Upp úr síðustu aldamótum var Guðmundur staddur í Malasíu þegar bróðir hans hafði samband við hann og sagði honum frá því að verið væri að auglýsa eftir hafnarstjóra á Ísafirði. Það væri kjörið djobb fyrir hann.

„Ég henti svo inn umsókn bara í bríaríi. Þekkti þá engar persónur eða leikendur í pólitíkinni hér á Ísafirði. Lagði inn umsókn og fór eitthvað tvisvar í símaviðtal, við bæjarstjórann of hafnarstjórn.“

Bæjarstjóri var þá Halldór Halldórsson og formaður hafnarstjórnar var Ragnheiður Hákonardóttir.

„Svo hefur Halldór bæjarstjóri samband við mig og segir: Þú getur fengið starfið ef þú kærir þig um. Ég bað um tveggja daga frest til þess að hugsa málið.“

Nokkru síðar var Guðmundur mættur til Ísafjarðar og tók við stöðunni sem hann hefur nú gegnt í rúmlega tvo áratugi.

„Síðasti vinnudagur er gamlársdagur, ef ég nenni ofan eftir,“ segir hann, en tekur fram að sér hafi alltaf þótt gaman í vinnunni. „Mér hefur liðið vel hérna. Það hefur verið fullt af áskorunum og líka tækifærum.“

Kvótinn var farinn

Ísafjarðarhöfn hafði verið í viðvarandi taprekstri þegar Guðmundur tók við henni.

„Kvótinn var farinn og það var búið að minnka hér fiskveiðar. Á þessum tíma er Guggan farin, sem var auðvitað stór skellur fyrir höfnina. Eimskip og Samskip hætta fljótlega að sigla hingað, þannig að tekjurnar voru á niðurleið og reksturinn var virkilega erfiður hérna fyrstu árin.“

Hann segist þó alls ekki sjá eftir því að hafa tekið þetta verkefni að sér.

„Það var mér bara heilladrjúg ákvörðun að koma heim, en þetta er eitthvað sem ég hafði aldrei gert. Uppleggið með því að ég var ráðinn hérna var að að kanna hvort það væri möguleiki á að fá skemmtiferðaskip til að koma hérna við. Hafnarstjórn Ísafjarðarbæjar var búin að ákveða það, og forveri minn Hermann Skúlason, var byrjaður að kanna málið. Hafnarstjórn og bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar ákveða það með minni ráðningu að setja meira púður í það.“

Guðmundur hafnarstjóri á skrifstofunni. FF MYND/Guðsteinn
Guðmundur hafnarstjóri á skrifstofunni. FF MYND/Guðsteinn
© Guðsteinn Bjarnason ([email protected])

Ráðstefnuferðir

Nýi hafnarsjórinn fór því fljótlega að sækja alþjóðlegar ráðstefnur stóru skipafélaganna sem gera út skemmtiferðaskipin.

„Það tekst bara ágætlega strax. Þetta snýst mikið um að fara á þessar ráðstefnur þar sem þú kynnist fólkinu sem ræður þessu raunverulega. Þessi cruise heimur þó hann sé rosalega stór og mikill þá eru Þetta eru ekkert svo rosalega margir sem stjórna því hvernig skipin eru að sigla. Okkur hefur orðið ágætlega ágengt.“

Hann segir að þessi vinna hafi fljótlega farð að skila árangri. Þegar hann var að byrja höfðu eitt eða tvö skip verið að koma til Ísafjarðar á ár.

„Það var ekkert sérstaklega búið að markaðssetja þetta, nema Hermann var búinn að fara á eina eða tvær ráðstefnur til Bandaríkjanna. Ég fer svo bara í kjölfarið, og þá spilar líka með okkur að Norður-Evrópa er að koma sterk inn sem áhugaverður áfangastaður fyrir skemmtiferðaskip. Við erum landfræðilega mjög vel staðsettir, mitt á milli Reykjavíkur og Akureyrar. Skip höfðu verið að koma til Reykjavíkur og til Akureyrar. Skip sem fer að kvöldi til frá Reykjavík er þá komið hingað að morgni, svo önnur nótt til Akureyrar.“

Nýr kantur í vor

Upp úr þessu fór þetta vaxandi, segir Guðmundur. Ísafjörður hefur verið þriðja stærsta höfnin, en fleiri hafnir hafa bæst við umhverfis landið. Nú orðið kemur mikill meirihluti af tekjum hafnarinnar frá skemmtiferðaskipunum.

„Við erum að taka hérna inn á þrem fjórum mánuðum á ári megnið af okkar tekjum, af skemmtiferðaskipunum. Síðastliðin tíu ár höfum við verið að reka höfnina með ágætis afgangi. Það hefur gert okkur kleift að fjárfesta og við höfum borgað heilmikið niður okkar skuldir. Við vorum með rúmlega 200 milljónir af tekjum af skipunum í ár, það komu 118 skip til hafnar og það eru yfir 200 skip skráð fyrir næsta ár. Í eðlilegu árferði hafa verið svona plús mínus hundrað milljónir í hreinan hagnað á ári. Við erum búnir að vera að selja inn á nýja kantinn okkar og hann verður tilbúinn til að taka á móti skipum í vor. Út á það ganga öll okkar plön.“

Sjórinn heillaði

Guðmundur skilar því af sér góðu búi þegar hann hættir um áramótin.

„Ég er að komast á eftirlaunaaldur. Sem betur fer.“

Hann er fæddur og uppalinn Bolvíkingur og eins og fleiri þar í bæ byrjaði hann mjög ungur á sjó, fimmtán ára gamall, og átti farsælan sjómannsferil.

„Það byrjuðu allir snemma. Sjórinn átti alveg frá fyrsta degi mjög vel við mig. Það hefur aldrei háð mér að vera sjóveikur en ég hef séð margan góðan drenginn þjást mikið í því.“

Lengi vel var hann á bátunum í Bolungarvík, á línu og síðar á loðnu.

„Það var þegar Bolvíkingar byrjuðu á loðnunót á Hafrúnni, gömlu Eldborginni. Þeir keyptu hana og ég var stýrimaður þar með Lárusi Grímssyni skipstjóra. Síðan býðst mér pláss hérna á Guðbjarti, togara á Ísafirði, var stýrimaður þar í nokkur ár.“

Grænhöfðaeyjar

Meðan Guðmundur var stýrimaður á Guðbjarti bauðst honum að fara sem stýrimaður til Grænhöfðaeyja með Feng, skip þróunarstofnunar Íslands. Skipið var sérstaklega smíðað fyrir þetta verkefni, nýttist bæði sem veiðiskip og rannsóknaskip, og var notað til að þjálfa heimamenn.

„Ég fer þangað sem stýrimaður í fyrsta holli, síðan er það verkefni stokkað upp. Ég og Jens Andrésson sem var vélstjóri fórum í skóla í Lissabon í Portúgal í einn vetur. Við fórum síðan til Grænhöfðaeyja aftur og þá var ég orðinn skipstjóri og Jens var áfram vélstjóri. Við vorum við mikið í rannsóknum og kennslu og sjómælingum alls konar, ásamt því að vera í fiskveiðum.“

Um hafrannsóknirnar sáu hjónin Jakob Magnússon og Vilhelmína Vilhelmsdóttir, bæði fiskifræðingar frá Hafrannsóknastofnun, og þau stofnsettu á Grænhöfðaeyjum hafrannsóknastofnun sem starfar þar enn.

„Í framhaldinu smíðuðu Íslendingar sérútbúinn rannsóknarbát sem heitir Islandia, þannig að hann er þeirra rannsóknarskip.“

Með vinum á Capo Verde. Aðsend mynd
Með vinum á Capo Verde. Aðsend mynd
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Guðmundur hefur komið nokkrum sinnum til Grænhöfðaeyja eftir að þessu verkefni með Feng lauk, síðast árið 2019. Eftir að hann kemur heim aftur býðst honum skipstjórastarf hjá KEA, fyrst á Sólfellinu í átta ár, síðan á Súlnafelli og loks á Snæfelli.

„Sólfell var gamli Óli Magg, frægt aflaskip, og síðan kaupa þeir Súlnafell sem er Siglfirðingur gamli, fyrsti skuttogari Ísfirðinga, það var nýbúið að gera hann upp. Síðan er ég skipstjóri á Snæfellinu, sem er núna Hrafn Sveinbjarnarson, síðustu fjóra mánuðina sem KEA átti það skip. Þannig að ég klára það og fer svo aftur yfir á Súlnafell og er þar alveg þar til KEA selur útgerðina yfir til Samherja.“

Þau kaup voru gerð árið 1990 og Guðmundur varð atvinnulaus um hríð, en ekki þó lengi.

„Þá hefur Jóhann Jónsson, framkvæmdastjóri á Þórshöfn, samband og býður mér skipstjórapláss á Stakkfellinu. Ég var með Stakkfellið í tæp tvö ár, mest í úthafinu, í Smugu og vestur á Flæmingjagrunni. Og til að gera langa sögu stutta þá er mér boðið starf útgerðarstjóra hjá fyrirtæki nýstofnuðu af Granda og Kristjáni Guðmundssyni á Rifi, og Stefáni Þórarinssyni í Nýsi.“

Til Falklandseyja og Patagóníu

„Þeir voru að fara í útrás niður á Falklandseyjar, fóru þangað með Engey og Tjaldinn. Tjaldurinn á túnfiskveiðar og Engey á smokkfisk. Þetta var verkefni sem entist í rúmt ár, þá var því hætt. Þetta hefur verið 1995 eða eitthvað svoleiðis.“

Trefjabátarnir sex í Argentínu. Aðsend mynd
Trefjabátarnir sex í Argentínu. Aðsend mynd
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Eftir þetta bauðst honum að fara til Argentínu þar sem verkefnið var að þjálfa fiskimenn á bátum sem smíðaðir voru hjá Trefjum í Hafnarfirði.

„Árni Gíslason hafði komist á snoðir um eitthvað verkefni sem var að fara af stað á vegum ríkisstjórnar Argentínu, Alþjóðabankans og fylkisbankanum í Chubut-fylki í Patagóníu. Það voru smíðaðir sex bátar sem fóru til Argentínu, og ég var svona til að koma þeim af stað og þjálfa mannskap. Ég var þar alveg í eitt og hálft ár.“

Á Trefjabát um Evrópu

Næst var það Auðunn Óskarsson, eigandi bátasmiðjunnar Trefja, sem hafði samband við Guðmund.

„Í þessu sex báta verkefni fyrir Argentínu smíðaði hann sjö báta, þannig að sjöundi báturinn varð eftir hér heima. Trefjar í samstarfi við útflutningsráð og Borgarplast og DNG og Perkins-vélar, Stefán í Perkings, þeir taka sig saman um að fara í Evrópureisu á þessum bát. Auðunn fær mig í það að sigla bátnum á milli fiskihafna í Evrópu. Báturinn fór út með Brúarfossi til Rotterdam, var hífður bara beint í sjóinn þar og ég tók við honum þar.“

Bátnum sigldi hann yfir til Blankenberge í Belgíu þar sem verkefnið formlega hófst. Síðan þræddi hann fiskihafnir suður með Frakklandi, Spáni og Portúgal og báturinn var síðan til sýnis á heimssýningunni í Lissabon 1998. Eftir það sigldi hann bátnum norður til Bretlands og þaðan til Hollands, norður eftir Danmörku og yfir til Noregs alveg þar til komið var til Þrándheims í norðri.

„Hann var á sjávarútvegssýningu þar, og þegar því var lokið þá fór ég á honum til Shetlandseyja og svo með austurströnd Skotlands niður til Immingham.“

Oftast einn á ferð

Þetta varð því heljarmikil reisa, níu mánuðir í allt og oftast var Guðmundur einn á ferð. Tilgangurinn var að kynna trefjabátinn fyrir evrópskum útgerðum og fiskimönnum.

„Og þetta er upphafið að því að eftir þessa ferð hefur stór hluti framleiðslu Trefja núna í um 20 ár verið að smíða á erlendan markað.“

Þetta voru fyrstu Cleopötrubátarnir sem Trefjar framleiddu, Cleopatra 33, og óneitanlega töluvert frábrugðnir togurunum sem Guðmundur hafði áður mest verið á.

„Mín reynsla af því að vera á svona litlum bát og lenda í alls konar veðri þá hef ég alveg tröllatrú á þessum bátum. Enda engin tilviljun að þetta er vinsælasti báturinn á Íslandi, Kleópatran.“

Reyndu fyrir sér í Malasíu

Næst var komið að því að halda til Malasíu og Taílands með viðskiptasendinefnd á vegum útflutningsráðs.

„Fiskimálaráðuneytið í Malasíu hafði samþykkt að fá íslenskan sérfræðing til að taka út stöðuna í fiskveiðum í Malasíu. Þróunarsjóður sjávarútvegsins var þá að kaupa alla smábáta á landinu. Eina ferðina enn var verið að kaupa alla smábátasjómenn út úr rekstri, og þeir sátu uppi með heilan helling af bátum. Það átti að kanna hvort það væri markaður fyrir þessa báta þarna.“

Á sjó í Malasíu. Aðsend mynd
Á sjó í Malasíu. Aðsend mynd
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Þegar til kom reyndist ekki markaður fyrir þessa báta þar, en það var úti i Malasíu sem Guðmundur fékk boð um að verið væri að auglýsa eftir hafnarstjóra á Ísafirði, eins og sagt var frá hér að ofan.

Fjórar hafnir eru í Ísafjarðarbæ, auk Ísafjarðar eru þær á Þingeyri, Flateyri og Suðureyri. Sjálfur er Guðmundur þeirrar skoðunar að Þingeyri, Flateyri, Suðureyri og Ísafjörður ásamt Súðavík og Bolungarvík eigi að vera eitt samfélag.

„Þetta er eitt atvinnusvæði, og þó að ég sé Bolvíkingur þá segi ég að samfélagslega séð væri þetta best fyrir alla að þetta væri bara eitt byggðarlag.“

Togurum fækkar enn

Þótt skemmtiferðaskipin haldi að stórum hluta uppi rekstri hafnarinnar er togurum samt enn að fækka.

„Núna er enn einn togari farinn í brotajárn, Klakkur, sem hefur verið hérna heimatogari. Svo er búið að tilkynna að það á að leggja Stefni hérna um áramótin. Hraðfrystihúsið Gunnvör gaf út yfirlýsingu því til staðfestingar að niðurskurður á þorskkvóta væri ástæðan fyrir því að þeir gætu ekki gert út fleiri togara, og sameina kvótann á hin skipin. Þá eru bara tveir togarar eftir, Júlíus Geirmundsson og Páll Pálsson. Þetta er eitthvað sem höfnin getur voða lítil áhrif haft á, hvort hér er kvóti eða ekki kvóti. Það er náttúrlega háð því hvað fyrirtækin hérna gera, hvort þau bæta við sig kvóta eða selja. Við upplifuðum það til dæmis á Flateyri þegar Kambur fer þaðan. Þeir voru að landa þar einhverjum tíu þúsund tonnum á ári en á einni nóttu, þegar allt er selt, þá fór ársveiðin á Flateyri undir fimm þúsund tonn.“

Hann segir byggðarlögin alltaf búa við þetta óöryggi að kvótinn geti farið.

„Það er bara mjög sorglegt að það skuli ekki vera hægt einhvern veginn að festa þetta betur í byggðunum. Það eru alltof mörg þorp sem hafa liðið fyrir það að hafa misst aflaheimildir. Eitthvað kemur í staðinn á mörgum stöðum, en svo eru staðir sem bera þess aldrei bætur, bara eins og Flateyri og Þingeyri.

Víða á Vestfjörðum hefur laxeldi komið í staðinn fyrir kvótann sem fór, en Guðmundur segir sveitarfélögin sjálf ekki fá miklar tekjur af því. Síst af öllu Ísafjarðarbær.

„Það er ekkert sem kemur í land nema dauður lax. Þeir taka dauðan lax upp úr nótunum, fara með hann í land, svo kemur tankari og tekur þetta. Þetta er sett í formalín og geymt og svo er unnið úr þessu eitthvað prótein. Hingað til hefur þessu öllu verið slátrað í Bíldudal, en núna stendur til að þessu verði slátrað í Bolungarvík. Þannig að af öllum þessum náttúrulegu gæðum þá erum við innan Ísafjarðarbæjar ekki að njóta neins af þessum afrakstri.“

Hafnarstjórinn og skemmtiferðaskipin. Aðsend mynd
Hafnarstjórinn og skemmtiferðaskipin. Aðsend mynd
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Traustinu þakklátur

„Ég hef átt gott samstarf við alla þá bæjarstjóra sem hafa verið hérna þennan tíma sem ég hef verið. Og þakklátur því trausti sem Ísafjarðarbær hefur sýnt mér að stjórna höfninni hérna. Þetta hefur gengið vel, við höfum náð markmiðum okkar, því sem við höfum verið að stefna að, ég get ekki annað en verið mjög sáttur, og framtíðin er björt. Við erum að bóka skemmtiferðaskip þrjú fjögur ár fram í tímann og það er að bókast mjög vel. Við sjáum alveg það fram í tímann að það er vöxtur og stöðugleiki í því.“