Mikil tímamót urðu í lok maímánaðar þegar varðskipið Óðinn fékk á ný haffærisskírteini. Allt frá árinu 2014 hefur verið unnið að uppgerð skipsins af velunnurum þess í sjálboðavinnu. Því verður siglt til Grindavíkur aðfararmorgun sjómannadagsins og tekur þátt í skemmtisiglingu með grindvíska fiskiskipaflotanum. Varðskipið verður svo sýnt gestum og gangandi á sjómannadaginn. Skipherra er Vilbergur Magni Óskarsson, fyrrverandi stýrimaður og skipherra Landhelgisgæslunnar og núverandi skólastjóri Skipstjórnarskólans.

Egill Þórðarson loftskeytamaður er einn þeirra sem hefur lagt hönd á plóg við uppgerð skipsins. Egill var reyndar smyrjari einn vetur á Óðni. Hann var ásamt Guðna Skúlasyni, sem lengi var loftskeytamaður á Óðni, í óða önn við að setja upp gömlu loftskeytastöðina þegar slegið var á þráðinn.

Óðinn fór í reynslusiglingu um mánaðarmótin.
Óðinn fór í reynslusiglingu um mánaðarmótin.
© Jón Páll Ásgeirsson (Jón Páll Ásgeirsson)

Landhelgisgæslan afskráði skipið og afhenti Hollvinasamtökum Óðins það til varðveislu árið 2008. Óðni var fundinn varanlegur staður við Safnabryggjuna við Sjóminjasafnið í Reykjavík. Eins og gefur að skilja fór ýmislegt að gefa sig í skipinu sem hafði legið óhreyft við festar í mörg ár. 2014 gáfu sig fram nokkrir vélstjórar sem hafa unnið að endurbótum vélbúnaði og fljótt fjölgaði í hópnum sem vildi lagfæra skipið. Alls er þetta um tíu manna hópur og flestir komnir á eftirlaun og gefa vinnu sína. Margir þeirra höfðu verið á Óðni en þó ekki allir. 2018 var ákveðið á fundi Hollvinasamtakanna að skipinu yrði siglt á ný. Og nú er það að raungerast.

Tilfinningar og skip

„Menn bindast skipum tilfinningalegum böndum og þá sérstaklega þessu skipi. Óðinn á sér mjög merkilega björgunarsögu og var algjört tímamótaskip á sínum tíma. Það var að mörgu leyti langt á undan sinni samtíð þegar það kom til landsins í janúar 1960. Almannavarnahlutverk skipsins var þaulhugsað á sama tíma og það hugtak þekktist varla á Íslandi. Það átti að vera hægt að afgreiða 100 máltíðir í einu í eldhúsinu en það voru 24 í áhöfn. Messarnir taka 50 manns í sæti og kojur í skipinu eru helmingi fleiri en þarf fyrir áhöfnina,“ segir Egill.

Varðskipið tók þátt í öllum þremur þorskastríðunum á 20. öldinni. Það dró alls tæplega 200 skip til lands eða í landvar vegna bilana, veiðarfæra í skrúfu eða eldsvoða um borð. Einnig dró Óðinn flutninga- og fiskiskip fjórtán sinnum úr strandi. Þá bjargaði skipið áhöfnum strandaðra skipa þrisvar sinnum og tvisvar bjargaði það áhöfnum sökkvandi skipa.

Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur skaffaði olíu fyrir siglinguna til og frá Grindavík, Þorbjörn hf. stóð að stærstum hluta straum af viðgerðum á þröskuldum sem kostuðu nær hálfa milljón kr. og Vísir hf. greiddi reikninginn fyrir breytingu á landgangi stjórnborðsmegin í skipinu. En þeir sem hafa lagt hvað mest til málanna er þessi hópur velunnara varðskipsins Óðins sem hafa í mörg ár gefið alla sína vinnu við uppgerð skipsins.