli J. Ástþórsson, blaðamaður og skopteiknari. Aðsend mynd.
Gísli J. Ástþórsson, blaðamaður og skopteiknari. Aðsend mynd.

Þessar myndasögur Gísla eru að mörgu leyti einstakar og áttu sér stóran og tryggan lesendahóp. Hér getur að líta fáeinar af teikningum Gísla sem birtust í Fiskifréttum, ásamt sýnishorni af því sem birtist eftir hann á öðrum vettvangi.

Ekki beint skrítlur

„Hann var ekkert alltaf að reita af sér brandarana. Hann var alls ekki þannig,“ segir sonur hans, Ástþór Gíslason fiskifræðingur. „Hann var eiginlega frekar svona alvarlegur, hann pabbi, og melankólskur. Hann fór ekki í gegnum lífið alltaf segjandi brandara. Og hann leit nú ekki á Siggu Viggu og annað beint sem skrítlur heldur frekar sem kommenta á þjóðfélagið í kringum sig. Hann var heldur ekkert mikið að flíka því sem hann var að gera. Hann var oft að teikna og oft að skrifa. Maður ólst upp við glamur í ritvél, en hann var ekkert mikið að setja okkur inn í það hvað eða fyrir hvern það var.“

Hundrað ár voru liðin frá fæðingu Gísla J. Ástþórssonar þann 5. apríl síðastliðinn og af því tilefni hafa allar bækurnar um Siggu Viggu verið endurútgefnar í myndskreyttri öskju. Gísli lést árið 2011.

Fjölhæfur listamaður

Sögurnar um Siggu Viggu voru þekktastar af teiknimyndum Gísla. Þær birtust fyrst í Alþýðublaðinu og svo í Morgunblaðinu. Einnig teiknaði Gísli ádeiluseríuna Þankastrik, sem birtist fyrst í Morgunblaðinu en hann teiknaði einnig mikið fyrir önnur blöð og tímarit. Hann myndskreytti dagatöl, bæklinga og auglýsingar, teiknaði tækifæriskort og myndagátur og leyndi sér hvergi handbragðið og húmorinn.

Hann var frumkvöðull í íslenskri blaðamennsku, beitti sér fyrir breytingum á umbroti og lagði áherslu á hnitmiðaðan fréttaflutning óháðan flokkspólitík. Gísli lauk prófi í blaðamennsku frá háskóla í Bandaríkjunum árið 1945 og var fyrsti Íslendingurinn með menntun í því fagi. Eftir Gísla liggja einnig skáldsögur, smásögur, barnabók, leikrit og útvarpsþættir, auk myndasagnanna sem birtust bæði í blöðum og bókum.

Gísli starfaði sem blaðamaður á Morgunblaðinu á árunum 1946 til 1951, og aftur frá árinu 1973 þangað til hann fór á eftirlaun. Hann var ritstjóri Vikunnar 1951 til 1958, og síðan ritstjóri Alþýðublaðsins til 1963. Um tíma var hann dagskrárfulltrúi á Ríkisútvarpinu og síðar kennari.

Bylting í fjölmiðlun

Í fjölmiðla sögu Guðjóns Friðrikssonar sagnfræðings, Nýjustu fréttir, sem  kom út árið 2000 segir svo um Gísla:

„Endurreisn og sókn Alþýðublaðsins hófst fyrir alvöru er Gísli J. Ástþórsson var ráðinn ritstjóri 1. september 1958, en fyrir var Helgi Sæmundsson á ritstjórastóli. Gísli setti þau skilyrði er hann var ráðinn ritstjóri Alþýðublaðsins, að hann fengi frjálsar hendur, en hann var óflokksbundinn og vildi stunda „harða“ og óháða fréttamennsku eins og hún gerðist erlendis.“

Ennfremur: „Bylting hans var fólgin í tvennu. Honum tókst annars vegar að brjótast út úr hinni pólitísku herkví í fréttaflutningi og hins vegar gjörbreytti hann útliti Alþýðublaðsins þannig að það líktist ensku „tabloid“-blöðunum, svo sem „Daily Mirror.“