Norðmenn hafa hrundið af stað markaðsátaki til þriggja ára á Spáni til að auka sölu sína á saltfiski. Sagt er frá því á heimasíðu Norges sjømatråd, Norska sjávarafurðaráðsins, að markmiðið sé skapa norskum saltfisk sérstöðu á markaðnum hvað varðar vinnsluaðferðir og gæði. Þetta verður stærsta einstaka fjárfesting Norðmanna nokkru sinni í markaðssetningu á saltfiski. Íslenskir saltfiskframleiðendur segja ástæðu til að hafa áhyggjur af þessu skrefi Norðmanna.

Norges sjømatråd er opinbert hlutafélag í eigu viðskipta- og sjávarútvegsráðuneytis Noregs. Það hóf starfsemi 1991 undir nafninu Eksportutvalget for fisk en nafninu var breytt í Norges sjømatråd 2012. Það er með höfuðstöðvar í Tromsø  og starfrækir þrettán skrifstofur sem annast markaðsmál utan Noregs. Starfsemi Norska sjávarútvegsráðsins er fjármögnuð með útflutningsgjaldi sem lagt er á allar útfluttar sjávarafurðir frá Noregi.

Bjørn-Erik Stabell, sem stýrir markaðsátakinu á Spáni, segir Íslendinga hafa einokað saltfiskmarkaðinn á Spáni. Markmiðið með markaðsátakinu sé að fá Spánverja til að kaupa „norskt“ þegar þeir kaupa saltfisk.

„Markaðsátakinu er ætlað vekja athygli á norskum saltfiski hjá fiskinnflytjendum, verslanakeðjum og neytendum. Við ætlum að beina sjónum einkum að rótgrónum neytendum á Norður-Spáni sem vilja halda á lofti sínum saltfiskhefðum og leggja áherslu á upprunalegt hráefni og gæði,“ segir Bjørn-Erik Stabell. Hann segir að löng hefð sé fyrir norskum saltfiski á þessum slóðum og hann hafi fyrst verið á borðum Spánverja strax á 17. öld og „var upphafið að sjávarafurðaævintýrinu milli Noregs og Spánar.“

Úr þorski án MSC-vottunar

Norska sjávarafurðaráðið hefur fengið til liðs við sig þekktan sjónvarpskokk frá Norður-Spáni, Karlos Arguiñano. Auk þess verða framleiddir þættir með „sendiherra sjávarafurðaráðsins“ og kokkinum Hung Fai, sem er frá Bilbao þar sem neysla á saltfiski er hvað mest á Spáni. Í þáttunum deilir hann uppáhald saltfiskuppskriftum sínum með áhorfendum og „segir frá og útskýrir hvers vegna norskur saltfiskur er samasemmerki fyrir gæði“.

Einnig hefur verið framleiddur þáttur þar sem Hung Fai útskýrir skref fyrir skref hvernig á að útvatna saltfisk.

„Í markaðsátakinu ætlum við ekki að nálgast saltfiskinn sem tískumatvöru heldur leggjum við áherslu á gæðaþáttinn í þessum rótgróna þjóðarrétti Spánverja,“ segir Kari-Anne Johansen, verkefnisstjóri fyrir markaðssetningu hefðbundinna sjávarafurða hjá Norska sjávarafurðaráðinu. Einnig hafa verið framleidd auglýsingamyndbönd sem sýnd verða á staðbundnum sjónvarpsstöðvum á Norður-Spáni og myndbönd með uppskriftum á spænsku sérsniðin markhópnum.

Bjørn-Erik Stabell segir að mesti þunginn í markaðsátakinu verði árið 2023. Ennþá liggi ekki kostnaðaráætlun fyrir „en þetta verðuðr stærsta, einstaka fjárfestingin sem við höfum ráðist í í tengslum við markaðssetningu á saltfiski,“ segir hann.

Breytir litlu að sögn

Þess er hvergi getið í frétt Norska sjávarútvegsráðsins að Norðmenn hafa misst MSC-vottun á þorski í norskri fiskveiðilögsögu. Aðilar kunnugir saltfiskmörkuðum segja það breyta litlu eða engu um sölu á fiski í löndum sunnarlega í Evrópu. Þeir segja jafnframt að íslenskir saltfiskframleiðendur hafi ástæðu til að hafa áhyggjur af fyrirhugaðri markaðsókn Norðmanna. Þjóð sem geti gert eftirsóknarverða vöru úr lélegu hráefni eins og hrygningarþorski út um alla Evrópu undir vörumerkinu „skrei“ sé vís til þess að ná góðum árangri með saltfisk einnig. Markaðsstarf með íslenskar sjávarafurðir sé einnig með minnsta móti og vörurnar seldar undir fjölmörgum mismunandi vörumerkjum meðan sjávarafurðir Norðmanna eru seldar undir einu vörumerki, Norge.

  • Sérstakar kynningar á íslenskum saltfiski virðast fyrirmynd Norðmanna, t.d. að fá matreiðslumeistara til starfa. Mynd/Íslandsstofa

Á sama tíma og Norðmenn undirbúa stórsókn með saltfiskinn sinn hefur íslenskum saltfiskframleiðendum fækkað og margir þeirra snúið sér að ferskfiskframleiðslu.

Ari Hafliðason, skrifstofu- og útgerðarstjóri Odda hf. á Patreksfirði og formaður Íslenskra saltfiskframleiðenda, segir hátt fiskverð vissulega hafa komið illa niður á saltfiskframleiðendum.

„Þeim sem eru í saltfiskframleiðslu á Íslandi hefur fækkað allverulega, jafnvel þótt verð fyrir saltfisk á Spáni og Ítalíu hafi verið ágæt. Við hérna hjá Odda framleiðum saltfisk úr stærsta fiskinum, 9-10 kg fiski upp úr sjó, og það er aðeins þegar það er yfirflæði á vetrarvertíð sem við framleiðum úr minni stærðum. En ég held að það sé óhætt að segja það að saltfiskverkun er ekki vaxandi atvinnugrein í augnablikinu,“ segir Ari.

Þegar mest var voru nálægt 30 félög innan samtaka Íslenskra saltfiskframleiðenda en þau eru núna 22 talsins, þar af nokkur sölufyrirtæki.

Þekking á gæðum að hverfa

Varðandi markaðsátak Norðmanna segir Ari að Oddi hf. hafi verið eitt af fyrstu fjóru fyrirtækjunum sem fengu MSC-vottun á Íslandi en það hafi engu breytt hvað viðvíkur saltfisk.

„Þjóðir eins og Ítalía og Spánn hafa ekki lagt áherslu á MSC-vottun. Það er miklu frekar gert í löndum eins og Bretlandi, Þýskalandi og Sviss. En það er alveg ljóst að markaðsátak eins og Norðmenn eru að setja í gang getur haft verulega áhrif á íslenska saltfiskframleiðendur. Norðmenn hafa staðið sig vel í markaðsmálum á sama tíma og við höfum ekki náð að stilla saman strengi okkar eins og var gert upp að vissu marki á árum áður undir merkjum t.a.m. SÍF. Síðan hafa markaðsmálin verið á hendi hvers og eins  og það kann ekki góðri lukku að stýra.“

  • Íslenskur saltfiskur á fiskmarkaði á Spáni. Aðsend mynd

Ari segir að saltfiskmarkaðir hafi breyst mikið á tiltölulega skömmum tíma og vöruþróun tekið mið af samfélagsbreytingum. Stundum hafi verið haft á orði að með fráfalli hverrar spænskrar ömmu glötuðust tíu saltfiskneytendur. Íslenskir saltfiskframleiðendur telji sig bjóða upp á meiri gæði en Norðmenn en nú sé svo komið að vitneskja um gæði er að týnast. Áður fyrr var á Spáni sérstök stétt manna sem kölluðust útvatnarar og þeir þekktu manna best gæðin. Nú er þessi þekking að hverfa og þess vegna sé enn frekari ástæða til að ætla að Norðmenn geti náð góðum árangri í sölu á saltfiski á Spáni úr lakara hráefni.