„Sjósókn hefur ávallt verið það mikilvægur þáttur í okkar þjóðlífi að við megum ekki vanrækja þær heimildir sem við eigum um hana,“ segir Þór Magnússon, fyrrverandi Þjóðminjavörður. „Við þurfum kynna þær vel bæði fyrir núverandi íbúum landsins og öðrum, og svo komandi kynslóðum. Menn lifðu hér sjálfsþurftarbúskap alla tíð. Sjórinn gaf og menn höfðu ekki annað.“

Þór hlaut nýverið viðurkenningu frá frá Sambandi íslenskra sjóminjasafna fyrir framlag sitt til varðveislu sjóminja. Ásamt honum fengu þeir Hafliði Aðalsteinsson og Geir Hólm einnig viðurkenningu. Hafliði hefur lengi unnið ötullega að viðgerð og endurgerð eldri báta, en Geir var lengi vel safnstjóri Sjóminjasafns Austurlands á Eskifirði.

Þór var þjóðminjavörður á árunum 1968-2000 og var á þeim tíma á margan hátt brautryðjandi í varðveislu sjóminja og báta. Söfnin hér á landi höfðu ekki sinnt gömlum bátum svo heitið gæti en í tíð Þórs hófst markviss söfnun á þeim.

Hann segir að söfnin hafi flest einskorðað sig við að safna smærri hlutum, enda sjaldnast húsnæði eða aðstæður til þess að varðveita stóra gripi á borð við gamla báta og skip. Þó hafi það gerst á tíð Matthíasar Þórðarsonar, sem var Þjóðminjavörður á árunum 1908 til 1947, að farið var að huga nokkuð að sjóminjum.

Þrjú skip í safnið

„Árið 1939 fær hann til safnsins þrjú skip, en það voru jafnan kölluð skip sem voru sexæringar og stærri. Hitt voru bátar.“

Þessi þrjú skip eru hákarlaskipið Ófeigur í Ófeigsfirði, sem nú er í safninu á Reykjum í Hrútafirði, Engeyjarskipið sem var lengi til sýnis á Þjóðminjasafninu, og svo skip vestur á Eyrarbakka sem er varðveittur í safninu þar.

  • Engeyjarskipið, safngripur númer 15287, var lengi til sýnis í sjóminjadeild Þjóðminjasafns Íslands. MYND/Þjóðminjasafn Íslands

„Það voru ekki tök á því að koma þessum skipum í hús. Þau voru úti nema hvað það var smíðað bráðabirgðaskýli yfir Farsæl fyrir austan. Það var nú lélegt og eyðilagðist síðar. Þannig að þessi skip fóru býsna illa. Það var eiginlega ekki fyrr en safnið er sett upp hér í Þjóðminjasafnshúsinu nýja að þetta skip úr Engey var flutt hingað og var síðan til sýnis hérna lengi niðri í sjóminjadeildinni. Það er mjög fallegur og merkilegur gripur.“

Hann segir Ófeig hafa verið orðinn illa farinn en sómi sér nú mjög vel á Reykjum þar sem byggt var yfir hann sérstakt hús. Gert hefur verið við hann og endurnýjað það sem þurfti.

Einnig var gert við Farsæl á Eyrarbakka og hús byggt yfir hann þar á Sjóminjasafninu. Þjóðminjasafnið styrkti þá viðgerð og húsbyggingu, eftir að Sigurður Guðjónsson tók að sér að bjarga honum.

Bátar á hrakhólum

„Eftir þetta gerðist nú ekki mjög mikið í varðveislu sjóminja en þegar ég kom hingað að safninu þá fann ég dálítið til þess að þessi þáttur hafði orðið mikið útundan. Það var vitanlega vegna plássleysis og slíks, þannig að ég fór að reyna að afla til safnsins til að varðveita dálítið af gömlum bátum af ýmsum stærðum og gerðum og á ýmsum aldri.“

Aðallega voru það áraskip, en Þór segir að erfitt hafi verið að koma þeim inn í hús sem hefði verið nauðsynlegt til þess að verja þau skemmdum.

  • Tólfæringurinn Farsæll er á sýningu Sjóminjasafnsins á Eyrarbakka. Hann var lengi geymdur úti við á Eyrarbakka en Sigurður Guðjónsson skipstjóri bjargaði skipinu frá því að fúna alveg niður og byggði yfir það skýli. MYND/HMS

„Við reyndum þó um tíma að hafa gamla lélega geymslu suður á Bessastöðum. Við vorum með hænsnahús þar.“

Um tíma fékk Þjóðminjasafnið að geyma báta í hlöðunni í Viðey, en þar hafði stór hlaða verið reist í byrjun 20. aldar. Eftir að ríkið afhenti Reykjavíkurborg Viðey í tilefni af 200 ára afmæli borgarinnar var ráðist í miklar endurbætur á Viðeyjarstofu og þá þurfti Þjóðminjasafnið að flytja bátana þaðan.

„Sumum þeirra var þá komið fyrir á söfnum út um landið, en við fengum að byggja einfalt skýli hérna suður í Kópavogi. Það fékkst ekki að byggja hús en við fengum að byggja eins konar hjall með þaki yfir sem gat varið bátana.“

Eldur í Kópavogi

Það var svo í apríl 1993 sem eldur kom upp í þessari bátageymslu Þjóðminjasafnsins í Kópavogi. Alls urðu 18 bátar þar eldinum að bráð og var það mikið áfall í varðveislusögu íslenskra báta.

„Það voru krakkar sem fóru þarna inn og voru að leika sér með eld,“ segir Þór um þennan harmleik. „En hvað um það, það var reynt að fylla í skörðin og afla báta eins og þarna höfðu farið af ýmsum stærðum. Þegar safnið eignaðist hér nýjar geymslur og var flutt úr húsinu þá var einhverjum hægt að koma þar fyrir, en sumum var komið líka til annarra safna.“

Hann segir að því miður hafi þó sumir þeirra báta sem söfnin hér á landi eiga hafa varðveist illa.

„Þeir hafa staðið úti og fara þá mjög illa, eins og allir hlutir sem standa úti. Safngripi verður að geyma inni á safni eða í húsi og vandlega. Það er eiginlega ekki nema á Siglufirði þar sem hefur verið staðið óvenjulega myndarlega að málum. Þar hafa Siglfirðingar með Örlyg Kristfinnsson í fararbroddi sýnt alveg sérstakan dugnað í varðveislu báta.“

Ekki síst eru það stærri bátar og vélbáta sem varðveittir hafa verið á Siglufirði. Enn erfiðara sé að fást við slíka gripi en minni báta, en Þór segir Siglfirðinga hafa fengið góðan stuðning til þeirrar vinnu.

Þá nefnir Þór að vestur á Reykhólum hafi gamlir bátasmiðir varðveitt og gert við allnokkra báta af mikum myndarskap.

„Þar voru menn snilldarbátasmiðir alla tíð. Þeir þurftu mjög á bátum að halda til allra flutninga og ferða, því þar notuðu menn bátinn eins og menn notuðu hesta á landi. Ég vona bara að sú framkvæmd nái að blómstra.“

Hugsað til framtíðar

Þór segir að brennandi áhugi einstaklinga hafi jafnan ráðið miklu í því hvernig til hefur tekist, en ef vel ætti að vera ætti hið opinbera að standa í þessu varðveislustarfi.

„Vonir manna stóðu til þess að hér yrði komið upp almennilegu sjóminjasafni. Maður hugsaði alltaf til þess að í framtíðinni verði nú kannski hægt að bjarga ýmsu. Í framtíðinni myndu menn nú ráðast í það að byggja raunverulegt og vandað sjóminjasafn, og þá myndu þessir bátar margir hverjir, eða alla vega sumir hverjir, verða sýndir þar og varðveittir. Maður er alltaf að hugsa til framtíðarinnar.“

Hann segir að á þeim tíma þegar hann var sjálfur að reyna að útvega peninga til þess að koma hér upp sjóminjasafni, og reyndar samgöngusafni eða tæknisafni einnig, þá hafi orðið fátt um svör.

„Menn sögðu að hér yrði að fara í miklar viðgerðir á safnhúsinu, eins og var svo ráðist í síðar, og meðan það stæði fyrir dyrum yrði að leggja alla þá peninga sem til safnamála gætu farið í að gera við húsið hér og endurnýjað. Annað yrði að bíða í bili. Þannig skildi ég við það mál.“

Varðveita þarf sýnishorn

Bátar eru almennt það stórir og erfiðir gripi í varðveislu að Þór telur að varla verði nokkurn tímann hægt að varðveita hér mikinn fjöldi þeirra, en þeim mun mikilvægara sé að eiga sýnishorn af ýmsum stærðum og gerðum.

„Við vitum að bátar voru mismunandi eftir landshlutum. Austur í Skógum eru til dæmis varðveittir bátar með Sandalagi og hér er Engeyjarbátur varðveittur í safninu. Í Breiðafirðinum eru breiðfirskir bátar. Lagið fór eftir aðstæðum, bæði sjólagi og höfnum eða hafnleysum eins og austur á Söndunum. Þannig að fyrir mér vakti á sínum tíma að varðveita góð sýnishorn. Maður gerði sér auðvitað grein fyrir því að þetta yrði nú aldrei allt varðveitt til langrar framtíðar, en þetta var svona tilraun til að gera eitthvað.“

Tveir bátar með merka sögu, Sædis ÍS 67, sem er fjær á myndinni, og Tóti ÍS 10, eru nú geymdir á Byggðasafni Vestfjarða, Ísafirði. MYND/GB
Tveir bátar með merka sögu, Sædis ÍS 67, sem er fjær á myndinni, og Tóti ÍS 10, eru nú geymdir á Byggðasafni Vestfjarða, Ísafirði. MYND/GB

  • Tveir bátar með merka sögu, Sædís og Tóti, eru í eigu byggðasafnsins á Ísafirði. MYND/GB

Hann segir að bátar hafi alltaf þurft töluvert viðhald, eins og eðlilegt sé, og jafnvel hafi þurft að endursmíða þá að stórum hluta við og við.

„Það þurfti að skipta um byrðing og skipta um parta hér og þar, eftir því sem þetta gekk úr sér. En alltaf var þetta sami báturinn, þó það væri búið að endurnýja hann mörgum sinnum. Mér var til dæmis sagt um Ófeig að það mundi ekkert vera til í honum af upphaflegri smíði sem hann Jón Jónsson í Ávík gerði. Þetta er eins og mannslíkaminn sem manni er sagt að endurnýi sig sjö sinnum á ævinni, en sé þó alltaf sami maðurinn og sá sem fæddist – eins og ég – fyrir 84 árum.“

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

  • Kútter Sigurfari átti sér merka sögu hér við land og um tíma stóð til að varðveita hann og hafa til sýnis á Akranesi, en þar hefur hann verið geymdur utandyra þar sem hann hefur grotnað niður hægt og rólega. MYND/HAG