Íslenska sjávarútvegssýningin er nú haldin í þrettánda sinn og hófst í dag. Sem fyrr er það breska fyrirtækið Mercator Media Ltd. sem stendur fyrir sýningunni. Hún hefur verið haldin reglulega hér á landi síðan 1984, yfirleitt á þriggja ára fresti en vegna heimsfaraldurs Covid-19 eru nú liðin fimm ár frá því síðast var efnt til hennar.

„Eftir að hafa ekki gert neitt í tvö ár nema þrauka þennan tíma þá er afskaplega gott að geta vaknað aftur til lífsins og komið einhverju í verk,“ segir Andrew Webster, eigandi og framkvæmdastjóri Mercator Media.

Fiskifréttir slógu á þráðinn til hans fyrir nokkrum vikum þar sem hann var staddur í Aþenu, í rúmlega tuttugu stiga hita en hlakkaði til að komast aftur heim til Englands. Hann hafði verið á ferðalögum, meðal annars á fornar heimaslóðir í Ástralíu þar sem hann ólst upp. Ferðalögin komu þó ekki til af góðu einu, því faðir hans lést nýlega.

Frásögn af eigendaskiptum Íslensku sjávarútvegssýningarinnar í Fiskifréttum árið 2007.
Frásögn af eigendaskiptum Íslensku sjávarútvegssýningarinnar í Fiskifréttum árið 2007.

Hefði ekki trúað því

„Eins og alltaf hlakka ég mikið til að koma til Íslands núna.“ Hann hefur engin önnur persónuleg tengsl til Íslands, en segir það eitt af ævintýrum lífs síns að hafa kynnst Íslandi. Tíminn hér á landi hafi alltaf verið ánægjulegur.

„Ég hef setið í Bláa lóninu og staðið á fjallstoppum. Við höfum flogið umhverfis eldgos. Ég hef borðað ýmislegt sem flest annað fólk myndi ekki láta inn fyrir varir sínar og ég hef notið tilverunnar. Þetta hefur allt saman verið mjög ánægjulegt fyrir mig, en svona getur lífið æxlast. Ef einhver hefði ætlað að segja mér það, þegar ég var að alast upp í Melbourne, að ég ætti eftir að tengjast Íslandi sterkum böndum, þá hefði ég alls ekki trúað því.“

Hann er sem sagt frá Ástralíu, fæddur í Melbourne þar sem faðir hans var lengi vel þingmaður, og segir að tilviljun hafi orðið til þess að hann flutti til Evrópu. Fjölskyldan býr annars að stærstum hluta enn í Ástralíu, þar á meðal tveir bræður hans en yngsti bróðir þeirra býr í Kaliforníu.

„Ég kom til Evrópu í stutta skoðunarferð árið 1982 og þessar tvær vikur urðu að miklu stærra ævintýri.“

Kynntist ungur siglingum

„Ég var svo heppinn að byrja í siglingum með föður mínum þegar ég var sex ára gamall, þannig að ég hef verið að sigla í nærri 59 ár á alls konar bátum.“

Faðir hans var James Joseph Webster, lengi öldungadeildarþingmaður í Ástralíu og mikill áhugamaður um siglingar. Hann afrekaði það meðal annars að sigla 50 feta skútu frá Melbourne til Rabaul á Papúa Nýju-Gíneu, sem er 3000 sjómílna leið. Sonurinn erfði þennan mikla áhuga á siglingum og greip tækifærið þegar honum bauðst að taka þátt í erfiðri siglingakeppni árið 1991.

„Mér bauðst að taka þátt á tveggja manna seglbát í siglingakeppni til Asoreyja frá Falmouth í Bretlandi.“

Siglingakeppnin AZAB, eða Azores and Back, hefur verið haldin á fjögurra ára fresti síðan 1975. Siglt er fram og til baka, samtals 2400 sjómílna leið, á 8-18 metra löngum seglbátum, ýmist eins eða tveggja manna.

„Þetta gerðist fyrir löngu síðan, árið 1991, en það varð smá slys. Það fór þannig að 150 mílur norður af Sao Miguel rákumst við á eitthvað í hafinu og kjölurinn losnaði af bátnum. Hann sökk og við þurftum báðir að kúldrast á litlum Tinker Tramp gúmmíbát í sjö daga.“

Fundust fyrir tilviljun

Ekki gátu þeir látið vita af sér vegna þess að mikilvægur öryggisbúnaður brást þegar verst lét.

„Við vorum með 406 EPIRB neyðarsendi sem klikkaði á fyrsta degi, fylltist af vatni. Þannig rak okkur stjórnlaust þangað til herþota flaug yfir fyrir tilviljun eina. Hún var að svipast um eftir spænskum kafbát og kom auga á okkur.“

Þotan var þarna á ferðinni vegna þátttöku í heræfingunni Ocean Safari.

„Nokkrum tímum síðar kom portúgalska freigátan Vasco da Gama og náði okkur upp úr sjónum. Þannig að við vorum mjög heppnir þarna.“

Hann segir þetta vissulega hafa verið ævintýri og upp úr því hafi líka sprottið annað ævintýri. Þegar þetta gerðist hafði hann stofnað útgáfufyrirtækið Mercator Media en í framhaldinu jókst áherslan á öryggismál sjómanna og sjávarútveg almennt.

„Það má telja þetta til ógæfu en um leið leiddi þetta til þeirrar gæfu að ég sé enn á lífi til að segja þér frá þessu,“ segir hann.

Fimm ár eru liðin frá því síðast var hægt að halda Íslensku sjávarútvegssýninguna, sem annars hefur verið haldin reglulega á þriggja ára fresti síðan 1984. MYND/HAG
Fimm ár eru liðin frá því síðast var hægt að halda Íslensku sjávarútvegssýninguna, sem annars hefur verið haldin reglulega á þriggja ára fresti síðan 1984. MYND/HAG

Sýningavertíð

Eftir frestanir síðustu missera er nú runnin upp mikil sýningavertíð hjá Mercator Media. Í apríl  var haldin við höfnina í Antwerpen í Hollandi sýningin CoastLink þar sem áherslan var á skipaflutninga á stuttum sjóleiðum. Nú er röðin komin að Íslensku sjávarútvegssýningunni, en síðar í júní verður samhliða haldnar í Southampton á Bretlandi sýningarnar SeaWork og Marine Civils, þar sem kynntur er búnaður af ýmsu tagi fyrir hafnir og skip. Í október kemur svo röðin að Greenport sýningunni í Belgíu.

„Mercator Media er ekki stórt fyrirtæki,“ segir Webster, sem stofnaði fyrirtækið árið 1988. „Við erum held ég um 50 þegar mikið er um að vera. Fyrirtækið hefur starfað í um 35 ár og vaxið hægt og rólega.“

Mercator Media tók við Íslensku sjávarútvegssýningunni árið 2007 af öðru bresku fyrirtæki, Nexus Media Communications, sem þá var að verða gjaldþrota.

„Þau voru að reyna að losa eignir sínar, þær sem eftir voru, þannig að þetta var stórkostlegt tækifæri fyrir Mercator Media á þeim tíma. Og svo sannarlega hefur það reynst okkur vel.“

Auk sýningarhalds gefur Mercator Media út tímarit sem öll snúast um siglingar, veiðar, hafnir og önnur málefni tengd sjónum.

Bóman virðist lækka

„Ég hef alltaf haft taugar til hafsins og verið mikið í tengslum við sjóinn,“ segir Andrew, sem nú er kominn á sjötugsaldur. „Ég sigli ennþá eins mikið og ég get. Eldra fólkið í þorpinu sem við búum í, við reynum alltaf að fara annan hvern sunnudag eða svo út á litlum Laser-kænum, þegar háflóð er. En það verður að segjast eins og er að þetta verður erfiðara með árunum. Bóman virðist vera farin að lækka með hverju árinu, og hnén á mér eru ekkert mjög hrifin af þessu lengur. En ég hef ennþá gaman af að sigla og reyni að minnsta kosti að stússast eins mikið í kringum sjóinn og ég get. Það er stórkostlegt.“

Haustið 1984 var fyrsta Íslenska sjávarútvegssýningin (IceFish) haldin. Vettvangur sýningarinnar fyrstu fimm skiptin var Laugardalshöll in í Reykjavík en árið 1999 hafði sýningin sprengt það rými utan af sér og hún flutt í Kópavog þar sem hún hefur verið haldin síðan. Til samanburðar við umfang sýningarinnar nú þá var sýningin í upphafi haldin í einum litlum íþróttasal og tveimur bráðabirgðaskemmum sem fluttar voru inn frá Hollandi. Nú eru sýnendur mörg hundruð frá tugum landa úr öllum heimshornum.