Verðmæti útfluttra sjávarafurða til Frakklands fyrstu 11 mánuði síðasta árs var tæpir 39 milljarðar króna sem er 21% aukning frá fyrra ári í evrum.

Þetta kemur meðal annars fram í samantekt Radarsins þar sem segir að hlutdeild Frakklands í útflutningsverðmætum sjávarafurða hafi verið 14,4% fyrstu ellefu mánuði ársins 2021.

Fluttar voru út sjávarafurðir til Frakklands á þessum ellefu mánuðum fyrir 39 milljarða króna sem var 18% aukning í íslenskum krónum miðað við fyrstu ellefu mánuðina 2020. Þar af var verðmæti botnfiskafurða 37 milljarðar króna sem var 21% af heildarverðmæti útfluttra botnfiskafurða á tímabilinu.

Bretar eru núna önnur stærsta viðskiptaþjóð Íslendinga með botnfisk með rúmlega 17% hlutdeild af útflutningsverðmætum, Bandaríkin með 12% og Spánn 10%.

60% af heildarveltunni

Eitt þeirra sölufyrirtækja sem er stórt á Frakklandsmarkaði er Stormar. Hjalti Vignisson framkvæmdastjóri segir ekki nóg að líta eingöngu til magnaukningar í Frakklandi heldur verði einnig að hafa í huga að þangað fari verðmætustu afurðirnar.

Stormar var stofnað fyrir rúmu einu ári og er sölufyrirtæki í eigu Brims, Gjögurs, Ísfélags Vestmannaeyja og Skinneyjar-Þinganess. Stormar eiga samnefnt dótturfélag í Frakklandi sem var stofnað á sínum tíma af Skinney-Þinganes. Hlutverk Storma á Íslandi og í Frakklandi er að selja hvítfisk fyrir eigendur sína.

„Við erum að flytja út tugi tonna á hverri viku af ferskum fiski til Frakklands. Í ferska fiskinum eru þetta hnakkar og flök og einnig seljum við frysta bita og sporða sem fara meira inn á markaðina í Bretlandi og Bandaríkjunum,“ segir Hjalti. Einnig flytja Stormar út ferskan fisk til Bandaríkjanna. Útflutningur til Frakklands var á síðasta ári um 60% af heildarveltu Storma.

Frakkar kaupa dýrasta hlutann af flakinu sem er hnakkinn. Verðið er nánast alltaf í tveggja stafa tölu í evrum fyrir kílóið. Sporðar og aðrir bitar sem eru hluti af bakflakinu er ódýrari vara. Hjalti segir að verð á Frakklandsmarkaði sveiflist þó talsvert og ráðist mikið af framboði frá Íslandi og öðrum löndum. Það hafi til að mynda talsverð áhrif á verð þegar Norðmenn hefja sína vertíð um þetta leyti árs sem stendur fram í miðjan apríl. Utan þess tíma hefur tekist að halda verðinu jöfnu og góðu. Norðmenn veiði óhemjumagn á skömmum tíma og það brengli mjög markaðinn.

Verðmætin eftir að aukast

Hjalti segir að mikilvægi markaðanna hafi breyst með tilkomu nýrrar vinnslutækni hér innanlands eins og vatnskurðarvéla. Nú sé fiskurinn nánast klæðskerasniðinn fyrir sérhvern kaupanda sem hafi leitt til hærri verða, sérstaklega á Frakklandsmarkaði.

Hjalti segir að áður en veirufaraldurinn tók yfir heimsbyggðina hafi hlutfall fersks fisks sem fór inn á stórmarkaði í Frakklandi verið nálægt 50% og annað hafi farið til heildsala sem sinna meðal annars veitingahúsum. Þetta skiptir máli vegna þess að hærra verð hefur fengist fyrir afurðir fyrir veitingahúsamarkaðinn en stórmarkaðina. Strax á fyrstu vikum faraldursins dró mjög úr sölu til heildsala og langstærstur hluti útflutningsins var til stórmarkaða. Þegar leið á faraldurinn fóru veitingahús að opna á ný og salan til þeirra samhliða. Á síðasta ári fór þó 70-80% vörunnar til stórmarkaða.

„Ég býst þó við að það sveiflist aftur nær fyrra horfi innan tíðar samfara minni takmörkunum víða um heim. Frakkland er stórt land og við höfum reynt að beina viðskiptum til fárra heildsala í stærri borgunum og byggja um leið upp góð samskipti við stórmarkaðina,“ segir Hjalti.