Hafrannsóknastofnanir á Íslandi, í Noregi og Færeyjum hafa tekið saman fjölda greina um þær breytingar sem orðið hafa á vistkerfi sjávar og umhverfi í Norðaustur-Atlantshafi.

Þar á meðal eru nýjar rannsóknir á norsk-íslensku síldinni sem sýna að henni hefur tekist að vera í góðum líkamlegum holdum með því að færa megin sumarfæðuslóð sína í vestur átt, og þá norður og austur af Íslandi, ásamt því að lengja viðveru á fæðuslóð fram eftir haustinu. Jafnframt sýna þesssar rannsóknir að það er eldri og stærri síldin sem gengur lengra í vestur en sú yngri. Með stækkandi stofni jókst stærð útbreiðslusvæðisins og þéttleiki síldar varð meiri.

Hlýnun í hafinu

Guðmundur J. Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunnar, er meðhöfundur tveggja greina um þessi efni. Þær birtust í nýlegu sérhefti tímaritsins Frontiers in Marine Science ásamt 17 öðrum vísindagreinum og allar fjalla þær um breytingar á umhverfi og vistkerfi sjávar í Norðaustur-Atlantshafi. Meðal annars er í heftinu fjallað um hafeðlis- og efnafræði, frumframleiðni hafsins, sviflæg dýr, fisksjúkdóma og fiska.

„Þetta er svona hitt og þetta, tengist ekki allt en rauði punkturinn er þessi hlýnun í hafinu og hvaða áhrif hún hefur haft,“ segir Guðmundur. Hann segir þetta hefti sprottið upp úr samstarfi vísindamanna frá Íslandi, Færeyjum og Noregi sem hafa verið með rannsóknir í Noregshafi.

„Auðvitað eru fleiri sem koma að þessu, en innan Alþjóðahafrannsóknaráðsins er vinnuhópur sem hefur verið að skoða vistfræðibreytingar í Noregshafi. Það er innan þess hóps sem var ákveðið að taka saman hefti með ýmsum rannsóknum sem við höfum verið að vinna að.“

Alls ekki horuð

„Upphaflega byrjar þetta með rýnifundi um stofnmat á norsk-íslenskri síld sem var fyrir nokkrum árum. Þar voru menn með töluverðar áhyggjur af því að síldin væri svo horuð. Það var töluverð umfjöllun um þetta.“

Meðal annars hafði norskur vísindamaður, Jens Christian Holst, skrifað mikið um áhyggjur sínar af því að makrílstofninn væri orðinn það stór að hann væri kominn í hörkusamkeppni við síldina um æti. Síldin væri orðin afar horuð af því makríllinn væri að éta allt frá henni.

„Við fórum því að taka saman öll okkar gögn frá þessum þremur stofnunum, og bara skoða hvort þetta væri raunveruleikinn. Sem var náttúrlega alls ekki. Við erum þvert á móti að sjá að síldinni hefur bara vegnað mjög vel í þessum breytingum sem hafa orðið. Hún gerir það með því að víkka útbreiðslusvæði sitt til vesturs, norður fyrir Ísland þar á meðal. Fer á slóðir þar sem hún er ekki í samkeppni við makríl.“

Áfram hlýtt

Í heftinu eru líka athyglisverðar greinar um árlegan breytileika hafstrauma, sjógerða og varmainnihald Noregshafs.

„Það hefur verið hátt þessi ár öll, upp úr 2005 og það hefur haldist fram á síðustu ár. Þótt við höfum séð lítilsháttar kólnun við Ísland síðustu ár sem hefur haldið áfram upp í Noregshaf, þá er varnainnihald sjávarins í heild áfram hátt.“