Enn reyna sjómenn og útgerðarmenn að ná saman í kjaradeilu sem staðið hefur yfir í þrjú ár. Helsti ásteytingarsteinninn hefur verið krafa sjómanna um hærra viðbótarframlag í lífeyrissjóð.

„Krafa útgerðarmanna er sú að sjómenn borgi að fullu fyrir það að fá lífeyrissjóðinn, með þá lækkun á skiptaprósentu,“ segir Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands.

„Við erum búnir að teygja okkur alveg í botni þar og erum í 70% núna, og við erum tilbúnir til að festa það þar. Það eru þá okkar framlag í þessum væntanlegu orkuskiptum útgerðarinnar. Krafan okkar fyrst var að 76% kæmu til skipta. Þannig að við erum búnir að teygja okkur ansi langt, við förum ekki lengra.“

Deiluaðilar hafa mætt á fundi hjá sáttasemjara á tveggja vikna fresti, en þó var gert hlé á fundarhöldum síðasta sumar. Fundur var haldinn í síðustu viku, en Valmundur segir að lítið hafi komið út úr honum.

„En í staðinn fyrir að slíta þessu bara eins og við ætluðum þá ákváðu menn að halda eitthvað smá áfram.“

Óformlegar þreifingar

Ákveðið var að halda áfram óformlegum þreifingum en formlegur fundur hefur ekki verið boðaður.

„Það er stefnt á að reyna að ná einhverju saman. Það er alveg vitað svo sem hvað er klárt og hvað er ekki klárt. Það er bara stóra málið sem stendur út af, kaupskrármálin náttúrlega og svo lífeyrissjóðurinn. Það er ekkert komið fyrr en það er komið. Það er ekkert í hendi hvort það finnist einhver lausn.“

Hann er samt spurður hvort farið sé mögulega að sjá fyrir endann á þessari langvinnu deilu.

„Ég sagði fyrir jól að menn sæju til lands í radarnum, en það er ekki komin landsýn með berum augum. En svo getur radarinn klikkað eða komið þoka eða rigning, þá sér hann ekki eins vel í land.“

Og hvað, eru þá bara verkföll næst, takist ekki að ná saman?

„Já, ef að menn vilja það þá verður það svo.“

Það sem sameinar

„Þrátt fyrir að viðræður hafi tekið til muna lengri tíma en væntingar okkar stóðu til, þá vil ég leyfa mér að vera bjartsýn,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS). „Okkur miðar í rétta átt og það hefur aðeins losnað um stærstu hnútana.“

Hún segist síður vilja tala um að einhver tiltekin úrslitastund sé að nálgast í deilunni.

„Félagsmenn bæði útgerða og stéttarfélaganna hafa falið samninganefndum það verkefni að ná samningum og það er á ábyrgð okkar sem skipa þær nefndir að ljúka því verkefni. Það eru sem betur fer til muna fleiri þættir sem sameina okkur en sundra. Þar liggur áherslan.“

Lægstu lágmarkslaunin

Launakerfi sjómanna er vitaskuld töluvert frábrugðið því sem annað launafólk á að venjast, enda er það hlutaskiptingin sem ræður

„Sjómenn eru auðvitað á gengistryggðum launum, getum við sagt. Alveg eins og útgerðin er á gengistryggðum hagnaði. Þegar vel gengur hjá sjómönnum þá gengur vel hjá útgerðinni, og öfugt. Það helst í hendur,“ segir Valmundur.

Hann segir þó að frá árinu 2015 hafi lágmarks kauptrygging alltaf fylgt launaþróun í landinu, en því sé ekki að heilsa lengur. Það hafi breyst þegar LÍÚ breyttist í SFS og eftir að samningar urðu lausir árið 2019 hefur kauptryggingin því verið óbreytt.

„Við eigum inni núna 150 þúsund kall ofan á kauptrygginguna. Vonandi þurfa sjómenn ekki að vera á kauptryggingu, en þetta skiptir verulegu máli fyrir til dæmis þá sem lenda í veikindum. Þegar þeir detta niður á tryggingu þá munar um þennan 150 þúsund kall. Sjómenn eru núna með lægstu lágmarkslaun í landinu, 326 þúsund krónur á mánuði.“

  • Þessi frétt birtist upphaflega í Fiskifréttum fimmtudaginn 12. janúar.