Rikki er fæddur árið 1959 í Reykjavík og ólst fyrstu árin upp á Grettisgötu 3. Afi hans, Stefán Skaftason einn af stofnendum Lúðrasveitar Reykjavíkur, bjó ásamt konu sinni, Vigdísi Sæmundsdóttur, á Bergstaðastræti 17. Þar í kjallaranum rak hann skósmíðastofu. Þangað vöndu komur sínar ekki ómerkari menn en sjálfur Kjarval og Skúli Þorvaldsson í Síld og fisk. Kannski hefur fyrsta listræna fræinu verið sáð í barnssálina á Bergstaðastrætinu þegar meistari Kjarval drakk kaffi með afa gamla. Rikki gekk reyndar menntaveginn stuttan spöl en á góðar minningar úr kennslustundum í teikningu í Langholtsskólanum. Þar var sá háttur hafður á að kennarinn útdeildi verkefnum til nemenda sinna og settist síðan við píanóið og spilaði eigin lagasmíðar. Kennarinn var Sigfús Halldórsson og líklega hefur Lítil fluga sveimað um skólastofuna meðan teiknað var. Rikki gerði þó ekkert með myndlistaráhugann fyrr en hann var kominn á fertugsaldurinn.

Sjómennskan rann líka í æðum ættarinnar. Stefán Agnar Magnússon, faðir Rikka, var um langt skeið sjómaður, meðal annars á Jóni Forseta RE og fleiri síðutogunum. Síðustu árin í lífi sínu sá hann um kaffistofu Eimskips í Faxaskála og var þá orðinn hjartveikur. Hann lést einungis 57 ára gamall.

„Ég er af Zoëga ættinni og hef stundum pælt í því hvers vegna pabbi notaði ekki ættarnafnið. Það var ekki fyrr en tengdasonur minn fór að gúggla að í ljós kom að pabbi hafði lent í einhverju misjöfnu á sínum yngri árum, meðal annars selt einhverjar gallabuxur sem aldrei voru til. Ég vissi ekkert um þetta. Sennilega hefur ættin sett sig á móti því að hann tæki upp ættarnafnið en bræður hans gerðu það.“

  • Viðmælendur Fiskifrétta eru sammála um að Rikka fellur aldrei verk úr hendi. MYND/Óskar P. Friðriksson

Fyrst til Eyja ´74

Það var mikið framundan hjá Rikka þegar við hittumst í messanum á Bergey. Undirbúningur fyrir Sjómannadaginn stóð sem hæst. Í meira en tuttugu ár hefur hann eldað skötu handa öllum í Sjómannadagsráði. Skatan hefur komið í netin á Bergeynni og Rikki hefur verið að kæsa hana um borð. Að lokinni máltíð er farið í kirkju.

„Sjómannadagurinn er okkar stærsti hátíðisdagur hérna í Eyjum. Í fimm ár í röð hef ég reynt að fá forseta Íslands til að vera með okkur. En hann er auðvitað upptekinn maður. Ég talaði við hann núna fyrir skemmstu og sagði honum fyrst frá því að við værum frændur. Amma mín Vigdís og afi Guðna forseta voru systkini. Það fór vel á með okkur og honum þótti það mjög leitt að komast ekki til okkar að þessu sinni. Hann hafði lofað sér annað. Hann færði mér samt þau tíðindi að forsetafrúin, frú Eliza Reid, myndi heiðra samsætið. Hún verður ræðumaður á sjómannadaginn sem er okkur auðvitað mikill heiður,“ segir Rikki.

Rikki kom til Eyja til að vinna í frystihúsi Ísfélagsins 1974, árið eftir gos. Sama ár dó faðir hans, 57 ára gamall. Rikki kláraði gagnfræðaprófið í Reykjavík og hélt svo aftur til Eyja þar sem hann hefur búið sleitulaust síðan 1975.

„Ég fór á Vestmannaey 1978 og var með hinum landskunna vélstjóra Önnu Kristjánsdóttur sem þá hét Kristján Kristjánsson. Ég hef verið með tveimur öðrum til sjós sem hafa breytt um kyn. Sagt er að strákarnir hérna í áhöfninni séu í áhættuhóp. Svo fór ég á Klakk 1979 og var þar með Sigga Vídó og Eiríki hesti. Þá var Klakkur gerður út af Samtogi hérna í Vestmannaeyjum sem var líka með Breka og Sindra. Ég var reyndar sjanghæjaður í Klakkinn. Ég hafði verið í góðu partíi í húsi rétt hjá Ísfélaginu og hafði fengið mér fegrunarblund þar. Ég vissi ekkert af því þegar Eiríkur hestur kom í veisluna og bar mig sofandi um borð. Það bráðvantaði víst mann. Þremur dögum síðar stóð til að björgunarsveitin hæfi leit að mér því það láðist öllum að láta vita af því að ég væri kominn á sjó. Erla Vídó skipstjórafrú hafði þó frétt af því að ég væri þarna um borð og kom því eitthvað áleiðis þannig að leit var hætt.“

Það bráðvantaði mann

Eiríkur hestur var maður mikill að vöxtum og rammur að afli. Hann var stýrimaður á Klakknum og sonur Sigga Vídós skipstjóra. Eiríkur lék stórt hlutverk í kvikmynd Þráins Bertelssonar, Nýtt líf, þar sem sögusviðið var Vestmannaeyjar. Siggi Vídó skipstjóri, Sigurgeir Ólafsson, þótti afbragðs skipstjóri, einkar lunkinn markvörður með Íþróttafélaginu Þór og einstakur vítabani. Vídó viðurnefnið festist við hann en það tengist þó ekki fótboltanum eins og margir halda, heldur er það dregið af æskuheimili hans, Víðivöllum. Síðar tóku börn hans og barnabörn upp ættarnafnið Vídó.

Rikki sjálfur er fyrir löngu orðinn Eyjamaður og nú stendur af honum talsverður ættbogi í eyjunni fögru Heimaey; tvær dætur og fimm barnabörn og öll búa í Eyjum. Hann segir að það þurfi að búa í 40 ár á Akureyri til að geta talist vera þar heimamaður en til að verða Vestmanneyingur dugi að skipta um póstnúmer.

„Mér var hent í djúpu laugina 1981. Þá var ég á Vestmannaeynni. Ómar Garðarsson [núverandi ristjóri Sjómannadagsblaðs Vestmanneyja og Eyjafrétta] var kokkur og bað mig um að leysa sig af. Ég var blautur á bak við eyrun og kunni ekki að sjóða kartöflur hvað þá annað. Það var farið út klukkan átta um kvöldið á sjómannadegi. Ég svaf ekkert um nóttina fyrir kvíða. Sverrir Gunnlaugsson var stýrimaður og hjálpaði mér af stað. Einhvern veginn hafðist þetta.“

1983 keypti Bergur-Huginn togarann Bergey VE sem áður var Lárus Sveinsson SH frá Ólafsvík. Sverrir Gunnlaugsson var stýrimaður og nefndi tvo menn sem hann vildi hafa í áhöfn sinni; Berg Kristinsson sem annan stýrimann og Rikka sem kokk. Þar byrjaði í raun ferill Rikka sem sjókokks sem nú hefur staðið í næstum 40 ár.

„Ég gerði alls kyns mistök, kryddaði matinn alltof mikið og sauð rækjurnar svo þær urðu að þurrum svampi. Skipstjórinn var ekki himinlifandi með mig. Svo átti ég það til að fara reglulega upp í brú og spyrja karlinn hvenær við færum í land og fékk jafnan þau svör að við værum nýfarnir á sjó og spurningin væri fullkomlega ótímabær. Sennilega voru allir brjálaðir út í kokkinn og ég vildi bara losna. En Sverrir bjargaði mér oft fyrir horn. Hann er dálítið með kokkinn í sér.“

Rikki gafst þó ekki upp og á endanum náði hann býsna góðum tökum á eldamennskunni. Núna er hann meira fyrir það að matreiða fisk en kjöt og býður upp á fiskmeti í hádeginu alla virka daga. Hann segir að hægt sé að matreiða fisk á endalausa vegu og kitla bragðlaukana með ólíkum eldunaraðferðum, kryddum og meðlæti.

Alinn upp á þverskorinni ýsu

„Það eru breyttir tímar. Ég ólst að mestu upp á þverskorinni ýsu, rauðmaga, hvalkjöti, kjötfarsi, lúðusúpu, sveskjugraut, makkarónugraut, kakósúpu og brauðsúpu. Karlarnir vilja líka steikur og meðfram fiskiréttum býð ég upp á nautalundir, lambakjöt og ýmislegt annað. Í gær var mánudagur, mikill afli og mikið að gera. Þess vegna hafði ég lambalæri og ís á eftir.“

Karlarnir redda sér á morgnana með kaffi, brauði og morgunkorni því Rikki mætir ekki á vaktina fyrr en klukkan tíu en er líka að fram að miðnætti. Tólf karlar eru á Bergeynni og Rikki er með tvær heitar máltíðir á dag. Auk þess er hann á fullu í aðgerð en passar að kartöflurnar séu soðnar og tilbúnar þegar hann eldar hádegismatinn upp úr hádegi sem getur þó dregist fram til klukkan tvö eftir aflabrögðum hverju sinni. Hann segir að einn mikilvægasti eiginleiki kokks sé skipulagning. Oft er hann í aðgerð eftir öll holin þegar þannig stendur á vöktunum. Og ef það er rifið er hann kominn upp á dekk að bæta.

„Ég lærði að bæta net þegar ég var á togurunum. Þetta er mikilvæg kunnátta. Hér áður fyrr voru alltaf hálfdrættingar á skipunum sem má ekki í dag. Við tókum alltaf tvo peyja með okkur á sumrin og þeir voru bara í kennslu allan túrinn. Þeir lærðu pokahnútinn og að bæta net. Þetta var góður skóli fyrir þessa krakka og þeir fengu hálfan hlut. Nú eru allir á einum hlut nema yfirmennirnir og líka þeir sem gera ekki handtak allan túrinn. Við höfum fengið menn sem eru sjóveikir öllum stundum en fá samt sinn hlut óskertan.“

Lýsan er búbót

Rikki hefur verið á öllum Bergeyunum þremur sem gerðar hafa verið út frá Vestmannaeyjum. Hann segir að mikill munur sé á nýju Bergey og Bergey annarri sem hann var á frá 2007 og allt þar til nýja Bergey var sótt til Noregs í fyrra. Hann segir sama mannskapinn á nýja skipinu og þetta sé samhent og góð áhöfn sem nauðsynlegt er á skipi sem var að veiða 5-6 þúsund tonn á síðasta ári.

„Þetta er allt annað líf en vissulega velta öll skip. Þessi skip eru svo stutt og þau stampa dálítið. Þetta er bara einnar öldu skip en við erum nánast alltaf upp í kálgörðunum. Þetta er kannski ekkert sanngjarnt. Við vorum til dæmis að taka bara 19 tonna hal af þorski á klukkutíma upp við land. Þetta er nánast allt hrygndur fiskur. Ég man eftir því á gömlu Bergeynni þegar við Sverrir Gunnlaugsson vorum á Frímerkinu hérna vestur af Eyjum. Okkur blöskraði hvað fiskurinn var hrognafullur. Og þarna var talsverður floti að veiðum. Sverrir hringdi í ráðuneytið og sagði að fiskurinn væri allur að fara að hrygna og hvort ekki væri rétt að loka svæðinu. Svörin sem hann fékk voru þau að þetta væri ekki rétt. Þessi fiskur væri allur búinn að hrygna.“

Annar fiskur sem Bergeyin og líka Vestmannaeyin hafa sótt í meðfram þorski, ufsa og ýsu er lýsa. Hana er að finna í Háfadýpi í um þriggja kortera siglingu frá Eyjum. Í síðasta túr var kastað þar og dregið í klukkutíma og eftirtekjan var 15 tonn. Lýsan fer mest megnis á Frakklandsmarkað en eitthvað minna fer í fish&chips á Englandi. Lýsan er talsvert minni en ýsan en svipuð að gæðum.

  • Ekki bara kokkur.

„Það eru ekki aðrir en við og Vestmannaeyin að bera sig eftir lýsunni að ráði. Það nennir þessu engin þótt þetta sé utan kvóta. Við hirðum allt sem við fáum og það er dálítill verkur að gera að þessu. Við vorum í sjö tíma að gera að þessum 15 tonnum. En fyrir vikið fáum að vera meira að með því að fara í fleiri tegundir. Lýsan er hérna við bæjardyrnar á þessum tíma en svo hverfur hún í apríl-maí. Menn voru oft í vandræðum í maí þegar þeir voru að byrja á humar, því það var allt morandi í lýsu sem enginn vildi hirða.“

Blálangan hreinsuð upp

Rikki nefnir aðra tegund sem menn eru ekki lengur að nýta. Það séu ekki nema þrjár til fjórar hrygningarstöðvar blálöndu í heiminum og ein þeirra var suður af Surt. Flotinn hafi sótt þangað og tekið 30-40 tonna höl. Pokinn hafi komið upp á undan hlerunum því það hafi verið svo mikið loft í blálöngunni. Svo hafi ekki fengist neitt fyrir aflann.

„Við þurrkuðum þetta upp á árunum 1980 til 1984. Besta dæmið um þetta rugl var þegar við fylltum í tíu gáma af blálöngu og fengum 29,80 kr. fyrir kílóið en það kostaði 27 kr. að senda hvert kíló. Við fengum því 1,80 kr. fyrir hvert kíló. Það eru breyttir tímar núna. Veiðunum er stýrt af vinnslunni og nú snýst málið um að fá sem mest verðmæti fyrir aflann. Innanlandsneyslan á stærstu mörkuðunum, eins og Bretlandi, skiptir líka sköpum. Sama dag og pöbbarnir opnuðu í vor fór ýsuverðið í 670 kr. kílóið þar. Það er því bjartara framundan og mér finnst veiðin líka vera meiri núna en hefur verið. Það er alls staðar fiskur. Það eru reyndar færri en öflugri skip um þetta og líka meiri friðun. En það er öllu verra með humarinn. Áður fyrr vorum við alltaf að fá hellings humar sem meðafla á þessum bleyðum en hann sést ekki lengur. Það kemur varla skott. Ég held ég eigi sex skott inni í frysti sem hafa komið á einum mánuði. Áður var þetta 2-3 kíló á mann eftir hvern róður. Það er bara ofveiði um að kenna alveg eins og með blálönguna. Menn hafa bara verið að djöflast á þessum svæðum allt árið og skemmt þau.“

Rafsuðupinni í hjartað

Rikki hefur upplifað eitt og annað til sjós og sumt sem hann vill alls ekki endurtaka. Hann fékk hjartaáfall um borð í Vestmannaey 2011 en lét engan vita.

„Það var tíu metra ölduhæð og 25 metrar að suðvestan. Við vorum á heimleið í myrkrinu þegar ég fékk verk eins og rafsuðupinni hefði verið rekinn í hjartað á mér. Ég náði að hringja í dætur mínar og konuna og var eiginlega að kveðja þau. Svo fór ég í koju í fósturstellingu og einhverra hluta vegna vaknaði ég eldhress um morguninn. Ég dreif mig á fætur og fór að skúra og gera kostlista. Ég fékk mér kaffi og eina eða tvær Camel. Svo fór ég upp á sjúkrahús og var sendur tafarlaust með sjúkraflugi til Reykjavíkur þar sem skipt var um þrjár æðar og framkvæmd hjáveituaðgerð. Það var komið drep í 30% hjartans. En ég náði mér furðufljótt. Ég stundaði göngur. Byrjaði 7 á morgnana og gekk allan daginn og fékk mig góðan á nokkrum mánuðum. Ég hefði getað farið á góðan lífeyri en mér datt ekki í hug að þiggja hann og vildi heldur á sjóinn.“

Sjómaður Vestmannaeyja

Rikki málar þegar tækifæri gefast. Hann er með góða vinnuaðstöðu með Viðari Breiðfjörð sem einnig er afkastamikill málari og var valinn myndlistarmaður Vestmannaeyja 2019. Eigendur veitingastaðarins Kró hafa haldið úti myndlistarsýningum og báðu Rikka um að vera með sýningu 2020. Hann setti það skilyrði að myndirnar yrðu 20 talsins, og flestar af Hellisey og að allur ágóðinn af seldum verkum rynni til Krabbavarna í Vestmannaeyjum.

„Ég bætti nokkrum úteyjum við og gerði alls 27 myndir. Þær seldust allar og afraksturinn var hátt í 800 þúsund kr. sem ég gaf Krabbavörnum. Ég fékk svo marga í lið með mér og sýningin gekk eins og í sögu í miðju Covid fárinu.“

  • Bjórmiðinn hans Rikka.

Rikki var kjörinn Sjómaður Vestmannaeyja 2017 og nafnbótinni fylgir að ölgerðin í Eyjum, Brother‘s Brewery, lagar bjór til heiðurs sjómannni ársins. Einungis eru lagað í sex flöskur og flöskumiðinn er mynd af viðkomandi sjómanni. Sjómaður Vestmannaeyja fær flösku nr. 1, Sjómannadagsráð Vestmannaeyja býður upp flösku nr. 2 á ballinu í Höllinni, Brother‘s Brewery fær flöskur nr. 3, 4 og 5 og Sjóminjasafn Íslands fær sjöttu flöskuna. Sjóminjasafnið á nú allgott safn af bjórflöskum með myndum af Sjómanni Vestmannaeyja allt frá árinu 2016.

Flaska nr. 2 er boðin upp á Sjómannadaginn og ágóðinn rennur jafnan til góðgerðamála. Það þurfti þó að hafa fyrir því að tala Rikka inn á þessa hugmynd. Ástæðan var sú að hann var að verða 57 ára þetta ár og hélt í raun og veru að myndi geispa golunni við það. Pabbi hans hafði dáið 57 ára og systir hans líka. Þeir hjá ölgerðinni töluðu Rikka inn á þetta með því að segja að bjórinn yrði ljós, 5,7% að styrkleika og Rikki setti það skilyrði að Krabbavörn fengi ágóðann. Flaskan var slegin áhöfninni á Hugin á 555.000 kr. Sjómaður Vestmannaeyja 2020 var Óskar heitinn Þórarinsson á Frá VE. Flaskan var slegin fjölskyldu Óskars á 1.200.000 kr. Í flestum tilfellum hefur afrakstur uppboðsins runnið óskertur til Krabbavarna Vestmannaeyja. Félagið veitir krabbameinssjúkum fjárhagslegan stuðning, meðal annars til ferðalaga vegna sjúkdómsins.

Viðtalið birtist fyrst í Sjómannadagsblaði Fiskifrétta í júní 2021.