„Ég hef alltaf verið með þessa hugmynd í maganum,“ segir Gunnar Bergmann Traustason sem selur fisk og ekur honum til viðskiptavina á öllu Snæfellsnesi.

Gunnar segist hafa verið sölustjóri hjá Fiskmarkaði Breiðafjarðar, síðar Fiskmarkaðar Íslands, allt frá stofnun þess fyrirtækis þar til hann hafi verið látinn fara eftir nítján ára starf. Þess utan hafi hann gert út sinn eiginn bát. Allt frá árinu 2018 hafi hann í fyrirtæki sínu Hafkaup unnið fisk í Rifi og ekið honum beint  til viðskiptavina á öllu Snæfellsnesi.

„Það hefur ekki alltaf gengið vel á þessu tímabili. Ég fékk náttúrlega Covid í hausinn um leið og ég byrjaði og er varla að jafna mig enn þá af því en það er að hafast,“ segir Gunnar.

Hugsi yfir ferðalagi fisks

Kveðst Gunnar hafa ekið fiski á um þrjú hundruð heimili og bóndabæi á Snæfellsnesi og hann þjóni nær öllum veitingastöðum á Nesinu. Hann sé einnig með elliheimili í Grundarfirði, Stykkishólmi og nú síðast á Akranesi í viðskiptum.

Gunnar hefur mikla reynslu að baki og kveðst oft hafa hugsað þessi mál. „Þegar ég var á markaðnum þá var fiskur kannski keyptur í Ólafsvík og keyrt með hann til Reykjavíkur þar sem hann var flakaður og svo var hann keyrður aftur til Ólafsvíkur. Og svo þaðan yfir á Hótel Búðir,“ lýsir Gunnar löngu ferðalagi fisks út úr landshlutanum og innan hans.

Gaman að geta boðið ferðafólki íslenskan fisk

„Ég er bara að selja allt sem kemur upp úr Breiðafirði,“ svarar Gunnar spurður um vöruúrvalið. Hann sé reyndar einnig með rækjur og humar sem hann kaupi af Djúpalóni í Reykjavík.

Fiskinn býður Gunnar unninn í fimm og tíu kílóa pakkningum sem ekið er heim að dyrum. Viðskiptavinir komi líka í verkunina sjálfa. „Útlendingar hafa komið í heimsókn og keypt kannski tvö flök. Ég hef ekkert verið að skammast yfir því vegna þess að það er alltaf gaman að geta boðið þeim upp á nýjan íslenskan fisk.“