Íslenska þjóðin dáðist sem einn hugur að afreki Guðlaugs Friðþórssonar, sjómanns frá Vestmannaeyjum, þegar honum tókst með ótrúlegri þrautseigju að synda um sex kílómetra til lands í nístandi köldum sjó frá sökkvandi skipi 11. mars 1984. Guðlaugur var sá eini sem komst af slysið þegar Hellisey VE 503 sökk austur af Heimaey þennan dag. Fjórir fórust. Einar Kárason rithöfundur hefur lengi ætlað að fjalla um þetta með sínum hætti og nú er skáldsaga hans byggð á þessum atburðum komin út og nefnist Opið haf.

Einar hefur sjálfur stigið ölduna á síðutogurum og farskipum þótt þekktari sé hann auðvitað fyrir afrek sín á ritvellinum. Hann segir að Guðlaugi hafi þótt athyglin sem beindist að honum óþægileg á sínum tíma. Það hafi farið illa í hann þegar farið var að gera leiksýningar og kvikmyndir upp úr reynslusögu hans og án þess að hann hefði verið hafður með í ráðum. Hann hafi kosið að tjá sig sem minnst um slysið og kom einatt löndum sínum fyrir sjónir sem hógvær og hlédrægur maður. Markaður af djúpri og biturri reynslu en með lífsvilja eins og hann verður sterkastur.

Einar segir lífsreynslu Guðlaugs svo yfirgengilega að hann hafi orðið sem rithöfundur að fást við þetta efni í bók. Það eitt að Guðlaugur hafi haldið andlegu þreki, einn svamlandi úti á rúmsjó, félagarnir farnir og margir kílómetrar til lands í vetrarveðri og kulda, hafi verið nægilegt tilefni.

„Ég hafði þó í rauninni ekkert annað í höndunum nema þessi þrjú viðtöl sem höfðu verið tekin við Guðlaug eftir slysið,“ segir Einar. Það þurfti því að skálda í eyðurnar.

Söguhetja bókarinnar heitir Okkar maður. Frásögnin er í þriðju persónu og gerist alfarið í hugarheimi Okkar manns. Einar segir að eina leiðin að því að skrifa bókina hafi verið að ímynda sér hvernig atburðarásin og hugsanir Guðlaugs hafi verið þessa örlagaríku nótt fyrir bráðum 38 árum.

„Svo kláraði ég bókina og leyfði ég Guðlaugi að lesa hana. Og hann var sáttur. Sáttastur samt að sagan fjallaði ekki um hann sjálfan heldur um mann sem hafði upplifað sömu atburði.“

Þetta er önnur bókin sem Einar skrifar sem byggir á hildarleik til sjós. Hin var Stormfuglar sem kom út 2018. Þar sagði Einar frá áhöfninni á Máfinum sem lenti í aftakaveðri og ísingu á Nýfundalandsmiðum. Bókin er skáldverk. Kveikjan var hrakningar togarans Þorkels mána í ársbyrjun 1959 í Nýfundnalandsveðrinu. Þá fylgdist þjóðin líka með sem einn hugur. Einar segir að formið á þessum tveimur stuttu skáldsögum sínum (nóvellum) sé það sama og á einni frægustu sögu sem gerð hefur verið um sjómennsku, ef kannski Moby Dick er undanskilinn. Gamli maðurinn og hafið eftir Ernest Hemingway og Stormfuglar Einars eru upp á nákvæmlega jafn mörg orð.

„Það er merkilegt hve lítið af lífi sjómannsins hefur verið notað í skáldskap á íslensku. Okkar stóri höfundur á 20. öld, Halldór Laxness, þótti hafa dekkað sviðið þegar hann hafði skrifað um bóndann Bjart, fiskvinnslustúlkuna Sölku Völku og Ljósvíkinginn í Heimsljósi. En hann skrifaði aldrei um sjómennina. Það er til mikið af góðum ævisögum af sjómönnum og frásögnum af sjómönnum en furðu lítið hefur ratað inn í skáldskap,“ segir Einar sem kveðst ætla að sækja áfram mikið í þennan djúpa brunn til skáldsagnagerðar.

Brot úr skáldsögunni Opið haf

Hann synti um hríð og reyndi að grilla í staðhætti
gegnum myrkrið og þar sem honum sýndist vera
lægra upp á landið ákvað hann að reyna aftur.
Sem fyrr hentu brimskaflarnir honum til og frá,
maður hendist til eins og blaðra, hugsaði hann,
eða lóðabelgur. Hann lamdist utan í sker á báða
bóga og tvívegis hentu brimskaflarnir honum upp
í fjörugrjótið til þess eins að láta útsogið draga
hann til baka, en í þriðja sinn náði hann taki á
kletti eða stórum steini og hélt sér þar föstum uns
stór alda kom og henti honum yfir klettinn og
nógu hátt upp í fjöru til að þar gæti hann legið í
sjávarfroðu og blöðruþangi. Hann skreið áfram og
reyndi að standa upp en fæturnir gáfu sig undan
honum. Það tókst þó með miklum herkjum að
brjótast áfram og brátt var hann laus úr þeirri
hættu að brimaldan gæti sótt hann á ný; hann
var kominn upp á nýja hraunið, svart og úfið.
Hann trúði því varla að hann væri kominn með
fast land undir fætur, og þó ekki undir fætur því
að hann var ekki enn farinn að geta staðið upp
að neinu gagni, hann var svona mest að reyna að
krafla sig áfram, það setti að honum mikinn svima
og líklega var hann með sjóriðu þótt hann hefði
sjaldnast fundið fyrir slíku áður, hugsaði að það
væri nú hallærislegt fyrir mann sem ætti að heita
sjómaður að vera með sjóriðu; honum fannst einhvernveginn eins og öldurnar væru enn að lyfta
sér og láta sig svo síga. Þótt það væri óþægilegt
að liggja á úfnu og hvössu hrauninu þá hvarflaði
að honum að leyfa sér að blunda og hvíla sig áður
en hann legði af stað til byggða, sem hann vissi
að var allmikil fjarlægð, einhverjir kílómetrar, en
gerði sér þó ljóst að ef hann legðist fyrir myndi
hann líklega verða fljótur að krókna; það var frost
og talsverður strekkingur og hann í rennblautum fötum upp úr sjónum, og það var eitthvað
fáránlegt við þá tilhugsun að lognast útaf þegar
hann var loksins kominn upp á land eftir að hafa
svamlað heila nótt á opnu hafi.