Baader Skaginn 3X á Akranesi er gjaldþrota.
Þetta kemur meðal annars fram á vef Viðskiptablaðsins þar sem vitnað er til Facebookfærslu Vilhjálms Birgissonar, formanns Verkalýðsfélags Akraness, munu 128 starfsmenn missa vinnuna.
„Var að koma af fundi rétt í þessu en þessi fundur var vægast sagt gríðarlega erfiður en á þessum fundi tilkynntu forsvarsmenn hátæknifyrirtækisins Skaginn 3 X 128 starfsmönnum að fyrirtækið yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Þetta gjaldþrot þessa rótgróna fyrirtækis þýðir að 128 fjölskyldur missa lífsviðurværi sitt en um 100 af þessum 128 hafa búa hér á Akranesi og nágrenni en Skaginn 3 X er einn af stærstu vinnustöðunum hér á Akranesi. Rétt er að geta þess einnig að fjöldi afleiddra starfa tapast einnig samhliða þessu gjaldþroti,“ skrifar Vilhjálmur á Facebook.
Sagt frá verulegri óvissu í síðustu viku
Viðskiptablaðið greindi frá því í síðustu viku að veruleg óvissa ríkti um rekstrarhæfi Skagans 3X ef ekki tækist að afla viðbótarfjármagns.
„Til marks um slæma fjárhagsstöðu Skagans 3X var eigið fé félagsins neikvætt um 3,3 milljarða króna í lok síðasta árs.
Skaginn 3X velti 4,4 milljörðum króna á síðasta ári en árið áður nam velta félagsins rétt rúmlega 1 milljarði króna. Þess ber þó að geta að eins og fyrr segir voru þrjú dótturfélög sameinuð Skaganum 3X.
Þýska fyrirtækið Baader keypti 60% hlut í Skaganum 3X haustið 2020, af stofnandanum Ingólfi Árnasyni, og eignaðist félagið svo að fullu í febrúar 2022,“ segir á vb.is þar sem áfram er vitnað til færslu Vilhjálms Birgissonar á Facebook.
Hvalavertíðinni slátrað af „öfgafólki“
„Fyrir nokkrum dögum var möguleikum okkar á veiðum og vinnslu hvalaafurða á þessari vertíð slátrað með handónýttri og ólöglegri stjórnsýslu stjórnvalda og þrýstingi frá „öfgafólki“. Mitt mat er að núna sé komið nóg og nú verður eitthvað að gerast í atvinnumálum okkar Akurnesinga. Enda morgunljóst að ekkert sveitarfélag getur þrifist án þess að hafa sterkt og öflugt gjaldeyrisskapandi atvinnulíf en það er með slíkum störfum sem öll sveitafélög eflast og styrkjast,“ skrifar Vilhjálmur Birgisson.