Þetta kemur fram í ársskýrslu dýralæknis fisksjúkdóma fyrir árið 2021. Gullinrafi er hraðvaxta hlýsjávartegund sem í dag er alin í örfáum landeldisstöðvum, en einnig í sjókvíum í Miðjarðarhafi. Stolt Sea Farm hefur hug á að reyna þessa tegund í eldi samhliða senegalflúru.

Á liðnu ári fóru komu tvær sendingar af smáseiðum frá kynbótastöð Futuna Blue Espaňa í Andalúsíu á suðvestur Spáni. Annars vegar var um að ræða 600 seiði sem komu í júlí og síðar komu um 7.200 seiði um haustið.

Í skýrslunni segir að eldi á gullinrafa hefur hlotið aukna athygli á liðnum misserum, ekki síst vegna mikilla vinsælda tegundarinnar við matreiðslu á sushi.

„Tegundin er verðmæt, en sushi gerir þá kröfu að eldið fari fram í lokuðu landeldi til að koma í veg fyrir sníkjudýrasmit í holdi. Örfáar eldisstöðvar hafa sérhæft sig í klaki og seiðaframleiðslu tegundarinnar og þar er Futuna Blue framarlega í flokki, en stöðin afhenti sín fyrstu seiði til áframeldis árið 2012,“ segir þar.

30 tonna eldi

Fiskifréttir greindu frá þessum áformum Stolt Sea Fram síðastliðið sumar þegar Matvælastofnun samþykkti breytingu á rekstrarleyfi fyrirtækisins.

Fyrirtækið, sem er með starfsemi sína á Reykjanesi, hefur hug á tilraunaeldi á allt að 30 tonnum af gullinrafa, sem er seldur á sömu mörkuðum og senegalflúra sem fyrirtækið hefur framleitt um nokkurra ára skeið.

Styrjueldi sem fyrirtækið hafði reynt um tíma var við þessa breytingu hætt.

Aukið framboð af heitu vatni var þá tiltekið sem forsenda þess að hefja þetta eldi. Seiðin eru alin innan dyra í tönkum í 4-5 mánuði eða þar til þau hafi náð 350 gramma stærð og þá verður fiskurinn fluttur út í ker þar sem hann er alinn í sláturstærð.

Umfangslítil viðbót

Á meðan tilraunaeldi stendur eru áform um að ala 30-40 tonn á ári sem krefst árlega innflutnings á um 7-10.000 smáseiðum. Ef tilraunir lofa góðu er áætlað að auka framleiðsluna í þrepum upp í allt að 600 tonna ársframleiðslu á næstu árum. Gullinrafi er tvöfaldur að verðmæti miðað við lax og vex hraðar, en framleiðslukostnaður er hærri, segir í skýrslu dýralæknis en í dag er landeldi m.a. stundað í Hollandi og Danmörku og hyggjast Norðmenn skipta út laxi fyrir gullinrafa í einni af sinni stærstu landeldisstöð sem tekin var í notkun 2019.

Hvorki Hafrannsóknastofnun né Fiskistofa telja tegundina líklega til þess að hafa neikvæð áhrif á náttúrulega fiskistofna hér, meðal annars vegna þess að gullinrafi er hlýsjávartegund sem að öllum líkindum myndi ekki þrífast í sjó við Ísland. Fóðurnotkun verður um það bil 35 -45 tonn á ári og því minniháttar aukning við þau 450-550 tonn af fóðri sem notað er í eldi Stolt Sea Farm áður en tilraunaeldið hófst.

Stolt Sea Farm var með tilraunaeldi á styrju allt frá árinu 2014, en tilgangurinn var að kanna möguleika á því að koma á fót kavíarframleiðslu hér á landi. Styrjan á Reykjanesi dafnaði vel en þó var ákveðið að leggja eldið af. Fyrirtækið hefur jafnframt alið senegalflúru frá árinu 2012 og hefur leyfi fyrir um tvö þúsund tonna ársframleiðslu.

Eins og Fiskifréttir sögðu frá í nóvember sl. keypti Hið Norðlenzka Styrjufjelag ehf. styrjurnar af Stolt Sea Farm og ætlar að ala þær áfram í gömlu salthúsi í Ólafsfirði. Þar verður styrjueldi, seiðaeldi og framleiðsla á kavíar úr styrjuhrognum, ef áætlanir ganga eftir.