„Núverandi fiskveiðiár hefur verið okkur erfitt. Við erum alltaf að treina karfakvótann í von um að ná í ufsann sem við megum veiða. Maður biddu fyrir þér. Miðað við 20% skerðingu karfakvótans milli fiskveiðiára stefnir í hreina skelfingu. Maður gæti skilið þetta ef gullkarfastofninn væri í lægð. En þvert á móti er karfi um allan sjó og mikið af honum.”

Þetta segir Friðleifur Einarsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Helgu Maríu AK, í frétt á heimasíðu Brims. en skipið kom til hafnar í Reykjavík á mánudagsmorgun með um 150 til 160 tonna afla.

Friðleifur segist hafa byrjað veiðarnar á Vestfjarðamiðum, nánar tiltekið í Víkurálnum. Þaðan hafi verið haldið á Halann og loks í Nesdjúp.

„Það var karfi í Víkurálnum og á Halanum en við enduðum veiðiferðina suður á Fjöllum. Við vorum að vonast eftir ufsa en á Fjöllunum var bara karfi. Alls náðum við að slíta upp um 35 tonn af ufsa í túrnum og vorum svo með rúm 40 tonn af þorski. Hitt var karfi og eitthvað bland með,” segir Friðleifur.

Ekki var fjölskipa á miðunum og t.d. segir Friðleifur að aðeins einn línubátur hafi verið á Fjöllunum þegar Helga María kom á svæðið.

„Ég held að menn séu almennt komnir í sumarfrí. Sennilega vegna þess að þeir eru kvótalitlir og búnir með karfakvótann,” segir hann.