Þvert á það sem margir telja sýna rannsóknir á fæðu sela að þeir snerta varla við löxum. Landselum fækkaði mest meðan hringormanefnd var starfandi.

„Mikilvægasta fæða selanna var síli, flatfiskar, þorskfiskar, loðna og síld, en ekkert benti til þess að laxfiskar séu étnir í neinum mæli,“ sagði Sandra Magdalena Granquist þegar hún kynnti nýverið rannsóknir og vöktun selastofna við Ísland á málstofu Hafrannsóknastofnunar.

Partur af þeim rannsóknum lítur að því að skoða saursýni úr selum til að kanna hverju þeir hafa verið að nærast á: „Þetta er illa þefjandi vinna, en einhver þarf að sinna henni,“ sagði hún og hló.

Til samanburðar voru stangveiðimenn spurðir hvort þeir hafi fundið særða laxa. Á fundum með fulltrúum stangveiðifélaga víða um land hafði verið fullyrt að allt að 30% fiskanna gætu verið með sár, en niðurstöður spurningakönnunarinnar voru þær að í raun voru aðeins um 0,05% laxanna með sár.

„Og þau sár voru ekkert öll af völdum sela. Þannig að þótt það geti komið fyrir að selir éti laxfiska þá er greinilegt að það myndi ekki hafa nein áhrif á laxveiðimöguleika að drepa mikið af selum. Auðvitað getur verið að einstaka selir taki upp á að að éta laxa í stórum stíl. Það er þekkt annars staðar frá, en þá væri tilgangslaust að skjóta aðra seli en þessa sem sérhæfa sig í laxaáti, ef tilgangurinn er að fjölga þeim löxum sem hægt er að veiða.“

Langlífi

Eitt af stærstu verkefnum hennar og félaga hennar í selarannsóknum er að vakta og gera stofnstærðarmat fyrir bæði útsel og landsel. Bæði landsel og útsel hefur fækkað mikið á síðustu áratugum. Landselastofnin hefur látið verulega á sjá en mesta fækkunin varð á níunda áratugnum þegar hringormanefnd greiddi fé fyrir seladráp. Hún segir mikinn meðafla sela í grásleppuveiðum sennilega stærstu hættuna sem steðjar að þeim núna, en aðspurð sagði hún ekkert benda til þess að sá meðafli hafi aukist í seinni tíð.