Blængur NK var á heimstími og verið að þrífa og snurfusa allt um borð þegar slegið var á þráðinn til Bjarna Ólafs Hjálmarssonar skipstjóra. Hann var að vonum sáttur enda aldrei fengist jafn mikil aflaverðmæti í einum túr í íslenskri lögsögu.

Þeir hafa haldið sig mest á Vestfjarðamiðum. Þar er að finna þessa blöndu tegunda sem sóst er eftir, þ.e. karfi og ufsi og aðrar tegundir slæðast með. Á Halamiðum höfðu þeir félagsskap af tignarlegum borgarísjaka í brakandi blíðunni sem þarna var. Bjarni sagði að það hefði verið logn dag eftir dag á Halamiðum sem er einstakt á þessum slóðum og mikil umskipti frá túrnum þar á undan þegar leiðindaveður var nánast allan tímann.

Vandi að ná ufsanum

„Kvótaárið hefur verið ágætt en það þá helst ufsinn sem hefur verið vandræði að ná. Það hefur gengið ágætlega að ná grálúðu en það sama verður ekki sagt um ufsann. Við erum búnir með aðrar tegundir en það verður eitthvað af ufsa sem brennur úti,“ sagði Bjarni og var fremur ósáttur við það enda verð á ufsa aldrei verið hærra. Verð á öðrum tegundum sé líka himinhátt.

Bjarni segir samdrátt í þorskkvóta á næsta kvótaári áhyggjuefni og ekki síður vegna mikillar karfagengdar. Karfaveiðin aukist stöðugt en þorskkvótinn minnki og vandamál sé að komast í þorsk án þess að karfi fylgi með. Kvóti í gullkarfa sé of lítill miðað við útbreiðsluna og minnki þar til viðbótar úr tæpum 32 þúsund tonnum í rúm 25 þúsund tonn á kvótaárinu.

„Á Vestfjarðamiðum og á Halanum eru vandræði oft á tíðum út af miklum karfa á vissum árstíma. Við myndum vilja fá að taka meira af karfanum bara sem meðafla svo hægt sé að sækja í aðrar tegundir. Við höfum legið á Halanum núna til að reyna að veiða ufsa og allan tímann þurft að forðast að lenda í karfa. Hann er gjarnan á sama stað og ufsi, líka í Skerjadýpi og Víkurál, og erfitt að komast hjá því að veiða hann. Það gæti því orðið snúið að koma þessu öllu heim og saman á næsta kvótaári,“ segir Bjarni.

Bjarni Ólafur Hjálmarsson, skipstjóri á Blæng. Mynd/Þorgeir Baldursson.
Bjarni Ólafur Hjálmarsson, skipstjóri á Blæng. Mynd/Þorgeir Baldursson.

Mestu aflaverðmæti á Íslandsmiðum

Þetta kemur heim og saman við tölur um gang veiða. Í gær hafði 99% þorskkvótans náðst, og allur ýsu- og karfakvótinni en eftir átti að veiða 36% ufsakvótans. „Það er himinhátt verð á ufsa núna. Við höfum aldrei séð svona hátt verð,“ segir Bjarni.

Blængur setti í síðasta túrnum met í aflaverðmætum á Íslandsmiðum. Alls fiskaðist fyrir 437 milljónir króna en það nær þó ekki mesta aflaverðmæti úr Barentshafinu, að sögn Bjarna. Ólíkt öðrum skipum er aflaverðmæti úr Blæng reiknað út á Fob-verði og er það heldur meira ef miðað er við Cif-verð.

Blængur heldur strax til veiða á nýju kvótaári á morgun með hinni áhöfninni.